Nýr þjóðfundur - um 95% hlynnt stjórnlagaþingi

Stjórnlagaþing er það kallað þegar haldin er lögleg bylting.

 

Yfirgnæfandi stuðningur virðist vera víða í samfélaginu um að kosið skuli til stjórnlagaþings sem endurskoði stjórnskipun landsins frá grunni - og leggi grundvöll að nýju lýðveldi eins og margir orða það. Af þeim um 250 sem sáu færslu mína á fimmtudagskvöld með skoðanakönnun um stjórnlagaþing sem ég hafði áður birt uppskrift að greiddi að vísu innan við helmingur atkvæði en af þeim svöruðu tæp 94% eftirfarandi spurningu játandi:

 

Á að kjósa til sérstaks stjórnlagaþings á árinu 2009, óháð Alþingi, sem semji nýja stjórnarskrá sem borin verði undir þjóðina?

 

Það mætti segja mér að atburðir dagsins - og þá á ég ekki bara við breytingarferlið sem hófst með embættistöku Obama fyrir 5 klst. síðan - hafi ýtt undir kröfuna um og þörfina á stjórnlagaþingi - nýjum þjóðfundi.

 

Eins og hér kom fram átti fyrsta stjórnarskráin „okkar“ 135 ára afmæli fyrr í þessum mánuði en hana fengum við að gjöf frá konungi okkar og Dana 1874. Eftir  um 10 daga verður heimastjórnin 105 ára því hún tók til starfa 1. febrúar 1904; síðan hefur stjórnskipulag lítið breyst  - sem m.a. endurspeglast í nánum tengslum þings og æðstu handhafa framkvæmdarvalds. Meginröksemdir fyrir róttækri stjórnarskrárbreytingu eru þó þessi:

 

  • Frumkvæði að stjórnarskrárbreytingum hefur hingað til aðeins getað komið frá Alþingi og stjórnmálaflokkunum sem þar eiga fulltrúa.
  • Stjórnarskrárbreytingar hafa ávallt fallið í skugga almennra kosninga.
  • Heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar hefur oft staðið til en alltaf mistekist.
  • Vantraust er á stjórnvöldum og stjórnmálaflokkum.
  • Krafa er um beint lýðræði.
  • Óskir eru uppi um róttæka heildarendurskoðun stjórnskipunarinnar.

 

Ef sammæli er um að stjórnlagaþing sé eðlilegasta leiðin nú til þess að gera róttækar breytingar á stjórnskipan Íslands og stofna nýtt lýðveldi má hér finna uppskrift að stjórnlagaþingi í 12 skrefum:

 

  1. „Núverandi Alþingi afgreiðir stjórnarskrárbreytingu um tímabundið stjórnlagaþing sem fái vald til þess að semja nýja stjórnarskrá.
  2. Þing er rofið og kosið að nýju eins og skylt er þegar frumvarp um stjórnarskrárbreytingu er samþykkt.
  3. Stjórnlagaþing kemur saman þegar stjórnarskrárbreyting er samþykkt öðru sinni af nýkjörnu Alþingi.
  4. Ekki verði aðeins um smávægilegar lagfæringar að ræða eins og hingað til.
  5. Þingmenn og ráðherrar eigi ekki sæti á stjórnlagaþingi.
  6. Á stjórnlagaþing verði kjörnir í almennum kosningum fulltrúar þjóðarinnar.
  7. Einnig gætu almannasamtök og hagsmunasamtök fengið áheyrnarfulltrúa, t.d. í starfsnefndum stjórnlagaþings, en aðeins þjóðkjörnir fulltrúar hafi atkvæðisrétt.
  8. Sjálfstæði stjórnlagaþings sé tryggt með því að fulltrúar þar séu launaðir, stjórnlagaþing ákveði sjálft skipulag sitt, fundarsköp og starfshætti.
  9. Stjórnlagaþing geti ráðið sér sérfræðinga til aðstoðar.
  10. Starfstími stjórnlagaþings gæti verið um hálft ár.
  11. Alþingi og ríkisstjórn starfi áfram að sínum hefðbundnu úrlausnarefnum á meðan.
  12. Ný stjórnarskrá verði borin undir þjóðina í bindandi allsherjaratkvæðagreiðslu.“

 

Aðeins 4,5% voru andvíg því að kosið yrði til stjórnlagaþings og innan við 2% voru hlutlausir eða vildu ekki svara.

 

Ég er farinn á Austurvöll.


mbl.is Beittu kylfum á mótmælendur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þorsteinsson

Sæll Gísli

Held að sjálfsagt muni þessar hamfarir kalla fram einhvers konar breytingar, en veit ekki hverjar. Fannst þessi mótmæli í dag fara talsvert úr böndunum.

Sigurður Þorsteinsson, 20.1.2009 kl. 22:44

2 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Sæll Gísli.

Þetta er afgerandi niðurstaða og eykur mér bjartsýni og ekki veitir af nú þegar allt logar í óeyrðum á Austurvelli. Nú er að mínu áliti komið að ögurstundu í þessu ferli öllu, sem hefur verið með ólíkindum. Skynsemin verður að ná yfirhöndinni svo uppbygging geti hafist og örvinglaða fólkið öðlist aftur von. Ég bið fyrir landinu og fólkinu á hverju kvöldi, sendi því trú von og kærleika í huglægu teppaformi. Það hjálpar mér mikið að halda ró og skynsemi sem ég vil ekki missa frá mér. Farðu gætilega á Austurvelli.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 20.1.2009 kl. 23:44

3 Smámynd: Guðmundur Pálsson

Ég er hlynntur stjórnlagaþingi og samningu nýrrar stjórnarskrár. Stjórnmálamenn mega hvergi koma nærri þeim gerningi. Velja má 500manns með hlutkesti á kosningabærum aldri og fá haldbæran þverskurð þjóðarinnar og láta þá vinna verkið. Auðvitað með aðstoð fjölda fagmanna. 6 mánuði mættu fulltrúarnir hafa til að gera þetta og tvo fyrstu eingöngu til að mennta sig og viða að sér upplýsingum hérlendis frá og erlendis.

Guðmundur Pálsson, 21.1.2009 kl. 10:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband