Miðvikudagur, 29. október 2008
Lögfræðingar allra tjónþola sameinist!
M.ö.o. hefur - að gefnu tilefni og eftir margar fyrirspurnir frá neytendum, fjölmiðlum o.fl. um réttarstöðu og möguleg úrræði neytenda (og annarra) vegna fram komins eða hugsanleg taps sjóðfélaga í peningamarkaðssjóðum - verið boðað til samráðsfundar stjórnenda og helst lögfræðinga þeirra sem hafa tapað í sjóðunum nk. mánudag kl. 11 - í því skyni að stilla saman strengi um lagarök, réttarstöðu og tiltæk úrræði. Fréttir annarra fjölmiðla, t.d. nú í kvöld, staðfesta að á slíku samráði er rík þörf.
Meðal aðila sem gert hefur verið viðvart eru fulltrúar lífeyrissjóða og sveitarfélaga en með því að sameina lögfræðilega krafta allra áður en lagt er mat á lögfræðilegar röksemdir og tiltæk úrræði er líklegra en ella að málin komist skjótt í eðlilegan farveg.
Um aðra möguleika en hefðbundin réttarúrræði samkvæmt gildandi lögum fyrir dómstólum var m.a. fjallað hér fyrir 11 dögum síðan en þar segir m.a. (undir fyrirsögninni "New Deal"):
Þeirri hugmynd hefur verið skotið að mér að þeir sem skuldi íbúðarlán í bönkunum eigi að geta skuldajafnað gagnvart bankanum sem nemur tapinu í sjóðunum sem að vísu ætti að vera sjálfstæður lögaðili; það er hugsanlegt að því marki sem rökstyðja mætti bótakröfu vegna tapsins eins og kann að vera möguleiki í sumum tilvikum miðað við fréttir undanfarið.
Þá vaknar spurninginn um rétt þeirra sem eru í sömu aðstöðu hvað tapið varðar en skulda ekki íbúðarlán eða önnur lán í bankanum; mér datt í hug að þeir fengju í skaðabætur hlutabréf sem því næmi í nýju bönkunum sem að öðru leyti verða ríkisbankar a.m.k. fyrst um sinn miðað við ummæli bankamálaráðherra.
Um þetta var ég spurður á Bylgjunni í Reykjavík síðdegis í gær (um kl. 16:25).
Sjá nánar um boð á fundinn nk. mánudag kl. 11:00: http://talsmadur.is/Pages/55?NewsID=933
Fundað með hagsmunaaðilum vegna taps í peningamarkaðssjóðum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Þetta er mjög þarfur fundur Gísli. Það er algerlega óásættanlegt að þetta sparnaðarform verði ekki varið með sama hætti og önnur innlán. Sú aðgerð stjórnvalda að tryggja innlán bankanna að fullu, en ekki fé í peningamarkaðssjóðum, er í eðli sýnu mismunum gagnvart þeim sem töldu sig, eðlilega miðað við gildandi lög, vera betur setta með fé sitt í peningamarkaðsbréfum . Ganga þarf á eftir loforðum stjórnmálamanna um að ríkið muni verja sparnað landsmanna. Hugmyndir um skuldajöfnuð og útgáfu hlutabréfa eru allrar athygli verðar og verður vonandi fylgt eftir af fullum þunga.
Ólafur Björnsson, 29.10.2008 kl. 23:14
Ég vissi að ég þyrfti fljótlega að greiða stóran reikning og var ráðlagt af þjónustufulltrúa hjá Glitni að taka pening af bók með mánaðar uppsagnarfresti og setja á peningamarkaðsreikning sem væri með þeim skilmálum að ég gæti tekið út af með dags fyrirvara en í reynd yrði það aldrei meina en tveir tímar. Þannig væri öruggt að maður gæti tekið út sama dag ef maður kæmi fyrir klukkan 14:00. Á föstudeginum áður en lokað var (það var lokað á mánudegi um hádegisbil) ætlaði ég aftur að taka út peningana en þá var mér tjá að ég fengi þá ekki fyrr en á mánudegi og ef ég bæði um færsluna þá fengi ég vexti yfir helgina. Fjöldi fólks kom í útibúið að suðurlandsbraut í sama tilgangi og ég en öllum var sagt að nú væri þetta "ríkisbanki" 75% í eigu ríkisins ef ég man rétt og því þyrfti enginn að óttast um innistæður. Ef ég hefði ekki trúað þessu væri ég betur staddur í dag.
Mér finnst ég hafa verið svikinn og blekktur.
Það hljóta að vera fleiri í sömu sporum og ég.
Sigurður Þórðarson, 29.10.2008 kl. 23:14
Hvað með þá sem eru með verðtryggð lán sem rjúka upp úr öllu valdi? Eiga þeir ekki líka rétt á skaðabótum þá?
Sigurður Ingi Kristinsson, 29.10.2008 kl. 23:34
Þarft væri að athuga starfshætti fyrirtækja eins og Intrum sem hvetja til harðari innheimtuaðgerða eins og fram kom í viðtali á RÚV í dag.
Þórður Runólfsson, 30.10.2008 kl. 00:49
Ég átti peningabréf hjá Landsbankanum sem ég fékk að hluta greidd út í gær, eins og aðrir. En ég tók eftir því að þessir peningar höfðu legið í bankanum VAXTALAUSIR frá því þeir voru frystir fyrir þrem vikum!!
Þannig að endurgreiðsluhlutfallið var í raun lægra en gefið var upp.
Takið þetta með í reikninginn þegar málin verða gerð upp - ef það verður þá nokkurntíma.
Í gær voru þeir lagðir inn á sérstakan "Sparireikning" á mínu nafni. Ég hringdi í bankann til að fá upplýsingar um þennan nýja reikning, en það gat enginn í Þjónustuveri LÍ svarað hvaða skilmálar væru á reikningnum, en buðu mér samt að gera hann að mínum aðal sparireikningi. Ég missti andlitið. (já enn einu sinni...)
Hafa þessir bankar ekkert lært? Hvernig er hægt að stofna til nýrra sparileiða og gefa ekki upplýsingar um skilmálana? Má það? Eru þetta löglegir viðskiptahættir?
Viðar Eggertsson, 30.10.2008 kl. 17:35
Þakka innleggin sem ég hef í huga við undirbúning og framkvæmd fundarins og í kjölfar hans en fundurinn er f.o.f. ætlaður lögfræðingum og öðrum sem geta leitað lausna og velt fyrir sér úrræðum; í kjölfarið mun ég reyna að upplýsa neytendur um tiltæk úrræði og líkindi á lausnum.
Gísli Tryggvason, 31.10.2008 kl. 18:44
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.