Föstudagur, 2. október 2009
Dæmisaga neytanda úr viðskiptalífinu
Ég er stundum gagnrýndur af félögum mínum í seinni tíð fyrir að vera ekki nógu harður á mínu enda er ég ragur við að standa á rétti mínum þar sem ég er hræddur við að vera sakaður um að misbeita stöðu minni eða hagnast á lagaþekkingu minni og þarf því að vera sérlega viss í minni sök til að láta ekki vaða yfir mig sem neytanda. Í dag var ég þó nokkuð viss um að hafa stöðu almenns neytanda og hafði tíma til að gera það sem flestir neytendur eiga að reyna að gera þegar aðstæður bjóða.
Sagan er svona:
Ég hafði fyrir um tveimur vikum misst dýran hlut heima og brotið rafhlöðulok og fór í umboðsverslunina og spurði hvað nýtt lok kostaði; svarið var 1.250 kr. en það skipti mig máli þar sem ég hefði getað látið mér nægja (í bili a.m.k.) að laga eldra lokið með lími eða límbandi ef það yrði mikið dýrara að kaupa nýtt lok. Fyrir um viku síðan var hringt og sagt að lokið, sem pantað var fyrir mig, væri komið; af rælni (eða smá paranoiu) spurði ég aftur hvert verðið væri og það var sagt hið sama: 1.250 kr.; var ég ánægður með að allir virtust nú orðið vita að samningar skulu standa. Klukkan var að nálgast lokunartíma og ég sagðist þá sækja lokið í næstu viku. Svo gaf ég mér ekki tíma fyrr en í síðdegis í dag til að sækja lokið og hafði sæmilega rúman tíma. Er ég hugðist greiða sagði afgreiðslumaðurinn (og ég tek fram að þjónustan fyrr og síðar var í alla aðra staði til fyrirmyndar, bæði hvað varðar gæði, þjónustu, hraða og annað) að verðið væri 2.190 kr. Þó að ég sé úr máladeild fann ég strax að þetta var hátt í 1.000 kr. hærra en umsamið verð. Nánar til tekið er þetta 940 kr. hærra eða 75% hækkun. Ég bar mig illa og sagði að ég hefði spurt fyrir pöntun - og til öryggis eftir að pöntuð vara var komin í hús - og verðið hefði því verið umsamið og töluvert lægra. Sölumaðurinn sagði að þetta væru mistök og gamalt verð eða eldri listi og bauð mér ljúflega 10% afslátt (219 kr.). Af því að ég var aldrei þessu vant ekki að flýta mér og ekki með fjölda þreyttra barna með í för sagði ég að það væri ekki það sem um var samið. Sölumaðurinn sagði þá að umrætt verð (1.250 kr.) væri svo lágt að verslunin myndi tapa á að selja á því verði; kannski hafði ég betri samningsstöðu en ella þar sem um sérpöntun var að ræða og tapið væri meira ef ég gengi út! Hins vegar spurði ég - án þess að fá svar - hvert innkaupsverðið var; gaf sölumaðurinn sig þá og seldi mér lokið á umsömdu verði og án þess að neinir eftirmálar yrðu.
Þetta nefni ég (í trausti þess að staða mín og lagaþekking hafi ekki spilað inn í eins og ég nefndi í upphafi) til þess að neytendur viti að réttur þeirra - t.d. til þess að krefjast þess að (munnlegir) samningar standi - er oft mikill; það sem alltof oft vantar er staða, aðstæður, úrræði eða þekking til að ná rétti sínum. Meðal þess sem nota má til að bæta úr þessu er Leiðakerfi neytenda (www.neytandi.is).
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Batnandi manni er best að lifa. Það er hughreystandi að talsmaður neytenda geti staðið á sínum rétti
Marinó G. Njálsson, 3.10.2009 kl. 00:55
Ég átti fyrir ekki svo löngu viðskipti við Bræðurna Ormsson, nánar tiltekið viðgerðarverkstæði þeirra í Reykjavík. Okkur samdist um viðgerð og verð. Ég bý á Akureyri og þegar ég sótti viðgerðann hlutinn til þeirra í búðinni á Akureyri hafði viðgerðin hækkað um 5.000 krónur. Ég var ósáttur og ekki skánaði skapið þegar þeir vísuðu öllum mínum spurningum og tillögum um úrlausn suður og til þess sem ég talaði upphaflega við. Það gat ég auðvitað ekki, ég hafði ekki skrifað hjá mér nafnið á honum þannig að ég greiddi 5.000 krónurnar aukalega og hef hingað til varað alla sem mér þykir vænt um við að eiga viðskipt við Ormsson. Munnlegir samningar og heiðursmannasamkomulag er einskis virði. Ég held að þú hafir bara verið heppinn þarna. Gerist ekki aftur.
Geir Hólmarsson, 3.10.2009 kl. 20:15
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.