Laugardagur, 22. mars 2008
Framboð á "konunglegu" sundi - í samræmi við eftirspurn!
Í kjölfar færslu um blessunarlega rýmkun lögheimilaðs verslunar- og þjónustutíma fór ég einu sinni sem oftar í sund með niðjana. Gífurleg eftirspurn eftir sundi í góðviðrinu í gær minnti helst á blíðviðrisdagana sem alltaf voru í æsku(minningu) minni í sundlaug Akureyrar þar sem ég er upp alinn. Framboðið á sundlaugum á föstudaginn langa nú var ekki síðra en eftirspurnin því í gær átti ég úr a.m.k. 4um laugum að velja hér á svæðinu, þ.e. Salalaug hér í Kópavogi sem er opin 8-12 stundir á dag alla frídagana fimm auk 3ja í Reykjavík (Árbæjarlaug, Laugardalslaug og Vesturbæjarlaug). Þessar laugar eru einnig allar opnar á morgun, sjálfan páskadag, í samræmi við undanþágu frá banni laga um helgidagafrið - sem ég tel þó helst til flókna lagasetningu eins og þessi texti gefur til kynna: rúm lögbundin undanþága frá víðtæku banni sömu laga.
Ég hef ekki kannað opnunartíma annarra lauga hér á Suðvesturhorninu sem ég sæki þó oft. Þessi góða þjónusta hefur reyndar lengi verið mér birtingarmynd þess að þó að einkaaðilar reki oft betur (í tvíræðum skilningi) en opinberir þá sýna sundlaugar landsmanna - nær allar reknar af hinu opinbera og væntanlega allar fyrir almannafé - að ekki þar með sagt að hið opinbera geti ekki veitt góða þjónustu; í þessu tilviki er hluti rekstrarfjárins reyndar fenginn með greiðslu frá borgurunum fyrir veitta þjónustu sem þannig teljast í raun neytendur.
Helst hef ég tvennt að athuga við þessa frábæru þjónustu sveitarfélaganna um hátíðarnar undanfarin ár. Annars vegar að greiða þarf fyrir laugarnar í með sérstöku korti fyrir hvert sveitarfélag og jafnvel fyrir hverja laug í stað þess að unnt sé að kaupa klippikort eða árskort í þær allar sameiginlega (þó að ég hafi enn ekki ákveðið að láta það til mín taka í embættis nafni). Hins vegar þarf maður helst að vita eða hringja eða koma í sundlaugina til að kanna þjónustutímann því nokkuð djúpt er á honum á PDF-skjali eftir 4 smelli af forsíðu vefs Reykjavíkurborgar. Styttra var í opnunartíma Sundlaugarinnar í Versölum af vef Kópavogsbæjar - bæði í tíma talið og í smellum. Þetta er því dæmi um annan smell sem mér er ljúft og skylt að taka undir; það er gott að búa í Kópavogi!
Nafnið sundlaugin í Versölum (sbr. friðarhöllina Versali í Frakklandi) leiðir hugann að þeirri skemmtilegu staðreynd að þrjár þeirra lauga, sem eru innan seilingar fyrir 2/3 hluta landsmanna og ég hef sótt mikið í gegnum tíðina, eru kenndar við hallir. Sú nýjasta er þessi heimalaug mín (oft nefnd Salalaug í daglegu tali). Hinar eru Sundhöllin í Reykjavík - ein fyrsta sundlaugin fyrir almenning, reist fyrir tilstilli Jónasar frá Hriflu og tekin í notkun fyrir rétt rúmum 70 árum - og Sundhöll Hafnarfjarðar við Herjólfsgötu - mín gamla sumardvalarlaug við sjóinn. Sundhallirnar tvær eru jafnframt þær einu á höfuðborgarsvæðinu (nema ég telji Hveragerði til úthverfis höfuðborgarinnar) þar sem (ó)reglulega er hægt að treysta á að geta stokkið af stökkbretti á höfuðborgarsvæðinu.
Í barlóminum þessa hátíðardaga vegna efnahags- og gjaldeyrisástandsins er gott að rifja eitthvað upp sem við á Íslandi erum hvað best í - að setja á fót og reka góðar og ódýrar sundlaugar.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 21. mars 2008
Áttu bolla af hveiti - á föööstudaginn laaanga?
Hvað er langt síðan þú varst beðin(n) um eða þurftir að biðja um bolla af sykri, hveiti eða þvottaefni eða þvíumlíkum nauðsynjum að kvöldi eða á helgidegi? Í dag er föstudagurinn langi og þá mega verslanir og önnur þjónusta til handa neytendum lögum samkvæmt almennt ekki hafa opið, sbr. stutta umfjöllun mína hér.
Hvað sem fólki finnst um slíka takmarkandi löggjöf, trúarlegar og sögulegar ástæður hennar - og lagalegar og pólitískar hliðar hennar - má a.m.k. segja að takmarkanir þessar séu litlar miðað við það sem tíðkast hefur sums staðar annars staðar þar sem þeim hefur m.a. verið haldið frekar við lýði vegna hagsmuna launafólks, þ.e. einkum verslunarfólks. Þá eru takmarkanir á opnunartíma verslana ekki miklar nú miðað við það sem tíðkaðist áður fyrr.
Þetta held ég að sé ástæðan fyrir því að mér virðist mun sjaldgæfara eftir að ég varð fullorðinn og eignaðist eigið heimili að nágrannar biðji um að fá lánaðar einhverjar heimilisnauðsynjar; fyrir utan að fólk hefur dregið úr heimabakstri þá held ég að mikið framboð verslana í þéttbýlinu sem eru opnar lungann úr sólarhringnum og jafnvel hann allan sé megin ástæðan fyrir því að dregið hefur úr slíkum nágrannaheimsóknum.
Ég man fyrst eftir rýmkun opnunartíma verslunar í kaupfélagi KEA við Byggðaveginn á Akureyri þar sem lögð var á aukaálagning í formi hærra vöruverðs eftir tiltekinn tíma í lúgu, ef ég man rétt. Þó að í raun hafi þetta virst réttlátt - þannig að þeir neytendur sem nýttu sér þennan verslunartíma sem var dýrari, m.a. vegna hærra kaupgjalds á kvöldin - hefur þetta e.t.v. ekki svarað kostnaði við umsýslu að halda utan um tvöfalt vöruverð, ef svo má segja, svo í staðinn var kannski bara ákveðið í kjölfarið að hafa vöruverð alltaf tvöfalt!
Reyndar fannst mér föstudagurinn langi leiðinlegur þegar ég var strákur vegna þess að við bið eftir páskaegginu bættist - a.m.k í minningunni - að á heimilinu virtust í gildi óskráðar reglur um að ekkert skemmtilegt mætti gera þann dag; nú er það breytt - ég ætla einmitt að gera eitthvað skemmtilegt með börnunum mínum í góða veðrinu í dag. Við bætist að útvarpsdagskrá RÚV á föstudaginn langa virðist undanfarin mörg ár alltaf eiga sérstaklega vel við minn smekk.
Miðvikudagur, 19. mars 2008
Snubbóttur endir - eða hvað?
Gaman að heyra að Hæstiréttur Svía hafi einnig lagt mat á hagsmuni neytenda með því að telja að "auglýsingahléin spilltu upplifun áhorfenda á myndunum" en við fyrstu fréttir af þessum dómi á BBC í gærkvöldi var aðeins vísað til höfundaréttar leikstjóra, sjá fyrri færslu mína. Þannig fetar Hæstiréttur Svíþjóðar góðan meðalveg með því að byggja niðurstöðuna ekki bara á réttindum eigenda höfundaréttar eins og skilja mátti við fyrstu fréttir BBC.
Annars er athyglisvert að lesa blogg um fréttina um þennan dóm því þar er annars vegar vísað til þess að sumir hlaði niður höfundaréttarvörðu efni af því að eigendur þess skjóta sig í fótinn - eins og ég hef áður fjallað um - og hins vegar rætt um bíómyndahlé sem stundum virkar þannig á mig að ég segi (eða hugsa) - gríðarlega hissa: "Þetta var snubbóttur endir!"
![]() |
Auglýsingahlé í kvikmyndum brot á höfundarrétti |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Miðvikudagur, 19. mars 2008
Fermingargjöfin í ár - getið nú!
Ég hef - að gefnu tilefni - verið að velta fyrir mér fermingargjöfum. Auðvitað mun talsmaður neytenda ekki geta þess hvaða skoðun hann hafi á vænlegum gjöfum í þessu efni frekar en öðru sem mætti túlka sem auglýsingu fyrir fyrirtæki eða vörur; en ef ég skyldi ekki finna góða gjöf þá er alltaf hægt að gefa pening - eins og sagt er - en hvaða pening?
Ég er hræddur um að ég geri eins og ég gerði um daginn þegar ég þóttist sjá í hvað stefndi - en vildi samt í alvöru verðlauna starfsmann embættisins fyrir frábæran árangur; maður vill gefa eitthvað sem endist: ég gef evrur!
Þriðjudagur, 18. mars 2008
Leikstjórar vinna mál gegn sjónvarpsauglýsingum - en hvað með neytendur?
Ég heyrði á BBC í kvöld af niðurstöðu Hæstaréttar Svíþjóðar um að auglýsingar, sem rufu sýningu bíómyndar, hefðu brotið gegn höfundarétti leikstjóranna - þó að auglýsingarnar hefðu aðeins komið á milli atriða; gott mál - en hvers eiga neytendur að gjalda?
Málið er birtingarmynd þess að þrátt fyrir réttarumbætur undanfarinna ára í þágu neytenda - ekki síst vegna áhrifa frá Brussel - er vestrænt réttarkerfi enn miðað við fyrirtæki og eignarrétt. Þarna var tekist á um hagsmuni og eignarréttindi þeirra litlu - eigenda höfundaréttar - gagnvart hagsmunum og eignarréttindum hinna stóru - eigenda sjónvarpsstöðva og auglýsenda.
Þó að þarna hafi hinir litlu sigrað þá stærri er því miður enn sjaldgæft að hinir minnstu - neytendur - hafi sigur í vörn gagnvart ásókn fyrirtækjanna. Sá tími mun þó væntanlega koma - líka á Íslandi.