Allir vildu Lilju kveðið hafa

Þær gleðifréttir bárust hér og á RÚV í dag að mælt hefði verið fyrir frumvörpum - ekki einu, ekki tveimur heldur þremur - til laga um greiðsluaðlögun. Þó að metingur hafi verið um frumkvæðið er næsta - og mikilvægasta - verkefnið að bera saman hvert frumvarpanna þriggja er best til þess fallið að koma til móts við hagsmuni neytenda í miklum skuldavanda af því að fá úrlausn hjá opinberum, hlutlausum fagaðila hvort fella megi hluta skuldanna niður ef ekki er raunhæft í fyrirsjáanlegri framtíð að standa undir þeim skuldbindingum.

 

Hinu má gjarnan halda til haga að eftir að ég tók við embætti talsmanns neytenda var það núverandi forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, sem fyrst hreyfði málinu með því að bera fram þessa fyrirspurn til viðskiptaráðherra fyrir rúmum tveimur árum:

 

Er ráðherra reiðubúinn til að beita sér fyrir löggjöf um greiðsluaðlögun fyrir fólk í verulegum greiðsluerfiðleikum líkt og gert hefur verið í Danmörku og Noregi?

 

Þáverandi viðskiptaráðherra, Jón Sigurðsson, óskaði álits míns sem talsmanns neytenda - og var það mjög jákvætt og rökstutt ítarlega:

 

Að lokum vil ég árétta að ég tel mjög brýnt að sett verði lög um greiðsluaðlögun í því skyni að koma á fót raunhæfu og skilvirku úrræði til þess að takast á við fjárhagsvandræði einstaklinga.

 

Eins og þar kemur fram hafði þá a.m.k. fimm sinnum verið lagt fram frumvarp um greiðsluaðlögun og ef mig misminnir ekki átti þar í hlut sami þingmaður - núverandi forsætisráðherra. Árum saman var sem sagt ekki beinlínis keppst um að leggja slík mál fyrir Alþingi í frumvarpsformi - hvað þá að samþykkja þau. Erum við þó í þessu efni um aldarfjórðungi á eftir norrænum frændum okkar.

 

Viðbrögð viðskiptaráðherra fyrir tveimur árum voru hins vegar skjót og góð - enda þingkosningar í nánd - því hann skipaði nefnd til að semja frumvarp um málið. Sú nefnd starfaði fram yfir kosningar og fram á síðasta ár. Fyrir vikið taldi ég raunar óþarfa að nefna greiðsluaðlögun sem brýnt neytendamál þegar fyrrverandi ríkisstjórn tók við í maí 2007 er ég vakti athygli á fjórum meginatriðum sem ný ríkisstjórn stæði frammi fyrir í neytendamálum

 

Afurðina taldi ég þó ekki eins góða þegar drög að frumvarpi til laga um greiðsluaðlögun leit dagsins ljós síðsumars í fyrra - skömmu fyrir kreppu; síðan virtist málið týnast í Stjórnarráðinu um nokkurra mánaða skeið. Nú geta þeir sem gæta eiga hagsmuna og réttinda neytenda hins vegar einbeitt sér að því að leggja mat á hvaða frumvarp hentar best.

 

Að mínu mati er hér um að ræða félagslegt úrræði sem best er fyrir komið hjá félagsmálaráðuneyti - en áður en lengra er haldið er best er að bera saman frumvörpin þrjú sem mbl.is birti í dag:

 

Frumvarp dómsmálaráðherra

Frumvarp sjálfstæðismanna

Frumvarp framsóknarmanna


mbl.is Mælt fyrir frumvörpum um greiðsluaðlögun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Ég fagna því mjög að frumvörpum þetta efni skulu vera komin fram. Er ekki nægilega vel að mér á lagasviðinu til að dæma um þau, vona að sjálfsögðu að besta leiðin verði farin.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 5.2.2009 kl. 23:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.