Þriðjudagur, 17. febrúar 2009
Skuldafangelsi afnumið
Þetta er afar brýnt og gott mál hjá nýju ríkisstjórninni, þ.e. að stytta fyrningarfrest í kjölfar gjaldþrots í tvö ár. Mig langar að vísa í rökstuðning í sömu átt úr frétt um umsögn mína um frumvarp til nýrra heildarlaga um fyrningu kröfuréttinda fyrir rúmu ári:
Hve lengi og oft á krafa að endurnýjast?
Neytendapólitískt efast talsmaður neytenda um réttmæti þess að halda megi kröfum í gildi endalaust. Um það segir í umsögninni:
Ég tel eðlilegt að viðskiptanefnd íhugi að fjárkröfur á hendur neytendum hafi endanlegan gildistíma í þeim skilningi að lög um fyrningu kröfuréttinda leggi bönd á það við hvaða skilyrði eða hversu oft kröfuhafi getur endurnýjað kröfu með því að slíta fyrningu kröfu að nýju.
Með þessu er öðrum þræði skírskotað til meðábyrgðar kröfuhafa á því að krafa sem ekki greiðist hafi stofnast á hendur neytanda - sem stundum er frá upphafi ófær um að standa í skilum en stundum vegna síðar tíl kominna atvika. Neytendur bera ábyrgð en kröfuhafar - svo sem lánveitendur - einnig. Vísaði ég þar m.a. til fyrri umsagnar minnar um drög að frumvarpi til nýrra heildarlaga sem eiga að leysa af 100 ára gömul fyrningarlög.
Í umsögninni ítrekaði ég umsögn um drög fyrri viðskiptaráðherra fyrir tveimur og hálfu ári að frumvarpi til nýrra fyrningarlaga. Viðskiptaráðuneytið (eða - réttara sagt - lögmaður úti í bæ sem mun hafa samið frumvarp til fyrningarlaga fyrir viðskiptaráðuneytið) og viðskiptanefnd Alþingis féllust ekki á þessa ábendingu. Í fréttinni segir:
Jafnframt er lagt til að þegar kröfu er lýst í þrotabú hefjist nýr fyrningarfrestur sem er tvö ár. Hér er um styttingu á fyrningarfresti að ræða frá því sem verið hefur, en hann hefur verið mislangur.
Í fyrri frétt um sama mál í dag sagði:
Frumvörp til breytinga á lögum um nauðungarsölu, gjaldþrot og aðfararaðgerðir verða lögð fyrir Alþingi í dag eða morgun, að því er Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra greindi frá á blaðamannafundi í hádeginu í dag. Meðal boðaðra breytinga er að kröfur á gjaldþrota einstaklinga fyrnast á tveimur árum í stað 10, nauðungarsölum á húseignum verður frestað um sex mánuði þannig að þær geta í fyrsta lagi farið fram í ágúst og að þeir sem missa hús sín vegna nauðungarsölu geta búið þar í eitt ár frá því salan fer fram.
Framangreint er aftur í samræmi við fyrstu skref sem rædd eru í nýframkomnu ákalli til stjórnvalda um lausn á efnahagsvanda heimilanna en meira þarf að koma til eins og þar er lýst.
Svigrúm skuldara aukið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Þetta er þarft verk og gott og á örugglega eftir að koma mörgum vel.
Langar að spyrja þig Gísli hvort það sé löglegt og hafi verið löglegt, að viðhalda gjaldþrotakröfu í meira en fimmtán ár. Og ef svo er ekki, getur þessi einstaklingur eða þeir sem næstir honum standa, gert eitthvað í því máli ??
TARA, 17.2.2009 kl. 23:27
Sæll Gísli og þakkir fyrir geinagóð skrif eins og ávalt.
Hvað er með að halda kröfum lifandi eins og kallað er. Er ekki nauðsynlegt að setja einhverjar skorður við slíku eftir að gjaldþrot hefur farið fram?
Hólmfríður Bjarnadóttir, 18.2.2009 kl. 00:42
Ber að skilja síðustu málsgreinina þannig að allar eldri kröfur en tveggja ára gamlar, sem ekki hafa fengist greiddar við gjaldþrot, falli niður við gildistöku laganna?
Með góðri kveðju,
Þorsteinn Briem, 18.2.2009 kl. 00:43
Ég tel að þessi lög muni einfaldlega gera siðblinduna almennari. Fólk lætur sig viljandi eða nauðuga verða gjaldþrota. Hætta að borga af lánum og bíði svo í tvö ár eftir að geta fjárfest aftur. Þetta þýðir tveggja ára viðbótarfost á fasteignamarkaðnum sem getur ekki endað nema með gífurlegu hruni á fasteignaverði.
Offari, 18.2.2009 kl. 01:59
Já, TARA. Því miður er það unnt og Jú Hólmfríður ég tel að setja þurfi því skorður - og hef lagt það til við stjórnvöld (en þar til það er gert er sennilega f.o.f. hægt að skírskota til sanngirni úr því að lög styðja það ekki enn), sbr. eftirfarandi texta úr tilvísaðri umsögn til viðskiptaráðuneytisins fyrir 2 1/2 ári um drög að fyrningarlagafrumvarpi:
"Fullnustugerðir
Loks tel ég rétt að vekja athygli á þeirri skoðun minni að almenningur sé ekki meðvitaður um að halda megi við kröfu – endalaust – með því að slíta fyrningu hennar með fullnustugerðum eins og unnt hefur verið samkvæmt gildandi lögum; sá möguleiki virðist heldur rýmkaður með 17.-18. gr. frv.dr. Þá tel ég vafasamt hvort slíkur réttur – einkum ef hann er svo rúmur og takmarkalaus eins og lagt er til í frv.dr. – sé í samræmi við réttarvitund almennings. Tel ég líklegt að skjóta megi stoðum undir þá afstöðu með því að kanna hvort slíkur réttur hafi verið nýttur í ríkum mæli undanfarna áratugi. Ef svo er ekki legg ég til að ráðuneytið íhugi – t.d. í samráði við Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna – að takmarka hvort, við hvaða skilyrði eða hversu oft kröfuhafi getur slitið fyrningu kröfu og þannig – fræðilega séð – haldið henni endalaust í gildi án takmarkana. Tel ég mikilvægt að tryggt verði meira samræmi milli réttarvitundar almennings að þessu leyti og laga auk þess sem svo víðtækur réttur sem frv.dr. gera ráð fyrir er til þess fallinn að leiða til annað hvort víðtæks skuldaklafa almennings um aldur og ævi eða mismununar á milli skuldara."
Offara er ég ekki sammála en Steina verð ég að svara þannig að ég held ekki, ef þú átt við lagaskil heldur hvort lagabreytingin felli kröfur úr gildi; nýr skemmri fyrningarfrestur hefst aðeins við það að lýstar kröfur fást ekki greiddar ef ég skil spurningu þína rétt.
Gísli Tryggvason, 19.2.2009 kl. 23:47
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.