Sunnudagur, 4. maí 2008
Tímaröð: þjóðaratkvæði, ESB-aðildarumsókn, stjórnarskrárbreyting, þjóðaratkvæði
Miðstjórn Framsóknarflokksins hefur ályktað að spyrja beri þjóðina um hvort sækja eigi um fulla aðild Íslands að ESB en Ísland hefur í raun með EES-samningnum verið aukaaðili að ESB í nær 15 ár eins og launafólk og neytendur hafa notið að nokkru. Eins og hér kemur fram er full aðild mikilsvert hagsmunamál neytenda; leyfi ég, embættismaðurinn, mér því að blogga um stjórnlagafræðileg álitamál í þessu sambandi í kjölfar tímamótaályktunar Framsóknarflokksins um að eðlilegt sé að spyrja þjóðina
"um hvort stjórnvöld fái umboð til að ganga til aðildarviðræðna við ESB verði borin undir þjóðina í þjóðaratkvæðagreiðslu, óháð öðrum kosningum."
Eins og ég rakti hér á baráttudegi launafólks er spurning hversu oft og í hvaða röð þjóðin er spurð en miðstjórnin vill að hún sé spurð tvívegis í þjóðaratkvæði auk óbeinnar afstöðu sem felst í kosningum á milli samþykkta 2ja þinga, sem sagt þrisvar.
Mitt mat er að röðin og tímasetningar eigi samkvæmt þessu að líta einhvern veginn svona út:
- Snemma árs 2009: Alþingi ákveður með þingsályktun að efna til þjóðaratkvæðis um "hvort stjórnvöld fái umboð til að ganga til aðildarviðræðna við ESB".
- Snemma árs 2009: Alþingi samþykkir lög um tilhögun slíkrar þjóðaratkvæðagreiðslu og lögin árétti að meiri hluti kjósenda, sem taka afstöðu, ráði niðurstöðu og engin krafa sé um lágmarksþátttöku.
- Haustið 2009: Þjóðaratkvæði á sér stað um hvort skilgreina eigi samningsmarkmið og sækja um aðild að ESB í kjölfar ítarlegrar og upplýstrar umræðu málið hálfu ári fyrir og hálfu ári eftir samþykkt þingsályktunar í 1. tl. og laga í 2. tl.
- Veturinn 2009-2010 (eftir að öryggisráðsframboði er lokið): Ef meirihluti þjóðarinnar samþykkir að veita umboð til aðildarviðræðna skv. 3. tl. er gengið til slíkra viðræðna - og stefnt að því að þeim ljúki á árinu 2010 með fyrirvara um stjórnarskrárbreytingu skv. 5. tl. og þjóðaratkvæði um niðurstöðu samningaviðræðna skv. 6. tl.
Í þinglok vorþings 2011: Stjórnarskipunarlög eru samþykkt á Alþingi og aftur að loknum þingkosningum um vorið, svo sem þannig að 2/3 þingmanna geti (t.d. að fengnu samþykki þjóðarinnar) samþykkt að framselja hluta fullveldis vegna aðildar að yfirþjóðlegum samtökum á borð við ESB.
Vorið 2011 (eða strax 2010 í kjölfar viðræðna): Samhliða þingkosningum, þar sem reynir óbeint á stjórnarskrárbreytingu, má bera niðurstöðu samningaviðræðna sérstaklega undir þjóðina til samþykktar eða synjunar; ég er ekki sannfærður að rétt sé að spyrja þjóðina tvívegis beinlínis og einu sinni óbeint, alls þrisvar, en miðstjórn Framsóknarflokksins hefur ályktað á þann veg.
17. júní 2011: Nýr þjóðbúningur verður kynntur ef niðurstaða aðildarviðræðna, þjóðaratkvæða og stjórnarskrárbreytinga verður jákvæð.
Eins og fram kemur í athugasemd hér og rökstutt er hér felst það ekki í samþykkt miðstjórnar að stjórnarskránni eigi að breyta áður en þjóðin er spurð álits hvort sækja eigi um aðild eins og hér er haldið fram. Slíkt er að mínu mati heldur ekki stjórnskipulega skylt; spyrja má þjóðina um hvort sækja eigi um aðild með fyrirvara um að stjórnarskránni sé breytt áður en hugsanleg aðild kemur til framkvæmdar og væntanleg niðurstaða samningaviðræðna einnig borin sérstaklega undir þjóðina eins og að framan greinir.
Lesa má ályktun Framsóknarflokksins hér (sem samþykkt var af þorra atkvæðisbærra á fjömennum miðstjórnarfundi og án mótatkvæða) en eftirfarandi er nýmælið um þjóðaratkvæði um ESB-aðildarumsókn:
"Miðstjórn Framsóknarflokksins telur eðlilegt að spurningunni um hvort stjórnvöld fái umboð til að ganga til aðildarviðræðna við ESB verði borin undir þjóðina í þjóðaratkvæðagreiðslu, óháð öðrum kosningum.
Veiti þjóðin umboð til slíkra viðræðna yrði niðurstaða samningaviðræðna við ESB lögð í þjóðaratkvæðagreiðslu til samþykktar eða synjunar.Útfærsla á þjóðaratkvæðagreiðslum verði skoðuð frekar á komandi flokksþingi Framsóknarflokksins að undangenginni umræðu um Evrópumál sem framkvæmdastjórn standi fyrir."
Þjóðaratkvæði um aðildarviðræður | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:04 | Facebook
Athugasemdir
Þú misskilur mig algerlega sbr. kommentið þitt á minni síðu. Það sem ég er að tala um þar, er að 'óbein þjóðaratkvæðagreiðsla' til stjórnarskrárbreytinga, er handónýtt fyrirkomulag, vegna þverpólitískrar samstöðu sem er svo algeng við stjórnarskrárbreytingar. Í slíkum tilvikum skiptir engu máli hvaða flokkur er kosinn í almennum kosningum, því allir flokkar eru sammála um breytinguna og hvern á maður þá að kjósa ef maður kærir sig ekki um breytinguna?
Þess vegna er mikilvægt að gera aðeins eina breytingu á stjórnarskránni. sem fæli í sér að nýtt ákvæði um breyting á stjórnarskrá yrði:
Tillögur, hvort sem eru til breytinga eða viðauka á stjórnarskrá þessari, má bera upp bæði á reglulegu Alþingi og auka-Alþingi. Nái tillagan samþykki skal leggja hana undir atkvæði allra kosningarbærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar, og skal atkvæðagreiðslan vera leynileg.
Þannig er tryggt um alla framtíð að þve
Aðalheiður Ámundadóttir, 4.5.2008 kl. 21:35
Mér finnst nu afar mikilvægt að þjóðin verði upplýst um hvað aðild feli í sér og það þarf að vinna mjög vel. Það eina sem við heyrum er leiðinleg umræða um aðild og ekki aðild eins og var í Silfrinu í dag. Stundum er eins og fólk sé að tala um sitthvorn hlutinn þó það sé að tala um það sama. Auðvitað er sá möguleiki í stöðunni að ég sé treg og skilji ekki alveg umræðuna. Ég er samt viss um að fleirri eru á sömu línu og ég og þurfa að fá greinagóðar skýringar á aðild án "einkaskoðunnar" fólks.
Guðrún Þóra Hjaltadóttir, 4.5.2008 kl. 21:43
Sæl Aðalheiður; ég held einmitt að þessi hugmynd þín hafi verið það eina sem sammæli varð um í stjórnarskrárnefnd í fyrra; ég get alveg verið sammála því að samhliða næstu stjórnarskrárbreytingu - þ.m.t. um heimild til fullveldisafsals með auknum meirihluta á þingi - verði slík breyting gerð. Guðrúnu Þóru er ég auðvitað líka sammála.
Gísli Tryggvason, 4.5.2008 kl. 22:18
Nei Gísli, það bara gengur ekki..... Það á fyrst að gera breytinguna sem ég sting uppá og BARA hana. Að því loknu má strax gera aðra tillögu um afsal á fullveldi o.s.frv. og þá kýs þjóðin um þá breytingu.
Það gengur ekki upp að þverpólitísk samstaða í þinginu geti afsalað fullveldinu út í buskan án þess að spyrja stjórnarskrárgjafan (þjóðina) um leyfi.
Og ég minni á að ef þverpólitísk samstaða er um málið, þá eru hin óbeina þjóðaratkvæðagreiðsla, milli þinga steingeld...
Aðalheiður Ámundadóttir, 4.5.2008 kl. 22:30
Spurningin um aðild að ESB gengur nær alltaf út á efnahagslegan ávinning. Næstum ekkert annað er í umræðunni.
Ég óttast að þegar búið verður að narra íslendinga inn í sambandið geti það hægt og bítandi tekið af okkur allt sjálfstæði og ráðskast með það sem því sýnist.
Einnig finnst mér vanta svar við grundvallarspurningum eins og t.d.:
Af hverju þurfum við að bindast samtökum við Evrópu frekar en öllum öðrum löndum í heiminum? Hafa einhverjir á tilfinningunni að við verðum skilin eftir útundan eins og krakkarnir orða það?
Af hverju eyddum við mörgum öldum í að verða sjálfstæð? Bara til að henda því rúmum 60 árum seinna?
Er enginn hræddur um að stærri stjórnunareining eins og ESB geti orðið að jafn illviðráðanlegu (og allt að því vondu) stórveldi eins og Bandaríkin hafa verið undanfarin ár? Óttast engin að tvö slík stórveldi geti skapað þriðju heimsstyrjöldina? Mín skoðun er sú að smærri stjórneiningar (smærri ríki) séu ekki eins viðsjárverð með tilliti til heimsfriðar. Stærri ríki eru síður friðsöm þegar æðstu stjórnendur þeirra geta ráðskast með her 300 milljóna manna þjóðar í andstöðu við megin þorra landsmanna.
Ég get svo sem fallist á að skoða málið. Einhvern veginn finnst mér samt að rökin fyrir aðild séu dauð nú þegar. Ef fólk getur samþykkt að peningalegar væntingar til ESB muni ekki gera íslendinga hamingjusamari má búast við að fleiri neiti að samþykkja aðild.
Á endanum verður þetta samt meira og minna tilfinningaleg ávkörðun þvi við hljótum að vera meðvituð um að það sem yfirstjórn ESB lofar núna verður ekki endilega efnt af þeim sem á eftir koma og munu ráða ferðinni.
Haukur Nikulásson, 4.5.2008 kl. 23:42
íslendska þjóðin mun á næstu árum ekki eiga þess neinn kost að kjósa um aðild að Evrópusambandinu nema í gegnum alþingiskosningar.Miðstjórnarfundur Framsóknarflokksins gefur forsmekkinn að því sem koma skal, hjá Sjálfstæðisflokki. VG og Frjálslyndum.Forystan í þessum flokkum verður samstíga í því að meina kjósendum að kjósa um Evrópusambandsaðild.Eini kosturinn sem kjósendur virðast eiga til að lýðræðið sigri. er að Samfylkingin geri það að forgangsmáli í næstu kosningum að sækja um Evrópusambandsaðild og kjósendum verði gefinn kostur á því að kjósa um aðildina.Evrópusambandssinnar í öllum flokkum þurfa að gera forystu Sjálfsstæðisflokks,Framsóknar,VG og frjálslyndra þetta ljóst.
Sigurgeir Jónsson, 5.5.2008 kl. 09:13
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.