Eignaðist vin í gærkvöldi

Bloggið er eins og golf, að ég held, því blogg er greinilega skemmtilegra en ég óttaðist og eins tímafrekt og ég bjóst við; golfið hef ég hingað til forðast af sömu ástæðu enda ófáir lögmenn - og aðrir menn - sem ég þekki sem hafa ánetjast því eins og aðrir netinu. Ég taldi fram að þessu nægilegt að vera fréttafíkill - en vildi líka koma starfsemi talsmanns neytenda betur á framfæri - sem virðist geta tekist því þetta sjá mun fleiri daglega en heimasíðu embættisins á heilli viku. Við fyrstu raun virðist mér bloggið draga betur að en sjálft sjónvarpið enda er bloggið gagnvirkt eins og tölvuleikur - sem margt ungviðið ánetjast beinlínis og með alvarlegum afleiðingum.

 

Ég varð hreinlega að fara úr húsi til þess að hætta að fylgjast með í netheimum og taka örlítinn þátt í raunheimum. Fyrst ég gleymdi mér við að læra á þennan miðil borðaði ég seint, kjúklinga-fajitas; ennþá betra en venjulega, annað hvort vegna kryddblöndu eða vegna svengdar eftir bloggið. 

 

Þetta er athyglisvert samfélag sem ég er nú orðinn hluti af; ég hef hingað til sinnt því illa að lesa blogg (og ekki bloggað sjálfur þar til nú) nema á völdum miðlum eins og Eyjunni þar sem gott yfirlit fæst yfir samfélagsblogg og fréttir. Fyrsti blogg-vinur minn er reyndar gamall vinur minn úr Framsóknarflokknum, Gestur Guðjónsson - mjög virkur í bloggi um stjórnmál - en sjálfur hef ég ekki enn gefið mér tíma til að fara yfir tæknilega hluti bloggsins eða hvernig maður stofnar til vina á þessum vettvangi.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sturla Snorrason

Velkominn í Bloggheima og gangi þér vel að draga neytendur inn á síðuna til að fylgjast með sínum eigin hagsmunum. Sjálfur er ég búin að vera hér í nokkra mánuði að  skrifa um eitt stærsta hagsmunarmál höfuðborgasvæðisins sem eru skipulagsmál, flókið mál sem fáir skilja.

Sturla Snorrason, 23.3.2008 kl. 11:06

2 Smámynd: Gísli Tryggvason

Takk Sturla og gangi þér sjálfum vel; áhugaverð umræða. GT

Gísli Tryggvason, 23.3.2008 kl. 11:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband