Föstudagur, 25. júlí 2008
"Doktora" í sjónvarpið - í kóngsins nafni!
Margir sem búið hafa í Danmörku eða fylgst með þar undanfarin ár þekkja hinn skorinorða neytendaþátt Kontant. Slíkir þættir finnast víðar - nema á Íslandi. Hvarvetna þar sem ég kem ræðir fólk um neytendamál og eru flestir á því að aukin neytendavitund sé æskileg en margir taka þó undir með mér - aðspurðir - að hún hafi þó heldur aukist á undanförnum misserum, eins og ég tel.
Vitund og umræða er þó ekki nóg að mínu mati; aðgerða er þörf.
Eitt af því sem ég nefni oft og heyri stundum - jafnvel frá fólki sem er sjálft tilbúið að bæta úr - er að það vanti neytendaþátt. Nei, ekki í prentmiðlana; þeir eru að standa sig ágætlega og fjalla ríkulega um neytendamál eftir því sem kostur er í dagblaði, t.d. 24 stundir frá upphafi og nú síðast Dr. Gunni í Fréttablaðinu. Og; nei ég er ekki bara að meina í útvarpið - slíkur þáttur er þegar til: dr. RÚV á þriðjudögum kl. 15:30 á rás 1 á RÚV.
En doktor Gunni og Dr. Rúv er ekki nægileg "mótvægisaðgerð;" markaðsöflin eru miklu sterkari. Ég - og allir þessir neytendur, sem eru tilbúnir til þess að leggja sitt af mörkum - er að tala um reglulegan sjónvarpsþátt - ekki bara ágæt innslög í fréttaþáttum. Ég er að meina þátt í víðséðu sjónvarpi á besta tíma - þegar neytendur landsins, fjölskyldufeður og -mæður, eru að koma börnunum í rúmið eða sitja að loknum vinnudegi í sófanum og slaka á. Það nennir enginn að lesa þessa annars ágætu bæklinga eða fínu heimasíðu frá stofnunum og samtökum - sem eru þó að standa sig vel í að afla upplýsinga um ýmis málefni og kynna þær í hefðbundnum fjölmiðlum.
Þetta kostar pening. Þekkingin liggur fyrir. Viljinn er ljós. Krafan er skýr. Áhuginn er örugglega fyrir hendi. RÚV - almannasjónvarpið okkar allra - þarf að svara kröfunni.
Sem talsmaður neytenda hef ég ítrekað lagt þetta til við til þess bæra aðila - í kóngsins embættis nafni, sbr. t.d. eftirfarandi tilvitnun í umsögn mína frá 17. febrúar 2006 til menntamálanefndar Alþingis um frumvarp til laga um RÚV ohf.:
"Meginhugmyndin er að framleiddur verði fjöldi stuttra myndskreyttra sjónvarpskynninga sem höfðað geti til bæði barna, ungs fólks og fullorðinna um hin aðskiljanlegustu efni. Þannig verði almannafé nýtt betur án þess að mikill kostnaðarauki ætti af þessu að leiða. Þó þarf væntanlega að gera ráð fyrir einhverjum aukakostnaði við hugmyndavinnu, samhæfingu, stjórnun og framleiðslu bæði hjá Ríkisútvarpinu og ríkisstofnunum og öðrum sem njóta opinbers stuðnings til almannaþjónustu. Tel ég að um gæti verið að ræða hentugt efni til uppfyllingar og fjölbreytni í dagskrá auk sjálfsagðs fræðslu- og uppeldisgildis. Sjónvarp er miðill sem mikið er nýttur af markaðsaðilum og tel ég nauðsynlegt að með almannafé sé stutt við virka fræðslu fyrir neytendur, notendur, skattborgara, skjólstæðinga stofnana ríkisins og allan almenning í landinu í almannaþágu. Um nánari reifun er vísað til hjálagðra bréfa undirritaðs til útvarpsstjóra, dags. 1. september sl. og 1. nóvember sl., en í kjölfar þeirra fundaði ég með útvarpsstjóra um hugmyndina. Eins og fram kemur í fyrra bréfinu er hugmyndin að danskri fyrirmynd og er þar við áratuga góða reynslu að styðjast. Hafa margir fulltrúar ríkisstofnana o.fl. aðilar sem embætti talsmanns neytenda hafði samráð við á liðnu hausti tekið hugmyndinni vel eins og fram kemur í síðarnefnda bréfinu.
Tel ég að í þessari tillögu felist einn meginkjarni og grundvallar tilgangur með útvarpsþjónustu í almannaþágu sem er til þess fallin að bæta hag neytenda og alls almennings í landinu, nýta betur almannafé og auka hróður ríkisstofnana og annarra sem sinna almannaþjónustu."
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Ég á ekki von á því að sjá neina hvassa umræðu í sjónvarpi á besta tíma um alvöru neytendamál og okur. Til þess liggja þær einföldu ástæður að ekki má styggja stærstu auglýsendurna og þá sem kosta sjónvarpsþætti.
Við erum nefnilega ofurseld þeirri ljótu staðreynd að vera neydd til að borga áskrift í tilgangslausan ríkisfjölmiðil sem er síðan jafn háður auglýsendum og einkamiðlar og þeir geta því bara ekki beitt sér að neinu gagni án þess að liggja undir hótunum um að auglýsendur fari verði þeir fyrir gagnrýni um okur, samráð og svik við neytendur eins og nú er. Þrátt fyrir að vera í ríkiseigu er RÚV ekki sjálfstæður miðill á neinn hátt.
Haukur Nikulásson, 25.7.2008 kl. 07:14
Heill og sæll Gísli
Ég styð þetta framtak heilshugar - maður skynjar aukinn áhuga almennings á þessum málum og svo er bara að nýta þá bylgju til að skerpa og viðhalda vakandi vitund um neyslu.
Anna Karlsdóttir, 25.7.2008 kl. 10:23
Ég er vel menntaður á sviði fjölmiðla og skoðaði þessi mál mikið þar sem ég bjó erlendis. Þegar ég flutti heim, þá reyndi ég að koma þessu inn hjá Rúv, skjá einum og Stöð tvö. Stöð tvö svaraði mér aldrei, þrátt fyrir ítrekaða emaila, og símtöl. Þeir báðu um CV og thats it. Skjár einn svaraði aldrei og þegar nýr sjónvarsstýra tók við þá bað hún mig um að senda sér allar hugmyndirnar og CV og svo myndu þau sjá hugsanlega svara mér. Ég rétti þeim fingurinn. Rúv sagði þetta ekki ganga, og lítill markaður og metnaðarleysið skein í gegn.
Ég er að hugsa um að opna netsjónvarp með neytendaívafi ef ég fæ gott fólk til samstarfs.
Loopman
Loopman, 25.7.2008 kl. 22:37
Áhugann, fólkið, þekkinguna - og þörfina skortir ekki. Peninga þarf þó til.
Gísli Tryggvason, 25.7.2008 kl. 22:59
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.