Sunnudagur, 3. ágúst 2008
Vax(t)andi umræða
Í gúrkunni og hitanum undanfarna viku hafa margir fjölmiðlar haft samband við mig og spurt um svonefnda verðtryggingu - sem lengi hefur legið fyrir að ég vildi skoða gagnrýnum augum í embættisnafni þó að ég hafi ekki fundið nægilega skilvirkan farveg til þess enn. Því fagna ég þeirri umræðu, sem færst hefur í aukana í kjölfarið. Ég set hér inn nokkra tengla á umræður og yfirleitt málefnalegar rökræður um þetta brýna álitamál. Kannski er það illfært en æskilegt er a.m.k. að halda utan um rökræður um gildandi fyrirkomulag á sjálfkrafa tengingu neytendalána við vísitölu neysluverðs - eins og ég kalla verðtrygginguna.
Hér skrifar framkvæmdarstjóri þingflokks Sjálfstæðismanna, Árni Helgason, með verðtryggingu enda sé hún samningsatriði og vísar hann einnig á greinaskrif á Deiglunni. Þrátt fyrir formlegt eða fræðilegt samningsfrelsi hef ég hins vegar efasemdir um hversu mikið frelsi neytendur hafa í raun til þess að velja annað en verðtryggð krónulán - þ.e. annað hvort enn hærri vexti eða erlend lán með mikilli gengisáhættu (sem hefur sýnt sig undanfarna mánuði).
Hér skrifar Hrannar Baldursson vel rökstudda grein með sams konar efasemdum og ég hef haft um svonefnda verðtryggingu og styður hann þær tölulegum rökum og vísar á meiri tengda umfjöllun.
Hér er færsla frá mér um þann kjarna sem ég tel felast í sjálfvirkni verðtryggingar sem sé því ekki aðeins afleiðing verðbólgu heldur líklega einnig orsök hennar.
Hér er færsla frá mér með eftirlýstum umræðum í athugasemdum í kjölfar stuttrar sjónvarpsfréttar RÚV um afstöðu mína; lítil rök voru birt í fréttinni önnur en þau að verðtrygging kunni að orsaka verðbólgu. Ástæðan er að lánveitendur séu þá öruggir um að fá fyrirhafnarlaust verðbætur ofan á vexti en neytendur beri alla áhættuna af verðbólguóvissu - sem að vísu er frekar verðbólguvissa við þessar aðstæður.
Hér er minnst á málið í viðtali í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni.
Loks er hér frétt Stöðvar 2 þar sem Guðmundur Ólafsson lektor svarar því til að þegar maður fái lánaða eða leigða 10 hesta þá vilji maður fá leiguna og 10 hesta til baka en ekki bara 7 hesta. Hvernig svarar maður svona dæmisögu - sem hljómar rétt við fyrstu heyrn?
Svarið kemur á morgun.
Flokkur: Viðskipti og fjármál | Facebook
Athugasemdir
Ég er ekki hlynntur arðráni en treysti bönkunum og lífeyrissjóðunum til að ávaxta pund sparifjáreigenda. "Verðtryggingin" á að vera inni í fyrirfram umsömdum vöxtum - svo báðir taki ábyrgð og áhættu af óvissri verðbólgu framtíðar.
Gísli Tryggvason, 4.8.2008 kl. 16:17
Sæll Gísli. Þetta er góð og þörf umræða. Ég hlustaði á einfalda skíringu Guðmundar Ólafssonar lektors um hestanna 10, ok. köllum húsin okkar hesta. Sjálfur á ég 2. hesta en fæ 10 lánaða hjá bankanum til 20 ára. sem sé ég leigi 10 hesta(vextir) en kaupi 1 hest af bankanum annað hvert ár(afborgun) eða alla hestana á 20 árum.
Eftir 2. ár verð ég að selja, sem þíðir að ég sem hef staðið í skilum við bankann á núna 3. hesta en bankinn 9.
Það er einhver skekkja í útreikningi og greiðslumatinu mínu frá bankanum, því núna segir bankinn að ég eigi að borga honum 13 hesta, sem sé hestana mína 2. og einum betur.
Sturla Snorrason, 4.8.2008 kl. 23:32
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.