"Hvað kostar vatnssopinn í þessu flugi?"

Ég hef áður tjáð mig um aukagreiðslur í flugi en ekki gengur að mínu mati að bæta endalaust við viðbótargreiðslum vegna þjónustu sem áður var innifalin í farmiðaverði - einkum ef um er að ræða þjónustuliði sem allir þarfnast. Aðeins er unnt - en ekki skylt eða endilega eðlilegt - að innheimta aukagreiðslu fyrir valkvæða aukaþjónustu.

 

Um þetta er fjallað í síðasta helgarblaði International Herald Tribune þar sem fyrirsögnin er:

 

 Hvað kostar vatnssopinn í þessu flugi?

 

Ég hef áður brugðist við þessari tilhneigingu flugfélaga að rukka fyrir þjónustuliði, sem áður voru eða eiga að teljast innifaldir, og hef ég gert það á öðrum sviðum án þess að hátt hafi farið. Mun ég, eftir sem áður, freista þess að sporna við því að aukagreiðslur verði teknar fyrir þjónustuliði sem eru nauðsynlegur þáttur í aðalsölunni; t.a.m. er eðlilegt að geta innritað a.m.k. eina ferðatösku, njóta þjónustu og komast á salerni við flug milli landa og ekki hægt að rukka ferðatöskugjald, þjónustugjald, innritunargjald, vatnsgjald eða salernisgjald af þeim sökum.

 

Því er haldið fram í fréttinni að flugfarþegar séu ekki lengur farþegar heldur möguleiki til þess að krefja um aukatekjur. Bent er á að neytendur hafi ekki brugðist harkalega við enda sýnir sá eini nafngreindi neytandi, sem rætt er við, óhóflegan stuðning við málstað flugfélaga vegna hækkandi eldsneytiskostnaðar. Þá kemur fram að öryggissjónarmið fæli neytendur frá að kvarta í flugvélum.

 

Mitt sjónarmið er, sem sagt, að valkvæð aukaþjónusta geti lotið samkeppnislögmálum (maður getur þá t.d. tekið samloku með sér) en að ekki megi krefja um aukagreiðslur fyrir það sem er eðlilegur hluti flugferðar; það á að vera innifalið í flugfarmiðagjaldinu, auglýst og háð samkeppni á flugleiðinni.

 

Fram kemur í fréttinni að eitt bandaríska flugfélagið auglýsi frelsi frá aukagjöldum - en auðvitað hærri fargjöld því hádegisverðurinn er aldrei ókeypis. Vandinn við gjöldin er m.a. ógagnsæi og sú hætta að þegar eldsneytiskostnaður lækkar eins og þessa dagana er ekki víst að aukagjöldin lækki - hvað þá hverfi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Það er alltaf spurning hvað á að vera innifalið í farmiðaverði og hvað ekki.

Ef við berum saman t.d. rútuferðir og flugferðir, þá hefur það ekki tíðkast að bjóða upp á eitt né neitt í rútuferðum, ekki mat, ekki vatnssopa og ekki salerni nema ef til vill nú nýverið.   Ekki hefur verið nein þjónusta um borð og ekki hægt að kaupa neitt.  Líklega hefur þó yfirleitt verið stöðvað í vegakanti ef einhver hefur verið alveg í spreng, en ekki boðið upp á nauðsynleg eyðublöð ef þarfirnar hafa verið af gerð númer 2.

Þó eru margar rútuferðir lengri en flugferðir sem margir fara.

Hvað varðar farangur er það auðvitað umdeilandlegt hvað telst hæfilegt og eðlilegt.  Hvernig stendur t.d. á því að til Ameríku telst leyfilegt að hafa með sér 46 kíló, en til Evrópu aðeins 20 kíló?  Er fataþörfin svona mikið meiri í Ameríku?

Það er ekkert að því að bjóða upp á "strípuð" fargjöld og rukka aukalega fyrir, farangur, mat og annað slíkt ef það er tekið skírt fram í auglýsingum, og sömuleiðis kemur fram hvað þjónustan kostar.

Aðalatriðið er að allar upplýsingar séu handbærar, ekki að eitt eða annað sé "innifalið".

G. Tómas Gunnarsson, 19.8.2008 kl. 21:44

2 Smámynd: Gísli Tryggvason

Kjarninn er kannski þetta sem þú nefnir; hvað hefur tíðkast á viðkomandi sviði.

Svo bendir þú réttilega á að hægt er að stöðva út í vegarkanti og hleypa karlmönnum út. Flugfarþegar sitja ekki við sama borð og konur í rútum tæplega.

Við erum sammála um að ekki sé hægt að amast við því að rukka fyrir valkvæða aukaþjónustu. Ég geri ráð fyrir að við séum sammála um að ekki sé hægt að brytja niður í ýmis konar gjaldaliði nauðsynlega þætti (flug)ferðar. Svo þitt dæmi sé tekið gæti maður ekki tekið sætisgjald, beygjugjald og beltisgjald í rútu.

Gísli Tryggvason, 19.8.2008 kl. 22:07

3 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Aðalatriðið í mínum huga er upplýsingaskyldan, að það verði að koma fram með skýrum hætti hvað hlutirnir kosta.

Það má deila um hvað er valkvætt.  Tækni er orðin meiri og ferðamynstur annað.  Til dæmis má segja að það sé valkvætt að nota innskráningu t.d. í Leifsstöð, þegar hægt er að skrá sig inná netinu og prenta úr brottfararspjald.  Farangur er að vissu marki líka valkvæður, nú þegar oft er farið í mjög stuttar ferðir.  Það má æ oftar sjá ferðlanga sem eru eingöngu með handfarangur (ekkert týnist, engin bið eftir farangri o.s.frv). 

Það má velta því fyrir sér hvort að réttmætt sé að sá sem er eingöngu með handfarangur, og prentar sitt brottfararspjald sjálfur, eigi að þurfa að greiða jafn mikið og sá sem tékkar inn á gamla mátann og er með 20 kílóa tösku auk handfarangurs.

En auðvitað er þetta allt álitamál, en aðalatriðið tel ég vera að alt sé "upp á borðinu", og neytandinn viti að hverju hann gangi.  Ef rukkað sé t.d. sérstaklega fyrir farangur verði það að koma skýrt fram í auglýsingum og við bókun, og það ekki með neinu 4ja punkta letri sem * vísar á.

G. Tómas Gunnarsson, 20.8.2008 kl. 05:01

4 Smámynd: Gísli Tryggvason

Ég held að við séum nokkuð sammála - annað aðalatriðið er gagnsæi.

Gísli Tryggvason, 20.8.2008 kl. 12:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband