Jábræður og neisystur

Ég er hugsi yfir brotthvarfi Magnúsar Péturssonar. Ég var reyndar - og er - stundum ósammála honum um að réttaröryggi opinberra starfsmanna sé of mikið eins og hann nefndi sem einn stærsta vanda opinberrar starfsemi í Kastljósi í kvöld. Magnús tók við sameinuðum landspítala skömmu eftir að ég varð framkvæmdarstjóri Bandalags háskólamanna í árslok 1998 og þar með flestra stéttarfélaga heilbrigðisstarfsmanna. 

 

Ég er m.ö.o. hugsi yfir brotthvarfi Magnúsar úr forstjórastóli Landspítala eins og ég reyndi að koma að í þættinum Vikulokin á Rás 1 15. mars sl. (sem er farinn af vefnum) þar sem heilbrigðis- og efnahagsmál voru rædd ítarlega á kostnað neytendamála. Enginn, sem ég þekki, deilir um að Magnús er sjentilmaður og fagmaður; hann hefur ekki aðeins notið virðingar sem forstjóri stærstu ríkisstofnunar Íslands.

 

Við Magnús vorum hins vegar ósammála  um a.m.k. þetta: 

 

Á að tryggja starfsöryggi opinberra starfsmanna - hárra sem lágra - eða á reglan að vera að makka rétt eftir (pólitíska) yfirmanninum? Ég held að borgarar, neytendur, skattgreiðendur o.s.frv. þessa lands eigi rétt á að ráðherrar ráði ekki öllu - heldur fyrst og fremst stefnunni og stjórnarskrárbundnu frumkvæði að löggjöf. Sama gildir að mínu mati um stjórnendur gagnvart samstarfsfólki.

 

Ég lít svo á að við embættismenn og forstjórar störfum í þágu almennings samkvæmt lögunum, sem ráðherrar hafa forgöngu um að Alþingi setji. Við störfum ekki í þágu ráðherra og pólitískra markmiða þeirra; þeir hafa - bæði samkvæmt stjórnarskrá og í raun - stöðu til þess að koma stefnu sinni - ekki bara á framfæri heldur einnig - í framkvæmd. Þeir sem framkvæma - eða sinna eftirliti og aðhaldi - eru embættismenn, forstjórar og aðrir opinberir starfsmenn. Að grafa undan þessu er að grafa undan grundvelli íslenska stjórnkerfisins. Um þetta eru margir forstjórar ósammála mér.

 

Þrjár megintegundir stofnana eru til á Íslandi:

  1. Þjónustustofnanir, svo sem Landspítali - háskólasjúkrahús, Menntaskólinn í Reykjavík og Háskóli Íslands.
  2. Stjórnsýslustofnanir, svo sem Neytendastofa, húsafriðunarnefnd og Póst- og fjarskiptastofnun.
  3. Sjálfstæðar eftirlits- og aðhaldsstofnanir á borð við umboðsmann Alþingis, Ríkisendurskoðun, talsmann neytenda og Samkeppniseftirlitið.

 

Mikilvægt er að stofnanir og embætti í 2. og 3. flokki njóti sjálfstæðis. 

 

Auðvitað má enginn "undirmaður" vinna gegn "yfirmanni" en ég verð að upplýsa að besta samstarfsfók mitt þegar ég var stjórnandi á litlum vinnustað voru þeir starfsmenn sem sögðu mér þegar þeir voru ósammála mér - þeir vissu jú oft betur, þó að ég réði stundum ef á skyldi reyna. Næstbest var að mínu mati starfsfólkið sem samþykkti - og framkvæmdi - stefnuna, sem við ræddum á vikulegum starfsmannafundum. Verst fannst mér þegar starfsmaður sagði já - en skildi ekki, meinti ekki eða samþykkti ekki.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðrún Emilía Guðnadóttir

Mér hugnast þessi skrif þín afar vel.
Þetta með samstarfsfólk er ég algjörlega sammála þér og bæti við smá frá mér.

Verst er það fólk sem er í vinnu bara til að hirða launin sín, ekki til að vinna
vel að þeim málum sem þörf er á.
                                    Kveðja Milla.

Guðrún Emilía Guðnadóttir, 3.4.2008 kl. 07:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband