Brjóst á berangri - hvar, hvenær og hvernig ber!

Mér finnst ekki sanngjarnt - eins og sumir bloggarar hafa gert í dag - að ljóstra upp um aprílgabb áður en þau eru um garð gengin eða hafa náð áhrifum; þess vegna beið ég fram á kvöld með að blogga um þetta besta aprílgabb dagsins - sem ég hef séð. Að vísu hef ég ekki enn séð fréttir eða blogg um að þetta aprílgabb en í vissu minni um það lét ég í raun gabbið hafa áhrif á mig - ég sat apríl, en hljóp ekki apríl!

 

Ég er alltaf með sunddót í bílnum og á kort í flestar sundlaugar á suðvesturhorninu og fer gjarnan í pottinn í þeirri laug sem ég er næst staddur. Síðdegis í dag átti ég fund í vesturborginni og hefði komið til greina að fara í mína gömlu heimalaug, Vesturbæjarlaugina, í tengslum við fundinn; af ótta við að vera myndaður á leið úr lauginni eins og aprílgabbaður syndaselur lét ég Kópavogslaugina duga.

 

Við þetta skemmtilega aprílgabb, sem mátti sjá víðar á blogginu, rifjaðist upp fyrir mér ágætis blogg (sem ég tek undir) ofurbloggara sama dag og ég byrjaði að blogga fyrir tveimur vikum síðan og athugasemdir við það um synjun við sænskri brjóstaberun í sundi en athugasemdir við þá frétt  hljóta að slá met (taldi þá um 40).

 

Enda þótt ég þykist vera feministi virðist mér þarna of langt gengið í "jafnréttisbaráttu."

 

Þó að tilvísaðar athugasemdir við bloggið og fréttina segi eiginlega allt sem segja þarf vil ég freista þess að slá botninn í þetta með því að bæta við að þetta mál er afstætt eins og fleiri; það er ekki sama hvenær, hvar, hvernig o.s.frv. - t.d. hvort um er að ræða brjóst í svefnherbergi, á sólarströnd, í sundi, brjóstagjöf á brautarstöð - eða franska forsetafrú. Svo skiptir máli afstaðan milli fólks - er um að ræða hjón eða tvo neytendur!

 

M.ö.o. eru sundlaugargestir - neytendur - á Íslandi ekki vanir því að brjóst séu beruð á "berangri" allan ársins hring. Þó að það hafi vitaskuld tíðkast í góðviðrinu sem ávallt var í sundlaug Akureyar - uppi í sólarbekkjabrekkunni - er ekki þar með sagt að hið sama eigi við í suddanum sunnanlands. (Skyldi einhver efast um réttmæti þess að ég geri greinarmun á landshlutum minni ég á að mismunun eftir búsetu er ekki bönnuð "berum" orðum í stjórnarskránni, 65. gr.) Ég er ansi hræddur um að jafnvægið myndi raskast í hópi sundlaugarneytenda - bæði til og frá og jafnt meðal karla og kvenna - ef konur færu að mæta þar berar að ofan.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ingi

Hummm

Ómar Ingi, 1.4.2008 kl. 22:07

2 Smámynd: Gísli Tryggvason

Jamm

Gísli Tryggvason, 1.4.2008 kl. 22:27

3 Smámynd: Gunnar Gunnarsson

já.

Gunnar Gunnarsson, 1.4.2008 kl. 22:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband