Rök fyrir niðurfærslu húsnæðislána

Hér er ágæt og ítarleg frásögn í nýlegri bloggfærslu Rakelar Sigurgeirsdóttur af erindi mínu á borgarafundi á Akureyri fyrir um tveimur vikum varðandi rök fyrir almennri niðurfærsla íbúðarlána vegna forsendubrests og af fleiri lagalegum ástæðum - bæði hvað varðar gengistryggð og verðtryggð íbúðarlán:

 

Gísli Tryggvason, talsmaður neytenda, reið á vaðið. Hann ræddi um húsnæðislánin, bæði gengistryggðu lánin og þau erlendu [les: bæði gengistryggðu lánin og þau verðtryggðu; GT], út frá réttindum lántakenda. Hann dró fram fjögur rök fyrir því að þessi lán verði endurskoðuð en þau kallaði hann: forsendubrest, sanngirnisrök, eignaréttarrök og hagfræðileg rök.

Það sem hann benti á að hefði valdið því sem hann kallaði forsendubrest þessara lána er m.a. það að áhættustigið hefur margfaldast. Hann undirstrikaði það að neytandinn væri látinn bera alla áhættuna hvað forsendur lánanna varðar. Þar vakti hann athygli á því hvað gerðist í sambandi við erlendu lánin þegar ríkinu mistókst að viðhalda genginu.

Það sem vakti mesta athygli mína af því sem Gísli nefndi í sambandi við sanngirnisrökin er að hann velti því fyrir sér hve sanngjörn markaðssetning erlendu lánanna hafi verið. Ég er ein þeirra sem get nefnt dæmi um það að kostir erlends myntkörfuláns voru mjög tíundaðir í mín eyru. Þetta var þegar ég þurfti á láni að halda árið 2004.

Ég var mjög treg en lét tilleiðast eftir að yfirmaðurinn í bankanum hafði gefið mér persónulegt loforð um skuldbreytingu lánsin yfir íslenskt lán ef ég gæti rökstutt það að það sem mér hefði verið verið sagt um kosti lánsins stæðist ekki. Tveimur árum seinna fékk ég láninu breytt. Reyndar eftir eins árs jarm af minni hálfu um skuldbreytinguna. Veit ekki hvort rök mín voru nokkurn tímann tekin gild en þau blöstu við mér. Það skipti mig sem sagt meira máli að minnka skuldabyrðina í nútímanum en það að hafa borgað minna þegar upp var staðið og lánið uppgreitt einhvern tímann í framtíðinni.

Þriðju rökin, sem Gísli dró fram sem lögfræðileg - og neytendapólitísk rök fyrir því að húsnæðislánin og þá einkunn erlendu lánin væru tekin til rækilegrar endurskoðunar nefndi, hann eignaréttarrök. Þar benti hann á að greiðslugeta húsnæðiskaupenda færi minnkandi um leið og veðhæfi eignarinnar sem stæði undir láninu færi lækkandi líka.

Að lokum voru það hagfræðileg rök sem Gísli nefndi máli sínu til stuðnings. Þar benti hann á að ástæða væri til að endurskoða og -reikna þessi lán til að vernda aðra markaði samfélagsins. Hann sagði að ef allar ráðstöfunartekjur húsnæðiskaupenda færu í að greiða af húsnæðislánunum þá yrði lítið sem ekkert eftir til að viðhalda öðrum mörkuðum sem þyrfti að viðhalda svo samfélagið fúnkeraði.

Gísli lauk máli sínu með því að benda á að, að óbreyttu þá myndu neytendur, þ.e. lántakendur og þá aðallega þeir sem skulda húsnæðislán, bera allan skellinn sem hrun bankanna olli.

 

Í bloggfærslu Rakelar er einnig rakið inntakið í öðrum erindum á borgarafundinum á Akureyri um stöðu heimilanna en meðal annarra framsögumanna var fulltrúi Hagsmunasamtaka heimilanna.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: TARA

Hreint út sagt frábær grein og innihaldið enn betra...það myndi áreiðanlega miklu fargi vera létt af þorra landsmanna ef þetta næði fram að ganga...

TARA, 24.2.2009 kl. 23:43

2 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Tillögur Framsóknarflokksins ganga út á að færa niður öll húsnæðislán um 20%. Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra telur þessa leið ekki færa og telur að Íbúðalánasjóður fari "lóðbeint á höfuðið" eins og hún orðar það. Hvaða skoðun hefur þú á þessum tillögum Framsóknar og áliti Jóhönnu??

Hólmfríður Bjarnadóttir, 25.2.2009 kl. 01:40

3 Smámynd: Gísli Tryggvason

Takk, Tara. Já, Hólmfríður; ég las um þessar tillögur flokksins í fyrradag en hef ekki borið þær saman við sameiginlega ályktun mína ásamt Hagsmunasamtökum heimilanna o.fl.; tillögur Framsóknar í efnahagsmálum má kynna sér hér. Þó er ljóst að tillögur Framsóknarflokksins eru ítarlegar útfærðar en okkar sameiginlega almenna ákall til stjórnvalda sem lesa má hér: http://talsmadur.is/Pages/55?NewsID=990. Ég á eftir að útfæra málsmeðferð og rökstyðja ákallið frekar og ræða við forsætisráðherra.

Nú í kvöld sé ég hins vegar í fréttum að væntanlegur formaður Sjálfstæðisflokksins, Bjarni Benediktsson, tekur undir tillögur Framsóknar um 20% niðurfærslu húsnæðislána!

Hér tekur Vilhjálmur Þorsteinsson, töluglöggur eðalkrati, undir tillögur Framsóknarflokksins en Vilhjálmur er afar duglegur að útskýra á bloggi sínu fljóknar fjármálalegar stærðir og samhengi.

Gísli Tryggvason, 25.2.2009 kl. 20:53

4 Smámynd: Vernharð Þorleifsson

Heill og sæll.

Ég legg til að þú kynnir þér kjörin sem Frjálsi Fjárfestingabankinn er að bjóða viðskiptavinum sínum sem eru með erlend lán. Þannig er mál með vexti að þrátt fyrir tilmæli ríkisstjórnarinnar þá frysta þeir ekki erlend lán fólks (ég veit ekki hvernig þeir höndla þau íslensku) heldur bjóða þeim að borga 5500 kr fyrir hverja milljón sem kúnninn tók upphaflega að láni. Þessu fylgir skilmálabreyting eitthvað á þá leið að bankinn stjórnar gengi lánsins. Ég hef reyndar ekki kynnt mér það ákvæði í þaula þannig að ég ætla ekki að hafa mörg orð um það. En það er ekki mergur málsins, heldur er hann sá að mér var góðfúslega bent á það í vikunni, þegar ég var að barma mér yfir því hversu stífur bankinn væri í samningum, að láta þjónustufulltrúann reikna út hvernig það kæmi út fyrir mig að halda láninu óbreyttu en borga þess í stað vaxtagjalddaga, eins og ég hafði reyndar gert í ár á undan. Þjónustufulltrúinn (sem er hinn ágætasti maður) tjáði mér að það mundi kosta mig ca 50.000 kr minna pr mán og að það væri minnsta málið að fá þau kjör. Sem sagt, með því að spyrja (og reyndar fyrir algjöra hundaheppni þar sem mér barst þetta til eyrna rétt áður en ég taldi mig nauðbeygðan til að skrifa undir skilmálabreytinguna) þá mun ég nú greiða 50.000 kr minna pr mán af láninu heldur en ef ég hefði tekið við þessari "líflínu" bankans til skuldara. Bankinn virðist heldur ekki sjá sóma sinn í því að benda fólki á þennann góða kost í stöðunni, enda kannski ágætist tól að geta breytt upphaflegum samningum á þann veg að bankinn sé jafnvel enn tryggari með sína fjárfestingu. Ég hvet þig amk til að kynna þér þetta og leiðrétta mig ef ég hef eitthvað misskilið málið.

Kv Venni

Vernharð Þorleifsson, 27.2.2009 kl. 00:09

5 Smámynd: Gísli Tryggvason

Sæll sveitungi, Venni, og takk fyrir góða ábendingu - sem ég skoða - enda þótt í ræðu minni, sem vitnað var til hér að ofan, felist sú afstaða að einstaklingsbundnar eða sértækar lausnir dugi ekki og vandinn sé stærri en skilmálar einstakra fyrirtækja eða tiltekin tilmæli ríkisstjórnarinnar, sbr. sameiginlegt ákall hér frá 11. febrúar sl. til stjórnvalda um almennar lausnir á efnahagsvanda heimilanna þar sem m.a. segir:

Til að koma í veg fyrir að fjöldi lántakenda lendi í þroti og jafnframt stuðla að því að fasteignamarkaður fari aftur af stað þarf að auki að beita almennum aðgerðum í eitt skipti. Til þarf að koma veruleg og almenn niðurfærsla höfuðstóla íbúðarveðlána vegna verulegs og óvænts gengishruns íslensku krónunnar og þarafleiðandi hækkunar gengistryggðra og verðtryggðra lána í kjölfar verðbólgu undanfarna 18 mánuði. 

Gísli Tryggvason, 27.2.2009 kl. 20:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.