Áttu bolla af hveiti - á föööstudaginn laaanga?

Hvað er langt síðan þú varst beðin(n) um eða þurftir að biðja um bolla af sykri,  hveiti eða þvottaefni eða þvíumlíkum nauðsynjum að kvöldi eða á helgidegi? Í dag er föstudagurinn langi og þá mega verslanir og önnur þjónusta til handa neytendum lögum samkvæmt almennt ekki hafa opið, sbr. stutta umfjöllun mína hér.

 

Hvað sem fólki finnst um slíka takmarkandi löggjöf, trúarlegar og sögulegar ástæður hennar - og lagalegar og pólitískar hliðar hennar - má a.m.k. segja að takmarkanir þessar séu litlar miðað við það sem tíðkast hefur sums staðar annars staðar þar sem þeim hefur m.a. verið haldið frekar við lýði vegna hagsmuna launafólks, þ.e. einkum verslunarfólks. Þá eru takmarkanir á opnunartíma verslana ekki miklar nú miðað við það sem tíðkaðist áður fyrr.

 

Þetta held ég að sé ástæðan fyrir því að mér virðist mun sjaldgæfara eftir að ég varð fullorðinn og eignaðist eigið heimili að nágrannar biðji um að fá lánaðar einhverjar heimilisnauðsynjar; fyrir utan að fólk hefur dregið úr heimabakstri þá held ég að mikið framboð verslana í þéttbýlinu sem eru opnar lungann úr sólarhringnum og jafnvel hann allan sé megin ástæðan fyrir því að dregið hefur úr slíkum nágrannaheimsóknum.

 

Ég man fyrst eftir rýmkun opnunartíma verslunar í kaupfélagi KEA við Byggðaveginn á Akureyri þar sem lögð var á aukaálagning í formi hærra vöruverðs eftir tiltekinn tíma í lúgu, ef ég man rétt. Þó að í raun hafi þetta virst réttlátt - þannig að þeir neytendur sem nýttu sér þennan verslunartíma sem var dýrari, m.a. vegna hærra kaupgjalds á kvöldin - hefur þetta e.t.v. ekki svarað kostnaði við umsýslu að halda utan um tvöfalt vöruverð, ef svo má segja, svo í staðinn var kannski bara ákveðið í kjölfarið að hafa vöruverð alltaf tvöfalt!

 

Reyndar fannst mér föstudagurinn langi leiðinlegur þegar ég var strákur vegna þess að við bið eftir páskaegginu bættist - a.m.k í minningunni - að á heimilinu virtust í gildi óskráðar reglur um að ekkert skemmtilegt mætti gera þann dag; nú er það breytt - ég ætla einmitt að gera eitthvað skemmtilegt með börnunum mínum í góða veðrinu í dag. Við bætist að útvarpsdagskrá RÚV á föstudaginn langa virðist undanfarin mörg ár alltaf eiga sérstaklega vel við minn smekk.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þorsteinsson

 Sæll Gísli.

Þú náðir mér! Var einmitt sendur til þess að fá bolla af hveiti, eða eitt egg. Þetta voru nú ekki svo erfiðar ferðir, því að hjálpsemi við nágranna var sannarlega til staðar. Þetta var nú ágætis þjálfun fyrir ungt fólk til þess að taka á feimninni. Samkeppnin hefur hins vegar fært okkur betri þjónustu hvað opnunartímann varðar. Ég held að með lokun verslana á föstudeginum langa hafi ekki örvað trúariðkun landans. Föstudagurinn langi, var einnig í mínum huga leiðinlegur dagur. Það er ekki fyrr en í seinni tíma sem ég nota þennan dag til þess að hugleiða innihald dagsins. Lestur passíusálmanna er t.d. mjög áhugavert framtak í kirkjunum. Það að ég geti farið, í kirkju, fengið mér kaffibolla veitingarhúsi og gripið með mér heilhveiti, lyftuduft og egg í baksturinn er bara til góðs.

Sigurður Þorsteinsson, 22.3.2008 kl. 08:30

2 Smámynd: Gísli Tryggvason

Sammála, Sigurður. Best að gera eitthvað fyrir andann líka þegar maður er frjálsari að því að velja verslunartíma - og stað - ef ekki verð. GT

Gísli Tryggvason, 22.3.2008 kl. 19:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband