Lagaleg ábyrgð gagnvart neytendum

Þetta var ágætt hjá Ásmundi - að biðja annars vegar "almenna starfsmenn" og hins vegar "íslenskt samfélag" afsökunar á mistökum sem bankinn gerði fyrir hrun. Ásmundur hefur hins vegar  væntanlega fengið lögfræðilega ráðgjöf áður þess efnis að tiltaka ekki sérstaklega þann hóp innan íslensks samfélags - neytendur - sem ber að óbreyttu mestan skell vegna mistaka sem bankar og stjórnvöld gerðu - bæði með aðgerðum og aðgerðarleysi; hvort tveggja getur nefnilega leitt til ábyrgðar að lögum - svo sem vegna reglna um skaðabótaábyrgð og lagasjónarmiða um forsendubrest.

 

Eins og fram kom í sameiginlegu ákalli talsmanns neytenda, Hagsmunasamtaka heimilanna og fleiri samtaka 11. febrúar sl. til stjórnvalda um almennar aðgerðir til lausnar efnahagsvanda heimilanna er að mínu mati þörf á almennum aðgerðum til lausnar - til viðbótar við

  • þau sértæku áform til lausnar og
  • þær almennu aðgerðir til frestunar

á vandanum sem ný ríkisstjórn hafði þá þegar kynnt og nú hafa orðið að lögum.

 

Í ákallinu sagði:

 

Til að koma í veg fyrir að fjöldi lántakenda lendi í þroti og jafnframt stuðla að því að fasteignamarkaður fari aftur af stað þarf að auki að beita almennum aðgerðum í eitt skipti. Til þarf að koma veruleg og almenn niðurfærsla höfuðstóla íbúðarveðlána vegna verulegs og óvænts gengishruns íslensku krónunnar og þarafleiðandi hækkunar gengistryggðra og verðtryggðra lána í kjölfar verðbólgu undanfarna 18 mánuði.

 

Eftir langan undirbúning tel ég mig hafa fundið málsmeðferðarleið sem er vert að gera formlega tillögu um til stjórnvalda að loknu samráði við formenn stjórnmálaflokkanna í næstu viku. 

 

Orðrétt sagði Ásmundur samkvæmt frétt RÚV:

 

Ég leyfi mér fyrir hönd stjórnenda Landsbankans að biðja almenna starfsmenn hans afsökunar á því umhverfi sem ykkur var búið og þeim mistökum sem gerð voru við stjórnvölinn. Ég vil jafnframt nota þetta tækifæri sem bankastjóri Landsbankans og biðja fyrir bankans hönd íslenskt samfélag afsökunar á hlutdeild bankans í þeim vanda sem þjóðin stendur frammi fyrir í dag.

 

Sem fyrrverandi framkvæmdarstjóri og lögmaður heildarsamtaka launafólks geri ég að sjálfsögðu ekki athugasemdir við að Ásmundur tiltaki einn hóp innan íslensks samfélags - þ.e. "almenna starfsmenn" bankans á umhverfi sem þeim var búið og mistökum sem gerð voru við stjórnvölinn og tek fram að ég á náinn ættingja sem er og var í hópi stjórnenda. Sem talsmaður neytenda skil ég hins vegar samkvæmt framangreindu að Ásmundur taki að yfirlögðu lögfræðilegu ráði ekki þá áhættu að tiltaka sérstaklega einnig þann hóp sem stærstan skellinn ber innan íslensks samfélags, þ.e. neytendur, og tek einnig fram að ég er í þeim hópi. Slík yfirlýsing gagnvart neytendum hefur hugsanlega verið talin geta falið í sér viðurkenningu á lagalegri ábyrgð bankans - sem ég tel líklegt að sé fyrir hendi eins og síðar verður rökstutt á opinberum vettvangi.


mbl.is Baðst afsökunar á mistökum bankans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur St Ragnarsson

Burtséð frá lagalegum álitaefnum og hagsmunum neytenda sérstaklega verður þó að virða Ásmund fyrir þetta frumkvæði, þ.e. að ávarpa þjóðina beint. Hefur þjóðin ekki verið að kalla eftir þessu?

Guðmundur St Ragnarsson, 18.4.2009 kl. 17:52

2 Smámynd: Gísli Tryggvason

Sammála, Guðmundur; breyti hér með "ágætt" í upphafsorðum í "gott."

Gísli Tryggvason, 18.4.2009 kl. 17:55

3 Smámynd: Sigurður Árnason

þetta er virðingarvert eins langt og þetta nær. Nýi Landsbankinn hvar Ásmundur er í dag er ekki það sama og Landsbanki Bögganna. Það voru gömlu bankarnir sem að rúlluðu. Var Ásmundur e-ð í gamla Landsbankanum? Ef ekki hefur þá yfirlýsingin nokkuð gildi?

Sigurður Árnason, 18.4.2009 kl. 19:23

4 Smámynd: Hörður Hilmarsson

"Ágætt" var í mínu ungdæmi talið betra en "gott", en reyndar bara í umsögnum kennara í barnaskólum.
Þetta er sjálfsagt "ágætt" hjá Ásmundi, en ég virði hann ekkert meira fyrir að úttala sig með þeim hætti sem hann gerði. Þetta eru sjálfsögð ummæli og það á ekki að hrósa mönnum fyrir að gera/segja það sem er sjálfsagt.
Verð að viðurkenna að ég missti mikið álit á Ásmundi á fundi sem ég o.fl. áttum með honum í desember vegna Peningabréfa Landsbankans.
Þá var hann nýlega orðinn formaður bankaráðs NBI, en hann eyddi tíma sínum í að verja siðlausa og væntanlega ólöglega starfsemi Landsbankans í sambandi við kynningu á Peningabréfunum sem valkosti við fjárvörslu (!) sparifjár og síðar meðferð þess fjár sem safnaðist í peningabréfasjóðinn. Það er vont að verja slæman málstað og þarna þurfti Ásmundur ekki að standa í þeim skítverkum sem hann tók að sér. Hann gat .... og getur enn tekið allt annan pól í hæðina og reynt að stuðla að leiðréttingu á því óréttlæti sem Landsbankinn bauð þúsundum viðskiptavina sinna upp á, með stuðningi FME og alþingis sem birtist m.a. í skorti á eftirliti og eðlilegri neytendavernd.
Kveðja
Hörður Hilmarsson

Hörður Hilmarsson, 19.4.2009 kl. 11:26

5 Smámynd: Gísli Tryggvason

Takk Sigurður og Hörður; ég gerði reyndar ekki í skrifum mínum (frekar en Ásmundur að því er virðist í þessari ræðu) mikinn greinarmun á nýja og gamla bankanum enda standa ýmis lög - svo sem á sviði vinnumarkðasréttar og kröfuréttar - til þess að svonefnd samsömun eigi sér stað þegar heill vinnustaður og kröfupakkar eru fluttir nánast í heild á milli kennitalna.

Gísli Tryggvason, 19.4.2009 kl. 22:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.