Laugardagur, 4. apríl 2009
Hudson Way
Þetta er frábær grein eftir dr. Michael Hudson í Fréttablaðinu í dag - sem verður í Silfri Egils á morgun. Þar segir að á Íslandi hafi verið
sköpuð paradís lánardrottna og hinni sígildu flóttaleið skuldsettra þjóða lokað. Þjóðin hefur fundið leið til að steypa sér í skuldir með hjálp verðbólgunnar, í stað þess að vinna sig úr þeim með henni. Með verðtryggingu skulda hefur Ísland komið upp einstöku kerfi fyrir banka og aðra lánadrottna sem stóreykur tekjur þeirra af lánastarfsemi, á kostnað launa og tekna af raunverulegri atvinnustarfsemi.
Greinin og viðtalið á You Tube hér að neðan segir það af mikilli visku um efnahags- og menningarsögu sem ég hef hugsað og reynt að koma orðum að síðan ég setti efasemdir um réttmæti svonefndrar verðtryggingar á oddinn skömmu eftir að ég tók við embætti talsmanns neytenda 2005; til skamms tíma fannst ekki hagfræðingur til þess að hjálpa til við að spyrja réttu spurninganna og leita svara. Hagfræðingar og stjórnmálamenn lögðust nær allir gegn efasemdum um réttmæti verðtryggingar og einn þeirra kallaði slíkar efasemdir
lítt rökstutt lýðskrum!
Sumir tóku þó undir efasemdir um réttmæti verðtryggingar þegar þeir voru í stjórnarandstöðu en breyttu um skoðun er þeir komust í ráðherrastóla; ánægjuleg undantekning frá því er Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra sem talar einnig um að draga þurfi úr verðtryggingu eftir að hann komst að nýju í ráðherraembætti. Lausnin að mati Hudson nú - þegar kreppan er skollin á - er þessi eins og reyndar var lagt til af talsmanni neytenda og Hagsmunasamtökum heimilanna fyrir tveimur mánuðum:
Lánin eða lífið?
Íslendingar verða að líta til langs tíma. Hvernig á efnahagskerfið að lifa af og vaxa til framtíðar? Verðtryggingu lána verður að afnema. Gjaldeyrislán verður að færa yfir í krónur á lágum, óverðtryggðum vöxtum eða afskrifa að hluta eða öllu leyti. Markmiðið á að vera að fella niður skuldir sem valda efnahagslegu tjóni.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:45 | Facebook
Athugasemdir
Sæll nafni. Þegar ég byrjaði á því að blogga hérna á mbl fannst mér að ég þyrfti að breyta umræðunni um verðtrygginguna sem var yfirleitt jákvæð í hennar garð. Nú eru mál að skipast öðruvísi ( ekki mér að þakka) og færri ákafir stuðningsmenn þessa fyrirbæris leggja málinu lið.
Hættan er sú ef menn nýta sér ekki verðhjöðnunartímabilið til að leggja þennan ósið af eingöngu vegna þess að þá sé þörfin ekki eins knýjandi. Íslensk ákvörðunarfælni nær alltaf hærra stigi og vandræðalegra. Nú er lag. Sá kostnaður sem af því hlýst mun leggjast bæði á skuldara sem lánveitendur. Vextir verða hærri og vandi fjárfesta við að finna lánshæfa viðskiptavini verður raunverulegur.
Það mun bara flýta fyrir að gjaldmiðiðsskipti verði að eiga sér stað. Sem er gott. Þýðir reyndar evrópubandalagsumsókn sem ætti ekki að vera stórmál, nema hvað.
Gísli Ingvarsson, 4.4.2009 kl. 17:05
Miðað við það sem hann segir í þessu myndbandi, þá eru alltaf fleiri og fleiri sem eru að taka undir þetta sem Framsóknarflokkurinn er að tala fyrir, en stjórnin lokar öllum eyrum fyrir, vanhæf ríkisstjórn.
Ægir Óskar Hallgrímsson, 4.4.2009 kl. 23:02
Ég er fylgjandi svona afskriftum vegna þess að lánveitendurnir verða að taka áhættu líka ekki bara þeir sem lánin taka.... Þetta viðtal við Michael Hudson er flott, líka greinin hans í Fréttablaðinu í gær laugardag á bls. 22. Þessi grein ætti að vera skyldulesning fyrir alla.
Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 5.4.2009 kl. 03:59
Sammála frændi - og ykkur Ægi Óskari og Jónu Kolbrúnu; viðtölin rétt í þessu í Silfri Egils varpa skýru ljósi á alvarlega stöðu neytenda á Íslandi.
Gísli Tryggvason, 5.4.2009 kl. 14:37
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.