Svartsýni, nærsýni eða ellifjarsýni

Hvernig stendur á allri þessari svartsýni? Sjálfsagt er bara eitthvað að mér - og reyndar þurfti ég lengi vel að nota gleraugu - þar til ég fór nýlega í laser-aðgerð, bara á vinstra auga (ég vildi ekki sjá vel til hægri - nei, grín; augnlæknirinn ráðlagði þetta vegna væntanlegrar ellifjarsýni).

 

Mál mitt er að ég skil ekki hvers vegna svo margir bloggarar (sem ég rekst stundum á að lesa) nota svartan grunn, með hvítum stöfum. Kannski hefur það lagast með diskavandræðunum í byrjun vikunnar.

 

Einu sinni var sagt: ég las það svart á hvítu - en ég verð að viðurkenna að ég gefst yfirleitt upp á því að lesa hvítt á svörtu. Nema þetta sé eitthvað fyrir sjónskerta og jafnvel stillanlegt. Þá dreg ég í land.


Til hamingju

Fyrir um 20 árum fór ég með skömmum fyrirvara með tveimur eldri systkinum í stutta inter-rail-ferð frá Danmörku þar sem ég bjó þá. Við litum upp á brautarstöðinni í Hamborg og leist ekki á veðrið og héldum áfram; fyrsta áfanga lauk í Sviss þar sem við komum til Zürich 1. ágúst og Svisslendingar tóku á móti okkur með flugeldasýningu. Mér hefur alltaf verið fremur hlýtt til þeirra síðan og heimsótti þá aftur í fyrra og kynnti mér skógrækt - bæði hennar sjálfrar vegna og til snjóflóðavarna, sem við getum lært af; en nóg um það.

 

Í dag er þjóðhátíðardagur Sviss. Til hamingju.


"Í gamla daga"

Ég var að lesa þá ágætu bók Hvað með evruna? um daginn og brá sem snöggvast er ég las (á bls. 26) að gengið hefði verið fellt - af stjórnmálamönnum - árið 1968 um "heil" 35% eins og þar segir; fullur samúðar fór ég óvart að hugsa um hversu erfitt þetta hlyti að hafa verið fyrir fólkið þá - eins og maður segir stundum við börnin sín í samblandi af umvöndun og fræðslutóni:

 

Svona var þetta í gamla daga.

 

Áður en ég kom aftur til nútímans hugsaði ég um aðeins minni gengisfellingar - sem ég man lauslega eftir úr æsku. Svo kíkti ég í dagblöðin og mundi - það var engum blöðum um það að fletta - að þetta er ekki bara eitthvað sem gerðist árið áður en ég fæddist; gengið hefur - á þessu ári - fallið jafn mikið (án beins atbeina stjórnmálafólks) undanfarna mánuði.


"Þjóðin bíður niðurstöðu"

Hálfa vikuna beið ég spenntur eftir fréttum af þessari síðu - til þess að missa örugglega ekki af neinu, fréttafíkill sem ég er - þó að ég gæti verið viss um að niðurstaðan kæmi í heimsfréttirnar innan fárra mínútna - sem hún gerði. Hægra megin á síðunni stóð hálfa vikuna:

 

Æðstu dómarar að störfum, þjóðin bíður dómsniðurstöðu.

 

Niðurstaðan var að aðeins 6 (en ekki tilskilinn 7 manna aukinn meirihluti) af 11 dómurum voru því fylgjandi að dæma stjórnarflokkinn frá völdum; í staðinn var honum veitt einhvers konar áminning eins og rakið er í fréttinni! Ummæli forseta stjórnlagadómstólsins benda e.t.v. til þess að rétt sé (a.m.k. í nýlegum lýðræðisríkjum eins og Íslandi og Tyrklandi) að takmarka umfjöllun dómara að fenginni niðurstöðu þó að ég hafi hingað til ekki alveg verið sáttur við andmæli í þá veru gegn hæstaréttardómara er tjáði sig um forsendur dóms.

 

Þótt ég hafi bæði lært og kennt lög - þ.m.t. að stjórnarskráin er æðri öðrum lögum og gerðum handhafa framkvæmdarvalds - þá finnst mér (eins og áður er komið fram) svolítið skrýtið að 7 af 11 ókjörnum dómurum geti dæmt stjórnarflokkinn - með um 50% atkvæða og verulegan meirihluta á þingi - frá völdum með vísan í að hann hafi blandað saman trú og veraldleika. Það er vissulega bannað í tyrknesku stjórnarskránni og víðar og getur almennt talist óæskilegt frá sjónarhóli þeirra, sem aðhyllast veraldarhyggju, en AK hefur einmitt náð svo miklum árangri í efnahagsumbótum, Evróupstefnu, nokkru frjálslyndi o.fl. með því að halda aðalfókus á þessum aðalatriðum en ekki trúarfasisma; það er - ítrekaður - dómur þjóðarinnar.

 

Jafnvel lögfræðingi finnst hæpið að dómarar geti átt síðasta orðið í stjórnskipulegu álitamáli um grundvöll lýðræðisins - hvað þá herinn.


mbl.is AKP-flokkurinn ekki bannaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Félagsauður

Hér er dæmi um félagsauð.


Rennur blóðið til skyldunnar

Ég byrjaði vikuna á góðverki - sem ég mæli með því að aðrir fullorðnir og fullfrískir temji sér eins og ég hef gert síðan fljótlega eftir að mér varð ljóst að ég mátti það, þó ekki vikulega. Reyndar ætlaði ég að blogga um þetta samdægurs til að auglýsa málstaðinn (en ekki mig) en gat auðvitað ekki af alkunnum ástæðum.

 

E.t.v. er það af sömu ástæðu sem ég get ekki lengur sett inn hlekki en þeir sem hafa ekki ráðið gátuna geta þá fengið svarið hér:

http://svali.landspitali.is/lsh_ytri.nsf/htmlpages/blodbankinn.html

 

Setjið þetta inn í dagatalið - karlar á 3ja mánaða fresti og konur á 4ra!


Æ, æ - slæmt fyrir neytendur

Var að heyra á RÚV að Doha-viðræðum hefði verið slitið rétt í þessu. Enn verða neytendur því að bíða lægra vöruverðs - nema innlend stjórnvöld bæti úr!


Verðbólguvæntingar eða verðbólgutrygging

Víða um heim er seðlabönkum gert að berjast við svonefndar verðbólguvæntingar með háum vöxtum. Hér á landi er vanmælt að tala um verðbólgu"væntingar" því væntingar gefa til kynna að eitthvað sé óvíst, hugsanlegt.

 

Ef verð hækkar á banönum, bensíni eða brauði er hugsanlegt að lánveitandi, leigusali eða launþegi erlendis fari fram á hærra endurgjald í langtímasamningum fyrir sitt framlag - einhvern tímann. Þó að viðsemjandi hans geti vissulega oft sagt að þessi verðhækkun sé ekki honum að kenna er ekki útilokað að hann fallist á hækkun endurgjalds að meira eða minna leyti - einhvern tímann.

 

Þetta er kallað verðbólguvæntingar. (Svipað gerist hérlendis í samningum sem ekki eru langtímasamningar.)

 

Hér á landi er hins vegar innbyggð sjálfkrafa víxlverkun í marga langtímasamninga - svo sem um húsnæðislán, leigu, þjónustu eða verk - þannig að verðhækkun (eins og ríkið tekur að sér að mæla hana í ýmsum vísitölum) fer sjálfkrafa inn í endurgjaldið, án þess að semja þurfi um það. Sú hækkun verður yfirleitt strax í næsta mánuði enda eru vísitölur reiknaðar mánaðarlega.

 

Þetta má kalla verð(bólgu)tryggingu.


Góðar fréttir frá Genfarvatni

Eins og ég vonaðist til í byrjun síðustu viku stefnir nú loksins í árangur sem sé ásættanlegur fyrir neytendur á Íslandi þannig að dregið verði úr tollavernd á landbúnaðarvörum - neytendum til hagsbóta vegna lægra vöruverðs eins og fréttin sýnir og hér er vikið að frá sjónarhóli bænda, þ.e.

 

að tollar verði lækkaðir af innfluttum vörum og innflutningur auðveldaður, [...].

 

Ég hef nú reyndar borðað kjúkling þrjá daga í röð en með væntanlegu samkomulagi yfir 150 ríkja í svonefndum Dohaviðræðum tekst vonandi að lækka verð á kjúklingi og öðrum landbúnaðarvörum.

 

Þá er þess að vænta að fulltrúar neytenda verði hafðir með í ráðum eins og aðrir hagsmunaaðilar við skilgreiningu undanþága eins og hér segir frá og hér er rakið:

 

Vegna þess hversu tollalækkunin kann að hafa mikil áhrif á Íslandi fá Íslendingar ásamt hinum tveimur EFTA-þjóðunum, Norðmönnum og Svisslendingum, sérstaka undanþágu á Genfarfundinum sem heimilar þeim að undanskilja allt að 6% vöruflokka frá fyrirhuguðum tollalækkunum á innfluttum landbúnaðarvörum.


mbl.is Líklegra en ekki að menn nái saman um nýjar Doha-tillögur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hreimurinn

Ég sat á kaffihúsi um daginn í sólinni og komst ekki hjá því að heyra þetta:

 

Mér fannst ég kannast við hreiminn en áttaði mig ekki strax á honum,

 

sagði þjónninn vinalega við manninn á næsta borði - sem var að norðan (eins og ég); ég blandaði mér þó ekki í málið til að benda á að "hreimur" er eitthvað sem útlendingar hafa. Þeir fáu Akureyringar sem enn tala kjarnyrta íslensku (eins og margir úr dreifðari byggðum, t.d. fyrir norðan) hafa ekki hreim - en stundum fannst mér reyndar að maður væri hálfgerður útlendingur hér fyrir sunnan; sama var reyndar sagt um tilfinningu "aðkomumanna" á Akureyri - og sjálfur vann ég vissulega um árabil á Degi þar sem lögreglufréttir enduðu víst oft á svona setningu:

 

Maðurinn var aðkomumaður.

 

Með aukinni alþjóðavæðingu er þetta væntanlega allt úr sögunni - eins og "hreimurinn" stefnir í.

 

Best fannst mér hins vegar að landsbyggðarmaðurinn sagði, greinilega aðspurður, í símann (sem ég heyrði líka, óumbeðið) að hann væri "ekki í bænum," nei; hann var í borginni! Það eru nefnilega tugir bæja (þéttbýlisstaða) á landinu en ein borg - sem margir borgarbúa kalla "bæinn." Þetta segi ég nú bara af því að það var ekki búið að finna upp bloggið þegar ég var að pirra mig á þessu þegar ég flutti til borgarinnar fyrir um 17 árum.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband