Þjóðfundurinn 2009 - uppskrift að stjórnlagaþingi

Flestir þekkja söguna um Þjóðfundinn 1851 þar sem Jón Sigurðsson mælti fyrir hönd þjóðarinnar:

 

Vér mótmælum allir!

 

Bloggheimar brenna nú ekki lengur bara af bræði - heldur logar allt í lausnum; undafarna sólarhringa hefur risið hvað hæst þverpólitísk hugmynd um stjórnlagaþing en um það ritaði fyrrverandi formaður stjórnarskrárnefndar, Jón Kristjánsson, fyrrverandi þingmaður og ráðherra, grein í Fréttablaðið í gær sem má lesa hér.

 

Af því tilefni vil ég nefna nokkur meginatriði um þetta hugðarefni mitt.

 

  • Stjórnarskráin er 135 ára í þessum mánuði að stofni til.
  • Í 105 ár, frá heimastjórn 1904, hefur stjórnskipulag lítið breyst með nánum tengslum þings og ráðherra/ríkisstjórnar.
  • Frumkvæði að stjórnarskrárbreytingum hefur hingað til aðeins getað komið frá Alþingi og stjórnmálaflokkunum sem þar eiga fulltrúa.
  • Stjórnarskrárbreytingar hafa ávallt fallið í skugga almennra kosninga.
  • Heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar hefur oft staðið til en alltaf mistekist.
  • Vantraust er á stjórnvöldum og stjórnmálaflokkum.
  • Krafa er um beint lýðræði.
  • Óskir eru uppi um róttæka heildarendurskoðun stjórnskipunarinnar.

 

Svona gæti stjórnlagaþing komið til í tólf skrefum ef vilji stæði til þess:

  1. Núverandi Alþingi afgreiðir stjórnarskrárbreytingu um tímabundið stjórnlagaþing sem fái vald til þess að semja nýja stjórnarskrá.
  2. Þing er rofið og kosið að nýju eins og skylt er þegar frumvarp um stjórnarskrárbreytingu er samþykkt.
  3. Stjórnlagaþing kemur saman þegar stjórnarskrárbreyting er samþykkt öðru sinni af nýkjörnu Alþingi.
  4. Ekki verði aðeins um smávægilegar lagfæringar að ræða eins og hingað til.
  5. Þingmenn og ráðherrar eigi ekki sæti á stjórnlagaþingi.
  6. Á stjórnlagaþing verði kjörnir í almennum kosningum fulltrúar þjóðarinnar.
  7. Einnig gætu almannasamtök og hagsmunasamtök fengið áheyrnarfulltrúa, t.d. í starfsnefndum stjórnlagaþings, en aðeins þjóðkjörnir fulltrúar hafi atkvæðisrétt.
  8. Sjálfstæði stjórnlagaþings sé tryggt með því að fulltrúar þar séu launaðir, stjórnlagaþing ákveði sjálft skipulag sitt, fundarsköp og starfshætti.
  9. Stjórnlagaþing geti ráðið sér sérfræðinga til aðstoðar.
  10. Starfstími stjórnlagaþings gæti verið um hálft ár.
  11. Alþingi og ríkisstjórn starfi áfram að sínum hefðbundnu úrlausnarefnum á meðan.
  12. Ný stjórnarskrá verði borin undir þjóðina í bindandi allsherjaratkvæðagreiðslu.

 

Beinna verður lýðræðið ekki en að þjóðin sjálf ákveði grundvöll nýs þjóðskipulags. 

 

Formaður stjórnarskrárnefndar skrifar m.a.:

Hingað til hafa breytingar á stjórnarskránni verið hnýttar við almennar kosningar um umræður um dægurmál í Alþingi. Það er meðal annars vegna þess að rjúfa þarf þing og efna til kosninga eftir að alþingismenn hafa rætt og samþykkt stjórnarskrárbreytingar. Þær hafa hingað til hafa verið undirbúnar af fámennum starfsnefndum og lagðar fyrir Alþingi sem frumvarp til stjórnskipunarlaga. Frumkvæði að breytingum hefur aðeins getað komið frá alþingismönnum þó að stjórnvöld fari með vald í umboði þjóðarinnar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Við þurfum að nútímavæðast.  Við þurfum að efla lýðræðið í landinu.  Kannski er nóg að kjósa og skera með því eitrið í burtu, en ég held að það sé ekki nóg.  Við þurfum að færa þjóðinni valdið í meira mæli og takmarka frelsi framkvæmdavaldsins til að ráðskast með fjöregg okkar.  Verulegar breytingar á stjórnskipan þjóðarinnar eru nauðsynlegar.

Marinó G. Njálsson, 13.1.2009 kl. 09:28

2 Smámynd: Sævar Helgason

 Smá athugasemdir hin almenna þjóðfélagsþegns:

"Frumkvæði að stjórnarskrárbreytingum hefur hingað til aðeins getað komið frá Alþingi og stjórnmálaflokkunum sem þar eiga fulltrúa."

Það er einmitt þetta sem hefur a.m.k alla lýðveldistímann  verið akkilesarhæll málsins. Í 64 ár hefur málið verið rætt á alþingi- en alþingi reynst alls ófært um að koma nokkrum breytingum fram- Hagsmunir flokkanna (eins eða fleiri) hafa hindrað. Þess vegna er víðtæk samstaða utan þings og flokka grundvöllur þess að stjórnlagaþing verði knúið fram.   Flokkarnir eru handónýtir til að knýja málið fram.

Auðvitað er það svo að Þjóðin er æðsta valdið . Stjórnmálaflokkar starfa í umboði þjóðarinnar.  Stjórnsýslan eins og hún er núna og hefur þróast- er að framkvæmdavaldið hefur yfirtekið alla stjórnsýsluna. Þingheimur er óvirkur. Í raun þurfa öll mál að lúta samþykki formanna þeirra flokka sem um valdataumana halda , hverju sinni.  Ekki mjög langt frá einræði. Gott dæmi þar um er stríðsyfirlýsing "Íslendinga"á hendur Íraq- þar tóku tveir menn ákvörðun(kannski bara einn).

Um skipan dómara í Hæstarétt þarf ekki að fjölyrða.  Skipanir í önnur mikilvæg embætti- Seðlabankastjóri, Fjármálaeftirlit svo dæmi séu tekin .  Flokksvaldið ræður.

Þetta eru nokkrir punktar sem sýna hvernig komið er okkar stjórnarfari og hefur leitt okkur í hrun- efnahagslegt og niðurlægingu meðal þjóðanna.

Að stokka upp stjórnkerfið er  lífsnauðsyn þessarar þjóðar. Aðskilja með öllu löggjafarvaldið frá framkvæmdavaldinu svo og tryggja sjálfstæði dómskerfisins. Allt er þetta í skötulíki hjá okkur núna.

Þetta er svona smá innlegg í stórt mál

Sævar Helgason, 13.1.2009 kl. 09:37

3 Smámynd: Gunnar Axel Axelsson

Góð hugmynd Gísli og vel útfærð

Heyrði þig viðra hana fyrir nokkru síðan á fundi sem við sátum báðir og varð strax hrifinn.

Síðan þá hafa fjölmargir komið fram með samhljóða hugmyndir og líklega er þetta bara einmitt það sem við þurfum að sameinast um.

Byrjum á grunninum og byggjum upp samfélag sem samræmist vilja þjóðarinnar.

Kær kveðja

Gunnar Axel

Gunnar Axel Axelsson, 13.1.2009 kl. 09:41

4 Smámynd: Árni Gunnarsson

Stjórnlagaþing er ekki ný hugmynd á Íslandi.   Á seinni hluta síðustu aldar voru starfandi þverpólitisk samtök sem hétu í upphafi "Samtök um jafnrétti milli landshluta" en nafninu var síðan breytt í "Útvörður" og dró það nafn heiti sitt af riti með því nafni sem samtökin gáfu út. Reyndar átti ég hugmyndina að þessu nafni. Samtökin náðu ekki nægri útbreiðslu og munu hafa sofnað á síðasta áratug aldarinnar.

Eitt helsta markmið var að kjósa stjórnlagaþing og leggja til skiptingu landsins í fylki með eigin stjórn á innri málefnum. Segja má að sameining sveitarfélaga hafi að nokkru komið þessu markmiði til framkvæmda en þó ekki til fulls.

Nóg um það. Það er hinsvegar óþarfi að eyða löngum texta og langri umræðu um að stjórnarskrárnefndin muni komast að samkomulagi um tillögu í þessa veru á þessu kjörtímabili. Til þess vantar auðvitað vilja til þeirra breytinga sem mestu skipta. Þar standa í veginum flokkseigendafélögin sem eiga tilveru sína undir óbreyttri stöðu. Afstaða Sjálfstæðisflokksins kemur auðvitað engum á óvart. Hitt vekur meiri ugg hjá mér að á fundinum í gærkvöld í Háskólabíói tók varaformaður Samfylkingarinnar Ágúst Ólafur Ágústsson þessari hugmynd fálega.

Niðurstaða mín er að þessi hugmynd verði að mótast hratt og standa að henni með nýju framboði sem leitar stuðnings hjá þjóðinni í næstu kosningum til Alþingis.

Þetta markmið ásamt því að koma ríkisstjórninni frá með nægilegum fjöldaþrýstingi eru brýnustu verkefni þessarar þjóðar á næstu vikum.

Stjórnvöldum okkar hefur tekist auðveldlega að sitja sem fastast í skjóli þess lýðræðislega ofbeldis sem gölluð stjórnarskrá og kosningalöggjöf gefur þeim færi á.

Árni Gunnarsson, 13.1.2009 kl. 13:48

5 Smámynd: Vilhjálmur Árnason

Þetta er frábær lausn og hefur verið í umræðunni allt frá byrjun og ef stjórnvöld væru að velta fyrir sér þessum hlutum og reyna að bera sig eftir því hvað þjóðin vill þá væri engin bræði á blogginu.

Bræðin og reiðin hefur sínar ástæður, og vonandi fara stjórnvöld að hlusta. Það er ekki valmöguleiki að slökkva á tilfinningum sem varða líf og heilsu, og framtíð heillar þjóðar. Reiði og bræði verður partur af þessu ferli en þessar tilfinningar fara úr böndunum ef stjórnvöld hlusta ekki.

Það er miklu meira undir en það að menn kingi bara og þegi.

Það er dálítið skondið þegar rætt er um að umræðan hafi verið án lausna en það er bara, varnarræða valdhafa. Alveg frá upphafi hafa lausnirnar glumið um allt en vandamálið er að ekki hefur verið hlustað á þær. Þjóðstjórn var fyrsta tillagan. Stjórn sem ynni þar til boðað yrði til kosninga. Það var ekki hlustað á það. Það var óskað eftir að kosningar yrðu boðaðar með vori. Það var ekki hlustað á það. Það var beðið um nýja stjórn í seðlabanka. Það var ekki hlustað á það. Það var beðið um nýtt fjármálaeftirlit. Og erlenda ráðgjafa. Að mínu mati hefur umræðan logað í lausnum allt frá byrjun, en reiði hefur magnast þegar stjórnvöld hlusta ekki og örvænting fólks eykst. Það hefur verið talað um verðtryggingar vandamálið frá byrjun.

Nú hafa utanaðkomandi hagfræðingar talið hana vera okkur til mikils tjóns. Samt þrjóskast stjórnmálamenn við.

Sálfræðingar, hagfræðingar, heimspekingar, þjóðhagfræðingar og stjórnmálafræðingar hafa komið fram og sagt að það sé nauðsynlegt að stjórnmálamenn axli ábyrgð og taki ábyrgð á því að stefna olli skipbroti.

Allar lausnir hafa verið í umræðu frá byrjun.

Og mér finnst það sorgleg yfirlýsing bæði forustu flokkanna í stjórn og þeirra sem vilja að stjórnvöld haldi áfram í stjórnartaumana að engar lausnir hafi komið fram.

En ber í sannleika að skoða sem pólitískt útspil til að halda völdum og afvegaleiða umræðuna. Af hverju er ekki búið að boða til kosninga. Hvað er vandamálið. Af hverju er ekki bara flutt frumvarp um kosningarlög. Eða stjórnlagaþing.Það samþykkt og boðað til kosninga.

Það er vegna þess að ríkisstjórn starfar ekki fyrir lýðræðið og þar af leyðandi ekki fyrir þjóðina.

Og þess vegna kemur fólk saman laugardag eftir laugardag og mótmælir því að flokkarnir og ríkisstjorn vilji ekki mæta þjóð sinni og segja einfaldega hvað viljið þið gera.

Í stað þess segir ríkisstjórn, og múlflokksbundnu kjósendurnir, það eru engar lausnir.

Þessi hroki hefur aukið reiðina. Réttilega.

Vilhjálmur Árnason, 13.1.2009 kl. 19:26

6 Smámynd: Jón Ragnar Björnsson

Fínn pistill hjá þér Gísli. Þakka þér fyrir. Og góðar athugasemdir hér fyrir ofan.

Ég er kominn á þá skoðun að ekki verði friður í þessu þjóðfélagi fyrr en stokkað verður upp á nýtt. Slíkar eru hamfarirnar (ekki nærri allt komið í ljós ennþá) að við verðum að stofna nýtt lýðveldi.

Við verðum að gera skýr skil milli þess „lýðveldis“ sem var og lýðveldis Nýja Íslands.

Ég get tekið undir flest allar hugmyndir sem koma hér að framan. Við eigum að taka upp eitt kjördæmi, fækka þingmönnum niður í um 30, ráðherrar geti ekki verið jafnframt þingmenn.......

Nú er að leita hugmynda um hvernig best verði að koma á stjórnlagaþingi. Núverandi þing getur sett lög á vorþingi. Það er fyrsta skrefið. Til þess þarf vilja meirihluta þingsins. Þingmenn munu eflaust ekki taka því fegins hendi. Það þarf að þrýsta verulega mikið á með umræðum og samtökum sem berjast fyrir málinu -Ekki nýjan stjórnmálaflokk, heldur þarf að breyta innviðum flokkanna. 

Jón Ragnar Björnsson, 13.1.2009 kl. 21:52

7 Smámynd: Sigurður Viktor Úlfarsson

Hvernig sérðu fyrir þér að þjóðin veldi fulltrúa sína á þetta stjórnlagaþing?

Sigurður Viktor Úlfarsson, 13.1.2009 kl. 22:55

8 Smámynd: Gísli Tryggvason

Takk fyrir góð innlegg, rök og stuðning. Það er rétt, Gunnar Axel, að fyrst impraði ég opinberlega á þessu á borgarafundinum 17. desember í Borgartúni. Þakka einnig dæmi um umfjöllunarefni stjórnlagaþings - sem ég hef líka mörg en hef meðvitað reynt að aðskilja frá þessu formsatriði, sem felst í nýrri aðferð við (heildar)endurskoðun stjórnarskrárinnar. Persónulega horfi ég helst til fyrirmynda í stjórnskipun Bandaríkjanna.

Eina beina spurningin til mín er spurning Sigurðar um hvernig þjóðin velji fulltrúa sína á stjórnlagaþing. Ég er að vísu ekki sérfróður um kosningakerfi og er ekki alveg viss hvort best er að hafa eitt landskjördæmi eins og ég hallast þó að. Ég er hins vegar frekar fráhverfur listakosningum og aðhyllist frekar persónukjör í þessu tilviki til að aftengja flokkana og svo einn varamann fyrir hvern fulltrúa. Gjarnan mætti hafa kynjakvóta að mínu mati (t.d. 40/60) enda ljóst að rödd kvenna verður að heyrast betur á nýja Íslandi. Ég sé fyrir mér nokkuð fjölmennt stjórnlagaþing enda mikilvægt að fá sem fjölbreyttastan hóp auk þess sem aðeins er um tímabundið þing að ræða. Í raun er hugmyndin öðrum þræði sótt í hin nýju lýðveldi Frakklands, sbr. ábendingu Jóns Ragnars, sbr. og Bandaríkin þar sem róttækar þjóðfélagsbreytingar hafa átt sér stað á u.þ.b. 60-70 ára fresti.

Gísli Tryggvason, 13.1.2009 kl. 23:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.