Ríkisbakarí, ríkisbanki, ríkismatvöruverslun o.s.frv.

Félagi minn einn góður telur að ríkið eigi að reka eitt bakarí, einn banka, eitt olíufélag, eina matvöruverslun o.s.fr.v - til að veita markaðnum aðhald á þeim fákeppnismarkaði sem hér ríkir á flestum sviðum. Ég hef - þrátt fyrir unglingstilhneigingu til félagshyggju í það minnsta - enn ekki fallist á þessa afstöðu hans enda hafa jafnvel jafnaðarmenn sannfærst um að markaðsskipulagið sé ekki bara skást heldur best.

 

En! Ef svo er, þá verða verjendur markaðsskipulags að taka sig til og fallast á rök um - frekara - aðhald og eftirlit; ég tilfærði þetta fyrir nær hálfu ári í niðurlagi undir fyrirsögninni "Markaðir þurfa mótleikara:"

 

Þetta - sem bresk viðskiptapressa, bandarísk stjórnvöld og brjóstvörn frelsisins, Economist - benda nú á hefur markaðssinnað jafnaðarfólk, félagshyggjumenn og svonefndir forsjárhyggjusinnar reyndar lengi talið sig vita - líka við sem störfum í eftirlitsiðnaðinum.

 

Kannski hafa ekki bara forsjárhyggjumenn - heldur líka þeir, sem trúa á markaðsskipulagið - vanrækt mótvægið. Allir þurfa mótvægi. Það vita þeir sem eiga fjölskyldu. Það sáu Bandaríkjamenn fyrir meira en 200 árum er þeir hönnuðu sitt stjórnskipulag. O.s.frv.

 

Þessar hugleiðingar komu mér í hug er ég heyrði viðskiptaráðherra síðdegis í dag á RÚV svara fyrirspurn af fundi á Egilsstöðum um það hvort ríkið ætti ekki að taka (að nýju) upp ríkisrekstur til að veita markaðnum aðhald; ég finn ekki viðtalið á ruv.is en hér er frásögn RÚV:

 

Lagt var til á fundi um neytendamál á Egilsstöðum í gærkvöldi að ríkið stofni fyrirtæki um innflutning og sölu á olíu og bensíni enda væri þar engin virk samkeppni. Sömu rök voru nefnd fyrir því að ríkið ætti að stofna banka sem byði upp á örugga fjármálaþjónustu fyrir heimilin í landinu. Hvað finnst viðskiptaráðherra um þessar hugmyndir? Við komumst að því.

 

Þar sem svarið kemur ekki fram hér að framan er rétt að taka fram að viðskiptaráðherra, Björgvin G. Sigurðsson, tók ekki undir hugmyndina og færði rök fyrir afstöðu sinni eins og heyra má þegar viðtalið fer á vefinn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband