Þriðjudagur, 20. janúar 2009
Lögin, skynsemin og úrræði neytenda
Nú í dag hefjast breytingar vestan hafs er lögfræðingurinn Obama tekur við á forsetastóli af Georg II - eins og leiðarahöfundur The Economist kallar hann með skírskotun til kúgunartilburða konunga Breta sem Bandaríkjamenn börðust við fyrir sjálfstæði sínu fyrir tveimur öldum og þriðjungi betur.
Finna má neytendaflöt á reglulegum pistli Lexingtons um bandarísk þjóðfélagsmál er hann leggur út af embættistökunni í dag með því að spyrja hvort Barack Obama muni vernda Bandaríkjamenn gegn löglærðum félögum sínum en fyrirsögnin er:
Lögin gegn almennri skynsemi ( Law v common sense)
Í pistlinum er vel rökstutt að í Bandaríkjum Norður-Ameríku feli þessi staðhæfing - um að lögin (séu oft í) stríði gegn almennri skynsemi - í sér að of mikill lagalegur réttur sé veittur þeim sem enga réttmæta hagsmuni hafi - á kostnað hinna sem séu í rétti. Orðrétt segir:
Og þó að lagakerfinu sé ætlað að vera hlutlaust, síga vogarskálarnar þeim ávallt í hag sem er í órétti. Vegna þess hve málsmeðferðin er dýr og kviðdómar svo ófyrirsjáanlegir, fellst fólk án nokkurrar sakar oft á sættir gagnvart haldlausum kröfum.
Hérlendis er þessu eins farið að mínu mati - með öfugum formerkjum þó; hér er alltof algengt að neytendur og aðrir sem eiga á brattann að sækja gagnvart sterkari viðsemjendum þurfi að láta réttlátan málstað niður falla af sömu ástæðu, þ.e. vegna þess hve erfitt, dýrt, óvisst og tímafrekt getur verið að sækja mál.
Við þessu geta neytendur að vísu spornað með því að nýta sér vannýtt úrræði sem felst í sáttamiðlun sýslumanna í neytendamálum og önnur úrræði - svo sem fjölda kæru- og úrskurðarnefnda - sem nýta má með aðstoð Leiðakerfis neytenda (á www.neytandi.is).
Þetta eru úrræði samkvæmt gildandi reglum.
Auk þeirra þarf af ofangreindum ástæðum að gera úrbætur á gildandi lögum, svo sem með auðveldari smámálameðferð í smærri og einfaldari neytendamálum, t.d. vegna vörukaupa, og ekki síður með sérstökum reglum um hópmálsókn eins og ég hef imprað á oftar en einu sinni.
Gífurlegt fjölmenni í Washington | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.