Kraftaverk í stjórnháttum - ljúkum verkinu sem Trampe greifi stöðvaði

Í þessum fréttum felst þó möguleiki fyrir þjóðina á kraftaverki í stjórnháttum því í þessum fréttum felst væntalega að stjórnarflokkarnir hafa - eins og grasrótarhópurinn www.nyttlydveldi.is hefur gert og þegar safnað tæpum 7.000 undirskriftum fyrir á tæpri viku - fallist á tillögu Framsóknarflokksins um stjórnlagaþing. Í því felst að þjóðkjörnu stjórnlagaþingi er með sérstakri stjórnarskrárbreytingu falið umboð til þess að endurskrifa stjórnarskrána frá grunni - og bera svo undir þjóðina í allsherjaratkvæðagreiðslu.

 

Rétt er að leiðrétta algengan misskilning; stjórnlagaþing er ekki hægt að boða með 

  • lögum,
  • þingsályktun eða
  • erindisbréfi ráðherra eða þvíumlíkt. 

 

Ef það væri gert væri aðeins um að ræða enn einn borgarafund úti í bæ - sem eru ágætir en eru aðeins til þess að ræða málin og undirbúa þannig stjórnlagaþing; niðurstöður slíkra funda hafa ekkert gildi - t.d. gagnvart Alþingi ef því líst ekki á niðurstöðuna. Ef sá háttur væri notaður væri því aðeins um ígildi enn einnar stjórnarskrárnefndarinnar - en þær hafa sjaldnast náð saman um breytingar á stjórnskipan nema um smávægilegar breytingar á kjördæmaskipan í stað þeirrar heildarendurskoðunar sem þjóðinni var lofað 1944 og hefur beðið eftir í 135 ár frá því að Danakonungur gaf okkur þýðingu á dönsku stjórnarskránni (sem var einmitt samin á stjórnlagaþingi Dana 25 árum áður).

 

Ég hef undanfarnar vikur leitast við að sannfæra margan lögfræðinginn, stjórnmálamanninn og grasrótarbaráttukonuna um að ef ekki væri boðað til alvöru stjórnlagaþings - með umboð samkvæmt stjórnarskrárnni - gæti sagan endurtekið sig en 1851 sleit fulltrúi konungs, Trampe greifi, þjóðfundinum þegar honum leist ekki á hvert fundurinn stefndi undir forystu Jóns Sigurðssonar forseta sem vildi ræða stöðu Íslands í danska ríkinu, þ.e. stjórnarskrármál. Eftir mótmæli Jóns tók fundurinn undir með honum með hinum fleygu orðum:

 

Vér mótmælum allir!

 

Sjá nánar ítrekaðar færslur á bloggi mínu

 

Fréttin felur því vissulega í sér möguleika á að þjóðin sjálf vinni kraftaverk hvað varðar breytta stjórnarhætti. Vonandi verður það staðfest á morgun - þegar þjóðin á 105 ára heimastjórnarafmæli.

 


mbl.is Lofum engum kraftaverkum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Ragnar Björnsson

Ég sá í fréttum að hugmynd Framsóknarmanna væri 63 manna stjórnlagaþing sem sæti allt að 6 mánuði.

Mér datt strax í hug: því verr gefast heimskra manna ráð, sem fleiri koma saman. Við höfum ekkert að gera með fleiri en 20-30 manns og þeir eiga ekki að þurfa meira en 2 mánuði ef þeir eru í meðallagi greindir eða meira. Þarf að vera skiðað konum og körlum til janfs.

Jón Ragnar Björnsson, 31.1.2009 kl. 22:30

2 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Mikla þakkir átt þú Gísli fyrir þessa færslu og þín fyrri skrif um þetta mikilvæga mál. Ég taldi mig vita heilmikið um þetta fyrirbæri Stjórnlagaþing, en mér hafði alveg sést yfir þann þátt að það yrði að vera Stjórnaskrárbundið. Nú veit ég það og er afar glöð og sátt. Ég las í morgunblaðinu í dag stutta grein eftir gamlan vin minn Pétur Valdimarsson tæknifræðing. Hann var formaður Samtaka um jafnrétti milli landshluta sem urðu til á 9. áratugnum og höfðu það markmiðað þrýsta á um að samin yrði ný stjórnarskrá. Ég var þar aðili og vissi því eitt og annað um Stjórnlagaþing.

Ég hef svo sterka tilfinningu fyrir því að íslenska þjóðin standi á tímamótum nú, það séu í raun vatnaskil í málefnum þjóðarinnar og afar merkilegir hlutir að gerast.

Ég finn svo mikla gleði og létti yfir því að Sjálfstæðisflokkurinn sé kominn í frí, í 80 daga til að byrja með og vonandi miklu lengra.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 31.1.2009 kl. 23:40

3 Smámynd: Gísli Tryggvason

Sæll Jón Ragnar og takk fyrir þessa skoðun; fjöldi þjóðkjörinna er í mínum huga aukaatriði - svo fremi hægt sé að kalla fundinn þing en ekki nefnd. Aðalatriðið er það sem Hólmfríður áréttar - að um sé að ræða stjórnarskrárbundið umboð, sem ekki verður aftur tekið þegar fulltrúar þjóðarinnar hafa hafið störf. Takk fyrir athugasemdina, Hólmfríður, og þakkirnar eins og þær fyrri.

Gísli Tryggvason, 1.2.2009 kl. 00:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband