Miðvikudagur, 14. janúar 2009
Lífeyrissjóðir verða ekki þjóðnýttir
Ugg setti að mörgum - og aðrir undruðust - í gærkvöldi þegar Guðmundur Ólafssson, hagfræðingur og háskólakennari, hélt því fram í Kastljósi að til álita kæmi að lífeyrissjóðir yrðu þjóðnýttir - já annað er varla hægt að kalla þá hugmynd sem Guðmundur lýsti. Guðmundur lýsti því ítrekað yfir að segja yrði sannleikann, umbúðalaust.
Tekið skal fram að Guðmundur virðist ekki hafa verið að lýsa eigin skoðun heldur bar hann á borð orðróm um að þetta kynni að standa til - af hálfu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og ríkisstjórnarinnar. Guðmundur ræðir í annars ágætu Kastljósviðtali um "yfirtöku" lífeyrissjóðanna og má (mis)skilja það á ýmsa vegu en segir svo að hann geti "ekki borið ábyrgð á því" - heldur hafa heyrt þetta "á skotspónum." Slíkt tal getur hins vegar ekki verið án ábyrgðar og vil ég þess vegna svara þessum orðrómi eins og unnt er.
Þegar þessi kvittur komst á kreik fyrr í vetur í kjölfar bankahruns og neyðarlaga tók ég ekki mark á því - og tek ekki nú enda gæti slíkt ekki staðist. Vegna þeirrar óvissu sem slíkt gæti haft í för með sér hjá sjóðfélögum og öðrum hagsmunaðilum ef tekið yrði mark á þessu er ástæða til þess að fara nokkrum orðum um að slík áform - væru þau fyrir hendi - stæðust ekki, hvorki lagalega né eftir öðrum mælikvörðum.
Eins og ég hef áður bloggað um er einn helsti styrkur Íslands lífeyrissjóðakerfið en reynslu okkar af því kerfi gætum við miðlað öðrum þjóðum í því skyni að vera ekki aðeins þiggjendur í samstarfi milli ríkja. Styrkur lífeyrissjóðanna er gjarnan talinn s-in þrjú - eða fjögur að mínu mati:
- skylduaðild,
- sjóðssöfnun,
- samtrygging og
- stjórnarfyrirkomulag.
Fyrstu þrjú atriðin njóta líklega víðtækrar viðurkenningar en það síðasta er að mati mínu einn helsti styrkurinn þar sem hlutaðeigandi stofnaðilar - lýðræðisleg samtök launafólks annars vegar og samtök atvinnurekenda hins vegar - tilnefna helming stjórnarfulltrúa hvor og horfa fyrst og fremst til þess markmiðs að ávaxta fé sjóðfélaganna sem best en líta fram hjá öðrum markmiðum. Allar ákvarðanir - einkum stefnumarkandi og stórvægilegar - þurfa því að njóta víðtæks stuðnings þessara þjóðfélagsafla sem að lífeyrissjóðunum standa. M.a. af þeirri ástæðu yrðu áform um þjóðnýtingu aldrei liðin.
Hitt er ekki síður ljóst í mínum huga að þjóðnýting af hálfu ríkisins stæðist ekki lagalega enda er eignarréttur varinn af stjórnarskránni og má ekki taka eign eignarnámi nema
- samkvæmt lögum,
- í þágu almannahagsmuna og - síðast en ekki síst -
- gegn fullum (ekki sanngjörnum, heldur fullum) bótum.
Markleysa væri að taka fé lífeyrissjóðanna eignarnámi og bæta það svo með fé að fullu. Eins og ég hef skoðað sérstaklega og rökstutt á fræðilegum vettvangi um sambærilegt dæmi er vafalaust að lífeyrissjóðirnir - eins og þeim er komið á fót og stjórnað sem sjálfstæðum lögaðilum í þágu tiltekins skýrs markmiðs - njóta verndar eignarréttarákvæðis stjórnarskrárinnar. Hafi Guðmundur (eða heimildarmaður hans) átt við leigunám - sem einnig eru til fordæmi um - þannig að fé verði fengið að láni gildir hið sama að greiða þarf fullar bætur - þ.e. leiguverð (svonefnda vexti) fyrir; eðlilegast væri að ræða slíkt við stjórnir lífeyrissjóðanna og semja um slík lán eða aðrar ráðstafanir í þágu lands og þjóðar - eins og mun hafa verið reynt og rætt helgina fyrir neyðarlögin í byrjun október.
Eins og Guðmundur sagði í viðtalinu:
[...] hagfræðin fjallar ekki um réttlæti [...]; þetta mál er eiginlega komið út úr hagfræðinni fyrir löngu [...]
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Guðmundur Ólafsson er miklu betri í að túlka ástarljóð Steins Steinarr. kveðja Kolla.
Kolbrún Stefánsdóttir, 14.1.2009 kl. 22:13
Ég vildi helst hætta að borga í lífeyrissjóð. Mér finnst ekki rétt þessi löggjöf að skylda fólk til að greiða 12% af brúttótekjum sínum alla ævi í sjóð sem við sjálf ráðum engu um. Afdrif þessara fjármuna eru úr höndum þeirra sem halda þeim uppi þ e launþeganna. Smákóngar sem sjá um rekstur sjóðanna hafa í gegnum árin sannarlega ekki alltaf sýnt mikla fyrirhyggju enda sannast það sem oft er sagt "betur fara menn með eigið fé en annarra". Við launþegar erum betur sett með að sjá sjálf um að koma okkur upp og ávaxta okkar eigin eftirlauna-varasjóði.
Marta B Helgadóttir, 14.1.2009 kl. 22:44
Ef Lífernissjóðirnir verða þjóðnýttir get ég lofa því að það verður bylting valdarán og blóðug átök stéttafélögin samþykkja það aldrei heldur verður að gefa ísland upp sem gjaldþrota.
Jón Ólafur Vilhjálmsson, 14.1.2009 kl. 22:45
Það er ekki hægt að þjóðnýta sjóðina, vegna þess að þeir eru samsettir úr sjóðum einstaklingana. Hver og einn sjóður er í enkaeign hvers og eins sjóðsfélaga. Þannig eru lífeyrissjóðir á hinum almenna markaði byggðir upp.
Það hefur lengi verið mín skoðun að lífeyrissjóðakerfið gengur alls ekki upp auk þess það býður upp á gríðarlegt misrétti í landinu.
Á rúmlega tíu ára fresti hefur þurft að hressa upp á þetta kerfi og hef ég sem gamall félagi í ASÍ tekið þátt í því starfi árum saman.
Ég hef þegar greitt í þennan sjóð í 39 ár og mun aldrei fá mitt til baka.
Þeir einu sem hafa hrósað þessum sjóðum eru þeir sem hafa borið einhverja ábyrgð á tilveru þeirra og fjármálamenn. Þeir hafa verið óþreyttir við að hrósa sjóðunum.
Þetta kerfi er allt of dýrt fyrir launamenn. En eins og þú væntanlega veist greiða launamenn í dag um 12% af launum sínum í sjóðinn.
Í því sambandi verður að gæta þess að sá hluti sem fyrirtækið kemur til skila inn í sjóðina eru greiðslur í nafni launamanna eru einnig umsamin laun sem launamenn verða að vinna fyrir.
Kristbjörn Árnason, 14.1.2009 kl. 22:51
Ég hef nákvæmlega sömu tekjur hvort ég fæ greiðslu úr lífeyrissjóð annars fengi ég bara meiri tekjutryggingu en sparnaðurinn sem fæst með lífeyrissjóðunum er nauðsinnilegur skyldusparnaður gæti verið mjög athugandi fyrir ungafólkið,hann kom mörgum vel við fyrstu íbúðarkaup.
Ragnar Gunnlaugsson, 14.1.2009 kl. 23:26
Varðandi lögin um tekjutrygginguna sem sett voru 1971 stóð aldrei til að þau giltu í nema 10 ár. 1980 kom í ljós að lífeyrissjóðirmir vou í raun gjaldþrota sem lífeyrissjóðir. Þá byrjaði baslið með sjóðina. Þá voru iðgjöld aukin úr því að vera 10% af dagvinnu í það að vera 10% gjald af öllum launum.
!990 í þjóðarsáttarsamningunum hafði auðvitað komið í ljós að það voru aðeins launamenn sem greiddu í lífeyrissjóð . þó það hafi verið lagaleg skylda að allir greiddu í lífeyrissjóð frá 1980 . Ekki var gengið eftir því að þeir greiddu vegna þess að uppgefnar tekju atvinnurekenda voru nánast aldrei neinar tekjur.
Þá var ákveðið að rukka þá einnig, þannig að ákvörðuð voru lágmarkslaun á atvinnurekendur eftir stéttarlegu viðmiði.
Eftir 2000 hafa iðgjöld verið hækkuð og sjóðirnir eru samt í vanda.
Mig vantar upplýsingar um hvort lífeyrirsjóðir megi eiga hlutabréf í fjárfest-ingasjóðum sem fjármagna rekstur sinn með lánum og stunda skortsölu?
Þetta hafa sjóðirnir samt gert.
Kristbjörn Árnason, 15.1.2009 kl. 00:11
Nú er kominn upp staða sem ekki var uppi á boðinu þegar síðast var tekið á regluverki lífeyrisjóðanna. Sú hætta er raunverulega fyrir hendi að erlendar eignir lífeyrisjóðanna þurrkist út á næstu misserum, sökum efnahagshrunsins í heiminum. Til að mynda hafa norðmenn nú ákveðið að ganga á erlendar eignir olíusjósins. Ég tel að það sé hluta til vegna þess að menn eru allt í einu að átta sig á því hættan á að fjarmálakerfi heimsins hrynji til grunna er raunveruleg. Ein leið til að tryggja sig í því umhverfi er að láta lífeyrislóðina kaupa upp erlendar skuldir ríkisjóðs og lífvænlegra íslenskt starfandi fyrirtækja. Þeir sem eiga í lífeyrisjóðum gætu því allt eins litið svo á að með því sé verið að verja eignir í stað þess að kalla þetta eignaupptöku.
Guðmundur Jónsson, 15.1.2009 kl. 10:26
Getur þú lofað því að lífeyrissjóðirnir verði ekki þjóðnýttir?
Offari, 15.1.2009 kl. 14:38
Áhugaverð umræða hér.
Varðandi hvort lögin sem banna lífeyrissjóðum að fjárfesta í félögum sem stunda skortstöðu hafi verið brotin.
Að taka stöðu með eða gegn gjaldmiðli fellur ekki undir þessa skilgreiningu, að stunda skörtstölu. Þó að þetta hljómi sem nákvæmlega sami hluturinn og er stundaður sem slíkur í nákvæmlega sama tilgangi og með skortstöðu hlutabréfa, þá eru fyrirtæki oft að gera gjaldeyrissamninga til að verja eigið bú t.a.m. í sinni einföldustu mynd að kaupa gjaldeyri til vörukaupa fram í tíman vegna samninga við viðskiptavin.
Hinsvegar er líklegt að bankar og fyrirtæki hafi stundað "raunvörulega" skortsölu.
Varðandi lífeyrissjóðina þá tel ég vera lagalegan grundvöll fyrir því að ríkið leysi þá til sín tímabundið samanbr. 46gr. laga um lífeyrissjóði.
Ég hef einnig skrifað ótal greinar um lífeyrissjóðina og gagnrýnt stjórnun þeirra og fjárfestingar harðlega, tel reyndar að þetta séu meiri ósjóðir en hitt og er fylgjandi því eins og staðan er í dag að ríkið leysi þá til sín.
Ég er fullkomlega ósammála greinarhöfundi Gísla um að tengsl atvinnulífsins og verkalýðsforystunnar í lífeyrissjóðunum hafi gert eitthvað gott. þvert á móti tel ég þessa tengingu vera helsta mein lamaðrar verkalýðsforystu.
Sjá á Bloggi mínu 10 góðar ástæður til að leggja niður lífeyrissjóði og byrja að vaska upp.
Kveðja
Ragnar Þór.
Ragnar Þór Ingólfsson, 15.1.2009 kl. 15:14
Sæll Gísli.
Góður pistill !
Ég skrifaði í haust um svipaðar vangaveltur það er að segja ,Hvað getur Rikisstjórnin seilst í lífeyrissjóðina án þess að landsmönnum komi það við.
Þetta er alvörumál.
Og ég vill fá að vita HVAÐ ER Í SKILYRÐUM ASG sjóðsins fyrir því láni sem að við fengum (fáum) og afhverju er það leyndarmál fyrir þá sem borga. (Þú og ég).
Kær Kveðja.
Þórarinn Þ Gíslason (IP-tala skráð) 15.1.2009 kl. 15:40
Lífeyrissjóðirnir verða örugglega mikið í umræðunni næstu misseri þar sem svo mikið fjármagn er bundið þar, eða um 1700 milljarðar. Álíka upphæð og sumir segja að séu heildarskuldir ríkissjóðs þó svo að það virðist vera talsvert á reiki.
Sjálfsagt gæti Ríkissjóður gert þessar eignir upptækar eins og hann hefur verið að gera upptækar þinglýstar jarðir bænda undanfarið.
Annars hef ég verið að velta fyrir mér hvort það væri ekki skynsamlegt við þessar aðstæður að bjóða fólki upp á að lækka framlög í lífeyrissjóði og fá hærra hlutfall launa greitt út strax. Það gæti komið sér betur fyrir fólk en að lenda í vandræðum með afborganir og missa eignir í kjöfarið.
Þorsteinn Sverrisson, 15.1.2009 kl. 18:18
Takk Gísli fyrir að útskýra svona vel tilurð og stöðu Lífeyrissjóðanna. Mér finnst oft þegar fjallað er um sjóðina þá sé fólk á allkyns villigötum. Sá ekki viðtalið við Guðmund en ætla að kíkja á það í kvöld. Hef starfað við verkalýðsmál í 16 ár og sat í í tvö ár í stjórn Lífeysissjóðs Norðurlands sem nú er Stapi. Er samt ekki neinn sérfræðingur um sjóðina, nema síður sé. Tel mig samt vita aðeins meira en fólkið á götunni, með fullri virðingu fyrir því.
Hólmfríður Bjarnadóttir, 15.1.2009 kl. 18:26
Takk fyrir (óvenju margar) ábendingar, hrósyrðingar og athugasemdir. Reyndi að hafa þetta stutt og laggott eins og við á í bloggi en margt er hægt að segja um þetta fyllra og meira. Auðvitað eru meiri sérfræðingar en ég margir í málinu en þeir eru margir tengdir lífeyrissjóðum (eða sérstakir andstæðingar þeirra); þó að ég hafi verið tengdur lífeyrissjóðum sem framkvæmdarstjóri BHM í 7 ár 1998-2005 er ég það ekki lengur - en styð þá samt eins og fram kom í færslunni.
Beinum spurningum til mín vil ég gjarnan svara, svo og því sem ég tel ekki standast - í öfugri röð.
Þorsteinn; nei kjarninn í mínu máli var að ríkið geti samkvæmt stjórnarskrá(rákvæði sem ég vísaði til) ekki gert neitt upptækt - aðeins glæpamunir eru gerðir upptækir og stjórnarskráin heimilar aðeins eignarnám samkvæmt lögum og gegn fullum bótum. Þjóðnýting (sbr. Nasser og Suez-skurðurinn 1956 er sem sagt bönnuð í stjórnarskrá); eignir bænda voru ekki gerðar upptækar heldur var ríkisseign (þjóðlendu) lýst á eignir sem bændur töldu sig - ranglega - eiga.
Þórarinn; ég þekki ekki skilyrði AGS - nema hvað ég las plaggið sem birt var opinberlega. Ekki er víst að ég gæti kallað eftir öðrum upplýsingum, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga um embættið: "Talsmaður neytenda getur ekki krafist upplýsinga er varða öryggi ríkisins eða utanríkismál sem leynt skulu fara nema með leyfi ráðherra þess sem í hlut á."
Ég er ekki sammála Ragnari Þór um að ríkið geti leyst til sín lífeyrissjóði samkvæmt lögum um þá; 46. gr. heimilar frávikningu stjórnar o.fl. vegna vandræða lífeyrissjóðs - ekki upptöku fjár í annað markmið.
Offara vil ég svara þannig að með fyrirsögninni átti ég við að ekki sé heimilt að íslenskum lögum að þjóðnýta lífeyrissjóði og að slík lög stæðust ekki stjórnarskrá eins og dómstólar myndu staðfesta ef ríkisstjórn reyndi slíkt samkvæmt lögum sem Alþingi myndi setja. Fordæmið sem ég nefndi er um 40 ára gamalt frá Hæstarétti Danmerkur og varðaði stjórnarskrávernd hinnar gömlu Árnastofnunar í Danmörku sem var ekki heimilt að skylda til þess að láta af hendi bótalaust fé til Íslands í handritamálinu. Loforðið felst því í trausti á lögum, stjórnarskrá og dómstólum.
Kristibirni er ég ekki sammála um rök varðandi einkaeign; réttindin eru vissulega einstaklingsbundin en um er að ræða samtryggingarsjóði þannig að ef ég dey 70 ára, daginn sem ég hætti að vinna, "tapa" ég öllu og erfingjar fá ekkert. Lifi ég til 100 ára aldurs "græði" ég 30 ára framfærslu. Í því felst tryggingin, gegn tekjutapi, löngum lífaldri.
Stefán Jóhann; kjarninn í færslu minni var að þessi áform - ef þau væru fyrir hendi - stæðust ekki.
Gísli Tryggvason, 15.1.2009 kl. 22:58
Á meðan greiðslufélaginn er lifandi, verður eignin hans varla gerð upptæk. Allt fer um réttindi hans eins og hann hefur greitt. En eftir dauðahans verður hans hlutur eftir í sameiginlegum sjóði.
Ef komist verður að þeirri niðurstöðu að leggja sjóðina niður og teknir yrðu upp gegnumstreymissjóðir, gætu sjóðirnir ekki gert upp þær greiðslur til sjóðfélaganna til hvers og eins með vöxtum og verðtryggingu.
Ef sjóðfélaginn vill taka út sína peninga fær hann ekki að taka út 60% hlutinn þennan sem atvinnurekandinn greiddi í hans nafni.
Kristbjörn Árnason, 15.1.2009 kl. 23:33
Ég er sammála Mörtu, ég vil hætta að greiða í lífeyrissjóð. Til þess þarf tvennt (lágmark ) að vera í lagi þ.e. verðtrygging (eðlilegt viðmið ) og ríkisábyrgð á einhverjum banka eða að leyfilegt sé að fara með fé úr landi sem mér finnst nú ekki uppbyggilegt fyrir þjóðfélagið. Sama á við með stéttarfélög. Til hvers að borga í alls kyns sjóði og vera að sækja um hjá stéttarfélaginu um endurgreiðslur ef maður þarf að fara til læknis, í heilsurækt, fá gleraugu og fara á námskeið. Það sem heldur stéttarfélögunum lifandi núna er einmitt þessi umsýsla með peningana okkar. Úthlutar þeim svo til baka eftir eigin regluverki. Alger forsjárhyggja. kveðja Kolla.
Kolbrún Stefánsdóttir, 16.1.2009 kl. 11:17
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.