Rúm 90% svarenda vilja takmarka dreifingu fjölpósts til neytenda

Rétt rúmlega 90% svarenda í óformlegri skoðanakönnun hér á neytendablogginu vilja takmarka dreifingu óumbeðins fjölpósts til neytenda. Í þessu felst mikilvæg leiðbeining fyrir mig sem talsmann neytenda - sem hef unnið að slíkri takmörkun - því að mínu mati er þetta óvenju afdráttarlaus niðurstaða sem hlýtur því að gefa vísbendingu um vilja neytenda þó að auðvitað sé könnunin ekki eftir kúnstarinnar reglum, aðferðarfræðilega, þar sem ekki er um tilviljunarúrtak að ræða. Niðurstaðan er hins vegar mun afdráttarlausari en ég átti von á þrátt fyrir umfjöllun undanfarið sem má m.a. lesa hér, hér og hér á bloggsíðu minni og á vefsíðu talsmanns neytenda.

 

Spurt var:

 

"Á að takmarka rétt atvinnurekenda til þess að dreifa óumbeðnum fjölpósti í póstkassa/-lúgur neytenda með almennum reglum?"

 

Þá er athyglisvert að mikill meirihluti þeirra (60%) sem svara játandi vilja ganga lengra en lagt hefur verið til í starfsnefnd á vegum Póst- og fjarskiptastofnunar, þar sem ég átti sæti, en lesa má um strand þess starfs hér. Þessi stóri meirihluti svarenda, sem vill takmarkanir, vill að aðeins þeir sem segi sérstaklega "já takk" við fjölpósti fái hann - sem gengur mun lengra en ég hef lagt til í því skyni að tryggja rétt neytenda; slík leið þarf hins vegar að mínu mati að styðjast við traustari (laga)heimildir en sú leið sem ég reynt að tryggja og virkja, þ.e.a.s. að neytendur geti á einfaldan og samræmdan hátt sagt "nei takk" við fjölpósti og eru 40% þeirra neytenda, sem vilja almennar takmarkanir, sáttir við þá nálgun.

 

Af um 120 þeirra sem greiddu atkvæði var enginn hlutlaus eða vildi ekki svara; það segir sína sögu! Því voru rétt innan við 10% svarenda þeirrar skoðunar að ekki þyrfti að takmarka með almennum reglum rétt atvinnurekenda til þess að dreifa óumbeðnum fjölpósti í póstkassa eða -lúgur neytenda. Þeir skiptust milli svarkostanna að ástandið væri fínt eins og það væri (6%) og að neytendur gætu passað sig sjálfir (3,4%).

 

Önnur athyglisverð niðurstaða er reyndar að aðeins tæplega 15% þeirra nærri 800 gesta sem litu inn á bloggsíðu mína þessa rúma þrjá sólarhringa sem hin óformlega skoðanakönnun stóð yfir (fyrir mistök í stað 2ja) greiddu atkvæði. Auk hugsanlegs áhugaleysis á málefninu kann þessi lága "kjörsókn" að helgast af tvennu. Annars vegar eru e.t.v. margir sem eru fastagestir á síðunni og geta aðeins greitt atkvæði einu sinni í hverri könnun þó að þeir teljist sem gestir einu sinni á hverjum sólarhring (og myndi þá hlutfallið hækka í allt að 1/3-2/3 eftir því hvaða sólarhring er miðað við). Hins vegar voru færslur eftir upphafsfærsluna ekki tengdar fjölpósti nema neðanmáls. Þessi óvissa um "kjörsókn" gæti falið í sér að skynsamlegt væri að óformlegar skoðanakannanir stæðu aðeins í sólarhring og þá helst á virkum dögum þegar fréttalestur er heldur meiri (eða mjög lengi, ótímabundið, eins og sumir gera).

 

Eins og áður hefur vakin athygli á hér og við bloggdeild mbl.is er því miður ekki hægt að sýna niðurstöður skoðanakönnunar á blogginu eftir að tímabundinni könnun lýkur. Leiðbeiningin sem felst í slíkri óformlegri könnun sem þessari veitir hins vegar líkur á því að áframhald verði á hér á neytendablogginu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Bumba

Sæll og blessaður Gísli. Mig rekur ekki minni til að hafa svarað þér bloggi um ruslpóst, var að leita að því en fann ekki. Svo ég hlýt að hafa skrifað um það einhverjum öðrum. Mig langar til að segja þér frá því hvernig þetta er í Hollandi.

Maður kaupir miða sem ríkið gefur út. Á þessum miða stendur að það sé BANNAÐ að setja óaddressaðan póst í þenna póstkassa. Sé það hinsvegar gert þá er hringt í lögregluna og sá sem gefur út þennan ruslpóst og sá sem drefir honum eru bótaskyldir, sektirnar eru síður en svo lágar. Þannig að það er sárasjaldan sem maður fær ruslpóst þegar miðinn er annarsvegar. Réttur þegnans er því algerlega virtur. En því er síður en svo að heilsa hérna á Íslandi hvað þetta og svo margt annað snertir. Með beztu kveðju.

Bumba, 12.5.2008 kl. 10:31

2 Smámynd: Gísli Tryggvason

Takk; Holland er einmitt ein fyrirmynd mín að hönnun slíkra miða. þetta er þá afþökkunarleið (opt-out) eins og ég hef aðhyllst sem góða málamiðlun þannig að þeir sem ekki afþakka fjölpóst fá hann. Hitt er annað að mér finnst heldur óhentugt að neytandinn þurfi að kaupa miðann eða nálgast hann á mörgum stöðum eins og hugsanlega stefnir í. Ég vil gjarnan koma á kerfi sem gerir neytendum kleift að nálgast einn miða með aðgengilegum hætti.

Gísli Tryggvason, 12.5.2008 kl. 11:49

3 Smámynd: Haraldur Bjarnason

Gísli þetta sem Bumba segir er nákvæmlega það sem ég var að benda á í athugasemd hjá þér um dagin. Mér finnst þetta ofur einfallt. Við eigum okkar póstkassa og bréfalúgu.

Haraldur Bjarnason, 12.5.2008 kl. 11:54

4 Smámynd: Hrannar Baldursson

Gott framtak.

Ég neyddist til að segja upp áskrift minni að Mogganum vegna þess að póstkassinn var alltaf fullur af drasli, og þess vegna var blaðið oft frekar illa farið þegar búið var að troða fullt af drasli ofan í kassann. Ég vil fá að ráða yfir mínum pósti, rétt eins og ég get valið að sía út ruslpóst í tölvupósti. 

Hrannar Baldursson, 12.5.2008 kl. 12:12

5 Smámynd: Gísli Tryggvason

Rétt; neytendur eiga sinn póstkassa eða póstlúgu. Eignarrétturinn er ein rökin - en ekki einu rökin - sem ég hef stuðst við í þeim skrifum og vinnu sem ég vísa á í færslunni. Vissulega eru rökin fyrir rétti neytenda mörg og sterk - og niðurstaðan einföld, já. Vandinn - og verkefni mitt - hefur verið að tryggja að þessi réttur neytenda sé virtur og þar með virkur.

Gísli Tryggvason, 12.5.2008 kl. 13:10

6 Smámynd: Gísli Tryggvason

Takk; það er auðvitað valkostur sem ég hef ekki íhugað - sennilega af því að hann er óraunhæfur og ósanngjarn - að neytendur (rétthafar fasteigna) stækki einfaldlega póstkassa sína eða -lúgur svo að allt sem markaðurinn vill koma á framfæri komist inn - en ekki endilega á framfæri!

Gísli Tryggvason, 12.5.2008 kl. 22:38

7 Smámynd: Bumba

Sæll aftur Gísli.

Þú segir í færslu hér að ofan. Rétt; og allt það. af hverju eru eignarrétturinn ekki einu rökin eins og erlendis? Ef þú værir ekki með  pósthólfið þitt merkt þínu nafni þá hefðirðu engan fastan grunn til að standa á. Ómerkt póshólf er eitthvað allt annað. Þessvegna skil ég í raun og veru ekki hvað þú er að fara.Þú átt þitt pósthólf með þínu nafni og eingöngu þangað ætti að rata póstur sem er merktur þínu nafni sem merkt er  þínu pósthólfi. Þannig að þangað á enginn annar póstur neina leið nema að hann sé merktur þér persónulega. Þetta er hættuleg þróun hvernig hlutirnir eru að breytast hérna á Íslandi. Ekkert er farið eftir hvað fólkið persónulega vill. Það þarf að bukka sig og beygja eftir vilja auðvaldsins í alla kanta. Það er guði sé lof möguleiki á að neita þvi erlendis í Evrópu alla vega þar sem ég þekki til. Persónuverndin er í hávegum höfð í Hollandi og miklu víðar í Evrópu. Enn og aftur finnur maður fyrir þessari Amerísku spýju sem hellir sér yfir Ísland skifti eftir skifti. Verð því miður að segja það Gísli að þessi hugsun þín í þessari færslu HLÝTUR að vera af Amerískri hugsun borin. Með beztu kveðju.

Bumba, 13.5.2008 kl. 01:52

8 Smámynd: Gísli Tryggvason

Sæll B.; tókst því miður ekki að svara þér í vinnunni í dag. Ég tók skýrt fram að þetta væri valkostur sem ég hefði ekki íhugað - og hef enn ekki - og taldi að af orðum mínum um að hann væri "óraunhæfur og ósanngjarn" væri ljóst hver afstaða mín væri til þessarar hugmyndar sem lesa má úr athugasemd að ofan. Best að segja þetta enn skýrar: ég hef ekki lagt til, mun ekki leggja til og tel auðvitað ekki koma til greina að neytendum verði gert að stækka kassa sína endalaust. Með þessu vildi ég reyna að sýna fram á að enginn annar kostur er en að bregðast við eins og ég hef haft forgöngu um og lesa má um í löngu máli í tilvísuðum færslum og pistlum á talsmadur.is - ítarlegast í hér í talhorninu 13. apríl sl . Þar koma fram fleiri rök en eignarréttar með rétti neytenda. Að þeim misskilningi eyddum væri gaman að heyra hvort B. finnst fremur "já takk" (opt-in) eða "nei takk" (opt out) eiga við. Í millitíðinni hefur ibwolf tekið undir með okkur en ég vísa aftur í talhornið um ítarlegri rök - aðallega með neytendum en einnig gagnrök sem atvinnurekendur hafa fært fram - og um greiningu á milli mismunandi tegunda óumbeðinna sendinga eins og ibwolf víkur að.

Gísli Tryggvason, 13.5.2008 kl. 20:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband