Þriðjudagur, 3. febrúar 2009
Greiðsluaðlögun vantaði hjá fyrri ríkisstjórn, vantar enn og hefur vantað í 25 ár - en það er ekki nóg
Það mun mæða á nýjum félagsmálaráðherra - eins og allri nýju ríkisstjórninni. Í gær bar ég saman verkefnaskrá ríkisstjórnarinnar og mat mitt sl. föstudag á helstu áskorunum hennar í neytendamálum og komst að því að þar virðist ágætt samræmi enda var helst á dagskrá á báðum stöðum viðbrögð við íbúðarskuldavanda heimilanna í kjölfar gengishruns, stóraukinnar verðbólgu og fasteignaverðfalls eftir að bankarnir féllu og kreppa skall á.
Einnig bar ég saman sl. föstudag árangur fyrrverandi ríkisstjórnar og mat mitt í maí 2007 á helstu áskorunum sem hún stæði þá frammi fyrir. Þó að erfitt sé að horfa fram hjá framangreindum atvikum haustsins gaf ég þeirri ríkisstjórn góða einkunn í neytendamálum óháð kreppu þar sem hún hefði náð árangri í 1 1/2 máli af fjórum, sem ég tilgreindi, á 1 1/2 ári.
Það er þó ofmat að einu leyti eins og gaf í skyn í gær. Ástæðan er sú að ekki tókst að koma í gegn lögum um greiðsluaðlögun - en það atriði var ekki sett inn í upphafsmat mitt á verkefnum í neytendamálum við myndun fyrrverandi ríkisstjórnar í maí 2007 enda lágu þá fyrir áform um það í fyrri ríkisstjórn. Eins og deilur Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra og Björns Bjarnasonar, fyrrverandi dómsmálaráðherra, sýna er hér um að ræða nauðsynlegt - en þó ekki nægilegt - úrræði fyrir heimilin í landinu. En um hvað snýst deilan - og hvað er greiðsluaðlögun?
Eins og fram kom í viðtali við mig í síðustu viku snýst greiðsluaðlögun - eða skuldaaðlögun eins og dómsmálaráðuneytið mun hafa farið að kalla það í vetur - um rétt skuldara - einkum neytenda - til þess að fá niðurfelldar skuldir sínar samkvæmt úrskurði óháðs aðila að því marki að raunhæft sé að neytandinn komi skikk á fjármál sín. Um er að ræða félagslegt úrræði til handa neytendum - sem því ætti að vera í félagsmálaráðuneytinu en hvorki í viðskipta- né dómsmálaráðuneyti. Sjá nánar umsögn mína um drög að frumvarpi til laga um greiðsluaðlögun í ágúst 2008 þar sem lýst var mikilli ánægju með áformin en frumvarpsdrögin gagnrýnd með ítarlegum rökstuðningi.
Slíkt úrræði hefur verið til staðar í hinum norrænu ríkjunum í um eða yfir aldarfjórðung og verður væntanlega eitt af fyrstu verkum nýrrar ríkisstjórnar að koma í gegn; það er þó úrræði sem nýtist fyrst og fremst við einstaklingsbundna yfirferð á skuldum hvers og eins miðað við hans aðstæður. Eins og fram hefur komið undanfarið á www.talsmadur.is og verður rökstutt frekar á næstunni í samráði við Hagsmunasamtök heimilanna o.fl. er vandinn nú mun stærri og meiri; af þeim sökum þarf að mínu mati að koma til almennari niðurfærsla íbúðarskulda - bæði í erlendri mynt og verðtryggðum íslenskum krónum.
Nýjum félagsmálaráðherra, Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur, óska ég velfarnaðar í embætti - eins og ríkisstjórninni allri.
Stjórnin verður á velferðarvaktinni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:09 | Facebook
Athugasemdir
Þarna ert þú að tala um almenna niðurfærslu íbúðaskulda sem Viðskiptaráðherra taldi í dag ekki gerlega á þeim forsendum að slíkt mundi rústa fjármálakerfinu á Íslandi. Hvað er þaðsem hann telur að geris og hvernig telur þú að slíkt geti gengið
Hólmfríður Bjarnadóttir, 4.2.2009 kl. 02:04
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.