Hægrimannasamsæri!

Gott að heyra; minnisstæðust úr pólitísku starfi Hillary Rodham Clinton er mér ásökun hennar um "Vast Right Wing Conspiracy" gegn henni í kjölfar starfa hennar fyrir forsetann, mann sinn, í þágu endurbóta á heilbrigðiskerfis Bandaríkjanna; þær endurbætur mistókust.

 

Ég leyfi mér, þar sem ekki er um innanlandspólitík að ræða, að lýsa ánægju með þessa frétt enda hef ég lengi verið hrifinn af Hillary og hef lagt í þann "sokkna kostnað," sem fjármálaspekingar myndu kalla það, að lesa tvær ævisögur hennar - en er langt kominn með ævisögu Obama - sem fór, nokkuð óvænt, fram úr henni.

 

Mér líst vel á hann.


mbl.is Clinton styður Obama
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Feginn

Ég er nú eiginlega feginn að talsmaður neytenda er ekki meðal lögformlegra umsagnaraðila um þetta mál; hvort vegur þyngra "hagsmunir" þeirra "neytenda" - sem vilja, gegn greiðslu, horfa á berar konur á skemmtistöðum - eða sú mannréttindastefna að vernda konur gegn slíku ofríki? Það er fremur landspólitískt mál - en ekki neytendapólitískt að mínu mati - sem ég hef ekki opinbera skoðun á í embættisnafni.

 

Persónulega skoðun hef ég á því eins og ýmsu en reyni yfirleitt að flíka henni ekki að óþörfu. 

 

Stundum heyri ég  það viðhorf að talsmaður neytenda eigi að vera ákveðnari og meira áberandi og gagnrýnni á fyrirtæki og fyrirbæri en í athugasemdum í dag á neytendabloggi mínu kemur í löngu máli fram að tveimur gagnrýnendum finnist að embættismaður eins og ég eigi að fara með veggjum og ekki vera að auglýsa sjálfan sig svona - þegar ég taldi mig vera að sinna málstaðnum og lögbundnu hlutverki mínu.


mbl.is Umsóknir nektarstaða til nýrrar umsagnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bannað að mismuna hinsegin neytendum

Í tilefni Hinsegin daga er vakin athygli á umfjöllun um að refsivert er að mismuna neytendum á grundvelli kynhneigðar:

 

Neytendur njóta mannréttinda - þannig að ekki má t.a.m. mismuna þeim vegna kynhneigðar eða annarra tilgreindra ástæðna. Þetta áréttar talsmaður neytenda í tilefni "Hinsegin daga" sem hófust í dag.

 

Sjá nánar frétt hér í gær á heimasíðu talsmanns neytenda.


Eiga nýbornir "neytendur" landsins að grípa í tómt?

Ég er náttúrulega vanhæfur - sem er ekki  (endilega) það sama og óhæfur - í málinu enda starfaði ég í nær 7 ár fyrir ljósmæður og annað háskólafólk; ég held meira að segja að ég hafi fundið upp (nei, ekki internetið - heldur) tímabundnu verkföllin (sorry) sem tíðkast hafa hjá opinberum starfsmönnum síðan 2001.

 

En ég verð að segja að það kemur ekki á óvart að þetta skuli gerast nú; satt að segja átti ég von á (og áður væntingar um) að þetta myndi gerast fyrr - þótt auðvitað sé sorglegt að fyrstu "neytendur" landsins grípi í tómt þegar þeir eiga að geta treyst því að á móti þeim taki góð ljósmóðir á kostnað - og ábyrgð - okkar allra.


mbl.is Aðgerðir hefjist í september
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvers vegna fleytti ég kertum?

Loks fór ég á kertafleytingu - í fyrsta skipti, þrátt fyrir búsetu mína hér á stór-Kópavogssvæðinu í 17 ár - og tók nokkra úr stórfjölskyldunni með, þ.m.t. þann elsta og þá yngstu, í frábæru votviðri; fyrir vikið ræddi ég ekki nóg við góða félaga úr verkalýðshreyfingu og Samtökum hernaðarandstæðinga.

 

Ég ræði bara betur við þá næst - þ.m.t. efasemdir mínar um boðskap annars vel fluttrar og mjög hjartnæmrar ræðu Kolbrúnar Halldórsdóttur þingkonu um Tjernobyl-slysið hræðilega; ég hlustaði vel og var snortinn yfir þeim ömurlegu örlögum og yfirklóri þarlendra yfirvalda, sem Kolbrún rifjaði upp, en ég var einmitt orðinn nógu gamall 1986 til að skilja alvarleika málsins. Samt er ég ekki viss um að andstöðu gegn kjarnorkuvopnum megi sjálfkrafa túlka sem andstöðu - a.m.k. mína - við notkun kjarnorku í friðsamlegum tilgangi, þ.e. sem orkugjafa á þessum viðsjárverðu tímum.


mbl.is Kertum fleytt á Tjörninni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þar er þetta hægt

Í Bandaríkjunum (og reyndar í öðrum norrænum ríkjum og víðar) geta neytendur farið í hópmálsókn.


mbl.is Hópmálssókn gegn Actavis í Bandaríkjunum?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á maður bara að skila hestunum - eða bæta við folöldum líka?

Hér er frétt Stöðvar 2 þar sem Guðmundur Ólafsson lektor svarar verðtryggingarefasemdum mínum þannig að þegar maður fái lánaða eða leigða 10 hesta þá vilji maður fá leiguna og 10 hesta til baka en ekki bara 7 hesta. Í gær boðaði ég svar við þessari dæmisögu - sem hljómar skynsamlega í fyrstu.

 

Málið er að lántakandi tekur einmitt 10 hesta (krónur) að láni og vill vita hvað hann á að greiða til  baka í leigu (vexti) auk höfuðstólsins (hestanna 10, auðvitað). Hér á landi bætist hins vegar við óviss fjöldi folalda (verðbóta) sem er mældur eftir á - miðað við það sem nágrannabóndinn hefur náð í ávöxtun með því að hafa sínar hryssur heima með með fola. Væri ekki eðlilegra að lánveitandinn semdi um vexti með hliðsjón af þeim fórnarkostnaði - eina tegund vaxta en ekki tvær?

 

Meint rýrnun lánsins (verðbólga) er mæld sem það sem lánveitandinn er talinn hafa farið á mis við með því að verðbólga var ekki bara hærri en búist var við heldur bara einhver. Ég gæti ímyndað mér að réttlátara þætti ef áhættu af umframverðbólgu yfir einhverri tilgreindri spá (t.d. 2,5% eins og verðbólgumarkmið Seðlabankans) væri skipt á milli lánveitanda og lántakanda.


I'm singing in the rain

Vonandi fyrirgefst mér að krydda neytendabloggið stundum með öðru en sem sólarneytanda - reyndar hreinum sóldýrkanda - finnst mér mjög góð þjónusta að sólin virðist yfirleitt einbeita sér að því að skína þegar ég er í fríi.

 

Mér finnst eins og rigni helst þegar ég sef eða er í vinnu og sem skógræktarmaður er ég mjög ánægður með þessa miklu rigningu undanfarið. Sálræna skýringin á uppáhaldi mínu með mikla rigningu kann að vera að ég er fæddur í rigningarbælinu Björgvin í Noregi en flutti svo mjög ungur til Akureyrar þar sem aldrei rigndi þannig að ég hef sennilega orðið fyrir því sem í læknisfræðinni væri kallað post-natal rigningarskortsheilkenni. Uppáhaldslagið mitt í æsku var "I'm singing in the rain" og á unglingsárunum var það "Mér finnst rigningin góð."

 

Í minningunni rigndi svo alltaf í Reykjavík þegar ég kom þangað á sumrin.


Vax(t)andi umræða

Í gúrkunni og hitanum undanfarna viku hafa margir fjölmiðlar haft samband við mig og spurt um svonefnda verðtryggingu - sem lengi hefur legið fyrir að ég vildi skoða gagnrýnum augum í embættisnafni þó að ég hafi ekki fundið nægilega skilvirkan farveg til þess enn. Því fagna ég þeirri umræðu, sem færst hefur í aukana í kjölfarið. Ég set hér inn nokkra tengla á umræður og yfirleitt málefnalegar rökræður um þetta brýna álitamál. Kannski er það illfært en æskilegt er a.m.k. að halda utan um rökræður um gildandi fyrirkomulag á sjálfkrafa tengingu neytendalána við vísitölu neysluverðs - eins og ég kalla verðtrygginguna.

 

Hér skrifar framkvæmdarstjóri þingflokks Sjálfstæðismanna, Árni Helgason, með verðtryggingu enda sé hún samningsatriði og vísar hann einnig á greinaskrif á Deiglunni. Þrátt fyrir formlegt eða fræðilegt samningsfrelsi hef ég hins vegar efasemdir um hversu mikið frelsi neytendur hafa í raun til þess að velja annað en verðtryggð krónulán - þ.e. annað hvort enn hærri vexti eða erlend lán með mikilli gengisáhættu (sem hefur sýnt sig undanfarna mánuði).

 

Hér skrifar Hrannar Baldursson vel rökstudda grein með sams konar efasemdum og ég hef haft um svonefnda verðtryggingu og styður hann þær tölulegum rökum og vísar á meiri tengda umfjöllun.

 

Hér er færsla frá mér um þann kjarna sem ég tel felast í sjálfvirkni verðtryggingar sem sé því ekki aðeins afleiðing verðbólgu heldur líklega einnig orsök hennar.

 

Hér er færsla frá mér með eftirlýstum umræðum í athugasemdum í kjölfar stuttrar sjónvarpsfréttar RÚV um afstöðu mína; lítil rök voru birt í fréttinni önnur en þau að verðtrygging kunni að orsaka verðbólgu. Ástæðan er að lánveitendur séu þá öruggir um að fá fyrirhafnarlaust verðbætur ofan á vexti en neytendur beri alla áhættuna af verðbólguóvissu - sem að vísu er frekar verðbólguvissa við þessar aðstæður.

 

Hér er minnst á málið í viðtali í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni.

 

Loks er hér frétt Stöðvar 2 þar sem Guðmundur Ólafsson lektor svarar því til að þegar maður fái lánaða eða leigða 10 hesta þá vilji maður fá leiguna og 10 hesta til baka en ekki bara 7 hesta. Hvernig svarar maður svona dæmisögu - sem hljómar rétt við fyrstu heyrn?

 

Svarið kemur á morgun.


Fúlskeggjaður

Ég var orðinn fúlskeggjaður - ekki af fúllyndi (en dönsk áhrif á íslenskt mál um "fuld-skæg" hafa gefið af sér þetta orð); ég var farinn að stinga hressilega með skegginu - en hvers vegna?  Skeggsnyrtir, sem ég keypti, hafði bilað eða brotnað. Um var að ræða 7.000 kr. nýlegan skeggsnyrti án þess að tryggt væri að varahlutur (lykilhlutur, sjálf klippieiningin, en væntanlega ódýr í framleiðslu - að ég tel) fengist að nýju.

 

Nei;  yfirlýst stefna - eftirá - er að það sé ekki í boði. Mér bauðst hins vegar það kostaboð að fá nýjan skeggsnyrti á því kostaboði 3.000 kr. sem ég tók ekki. Í fljótu bragði finnst mér lágmark að upplýsa um þessa stefnu fyrirtækisins - að bjóða ekki upp á varahluti ef eitthvað bregst.

 

Athyglisvert er að um er að ræða sama fyrirtæki og ég kallaði á teppið til þess að upplýsa um grundvallarreglur í neytendalöggjöf en auk þess sem þar kemur fram var áréttað að neytendur ættu rétt á að fá úrbætur galla á sama stað og varan var keypt.

 

Spurningin er hvort sami réttur er fyrir hendi hvað varðar varahluti þegar eitthvað þarf að laga eða bæta þegar neytandi sjálfur hefur skemmt hlut; er t.d. viðunandi að vísa á annan aðila um varahluti? Sama eðlis er spurningin hvort viðunandi sé að selja hugbúnað og tæki sem ekki geta nokkrum árum síðar sótt í unnið eða vistað efni!

 

Hvað finnst ykkur, kæru neytendur?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.