Laugardagur, 22. mars 2008
Framboð á "konunglegu" sundi - í samræmi við eftirspurn!
Í kjölfar færslu um blessunarlega rýmkun lögheimilaðs verslunar- og þjónustutíma fór ég einu sinni sem oftar í sund með niðjana. Gífurleg eftirspurn eftir sundi í góðviðrinu í gær minnti helst á blíðviðrisdagana sem alltaf voru í æsku(minningu) minni í sundlaug Akureyrar þar sem ég er upp alinn. Framboðið á sundlaugum á föstudaginn langa nú var ekki síðra en eftirspurnin því í gær átti ég úr a.m.k. 4um laugum að velja hér á svæðinu, þ.e. Salalaug hér í Kópavogi sem er opin 8-12 stundir á dag alla frídagana fimm auk 3ja í Reykjavík (Árbæjarlaug, Laugardalslaug og Vesturbæjarlaug). Þessar laugar eru einnig allar opnar á morgun, sjálfan páskadag, í samræmi við undanþágu frá banni laga um helgidagafrið - sem ég tel þó helst til flókna lagasetningu eins og þessi texti gefur til kynna: rúm lögbundin undanþága frá víðtæku banni sömu laga.
Ég hef ekki kannað opnunartíma annarra lauga hér á Suðvesturhorninu sem ég sæki þó oft. Þessi góða þjónusta hefur reyndar lengi verið mér birtingarmynd þess að þó að einkaaðilar reki oft betur (í tvíræðum skilningi) en opinberir þá sýna sundlaugar landsmanna - nær allar reknar af hinu opinbera og væntanlega allar fyrir almannafé - að ekki þar með sagt að hið opinbera geti ekki veitt góða þjónustu; í þessu tilviki er hluti rekstrarfjárins reyndar fenginn með greiðslu frá borgurunum fyrir veitta þjónustu sem þannig teljast í raun neytendur.
Helst hef ég tvennt að athuga við þessa frábæru þjónustu sveitarfélaganna um hátíðarnar undanfarin ár. Annars vegar að greiða þarf fyrir laugarnar í með sérstöku korti fyrir hvert sveitarfélag og jafnvel fyrir hverja laug í stað þess að unnt sé að kaupa klippikort eða árskort í þær allar sameiginlega (þó að ég hafi enn ekki ákveðið að láta það til mín taka í embættis nafni). Hins vegar þarf maður helst að vita eða hringja eða koma í sundlaugina til að kanna þjónustutímann því nokkuð djúpt er á honum á PDF-skjali eftir 4 smelli af forsíðu vefs Reykjavíkurborgar. Styttra var í opnunartíma Sundlaugarinnar í Versölum af vef Kópavogsbæjar - bæði í tíma talið og í smellum. Þetta er því dæmi um annan smell sem mér er ljúft og skylt að taka undir; það er gott að búa í Kópavogi!
Nafnið sundlaugin í Versölum (sbr. friðarhöllina Versali í Frakklandi) leiðir hugann að þeirri skemmtilegu staðreynd að þrjár þeirra lauga, sem eru innan seilingar fyrir 2/3 hluta landsmanna og ég hef sótt mikið í gegnum tíðina, eru kenndar við hallir. Sú nýjasta er þessi heimalaug mín (oft nefnd Salalaug í daglegu tali). Hinar eru Sundhöllin í Reykjavík - ein fyrsta sundlaugin fyrir almenning, reist fyrir tilstilli Jónasar frá Hriflu og tekin í notkun fyrir rétt rúmum 70 árum - og Sundhöll Hafnarfjarðar við Herjólfsgötu - mín gamla sumardvalarlaug við sjóinn. Sundhallirnar tvær eru jafnframt þær einu á höfuðborgarsvæðinu (nema ég telji Hveragerði til úthverfis höfuðborgarinnar) þar sem (ó)reglulega er hægt að treysta á að geta stokkið af stökkbretti á höfuðborgarsvæðinu.
Í barlóminum þessa hátíðardaga vegna efnahags- og gjaldeyrisástandsins er gott að rifja eitthvað upp sem við á Íslandi erum hvað best í - að setja á fót og reka góðar og ódýrar sundlaugar.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:27 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.