Fimmtudagur, 12. júní 2008
Gúrkutíðin hafin
Skömmu eftir að áðurnefnt tímabil hefst byrjar næstum eins löng gúrkutíð - sem ég nefni svo í góðu því að fyrir um og yfir 15 árum var ég sjálfur um árabil sumarafleysingamaður á dagblaði (sem nú er horfið í aldanna skaut). Fyrir mig - sem hef starfað í um 10 ár á opinberum vettvangi við að kynna reglur, standa vörð og hafa áhrif til úrbóta fyrir launafólk og neytendur - hefur þetta þau áhrif að þegar þingi og öðrum reglulegum (og jafnvel óreglulegum) stórviðburðum er lokið þá hef ég vart undan að svara blaðamönnum - sem oftar en ekki eru ný nöfn, sumarafleysingafólk.
Þetta nýtist vel og ég kvarta ekki því málstaður neytenda á það alveg inni að fá að njóta sín - og fjölmiðlar (flestir ef ekki allir) virðast reyndar undanfarin misseri hafa sótt mjög í sig veðrið við að sinna neytendamálum - sem njóta auk þess vaxandi athygli í þjóðfélaginu almennt. Áhersla á þennan málaflokk á líklega aðeins eftir að aukast í samdrættinum sem fer í hönd.
Samt er það svolítið skrýtið að eftir viðburðaríkan fréttavetur, þar sem (tals)maður má hafa sig allan við til þess að kynna starfsemi embættisins fyrir neytendum og áhrifaaðilum - í því skyni að hafa áhrif - vegna þess að það er svo margt annað að frétta og mikil mannekla á fjölmiðlum, kemur allt í einu (aftur) tími þar sem lögmálið snýst við: eftirspurn eftir neytendafréttum og skoðunum talsmanns neytenda er skyndilega meiri en framboðið. Þó eru enn nýjar fréttir á heimasíðu embættisins - www.talsmadur.is - sem gera má mat úr.
Á sumrin getur ástandið verið svipað og þegar Nýja fréttastöðin var starfandi í um ár; þá var nánast fullt starf að sinna fréttamönnum. Í gærkvöldi var ég meira að segja í fyrsta skipti í viðtali í Ísland í dag, í sólinni á Austurvelli, um stóra grænmetis- og bakkelsismálið og það strax í kjölfar viðtals á Bylgjunni, á Reykjavík síðdegis, um sama efni sem ég vék reyndar líka að í færslu fyrir tveimur vikum. Verkefnisstjóri Leiðakerfis neytenda, Liselotte Widing, fór reyndar betur yfir evrópureglurnar um það mál í hér þætti Brynhildar Pétursdóttur, Dr. RÚV, í fyrradag.
Kannski (tals)maður verði jafnvel aftur kallaður í Kastljós í júlí eins og í fyrra þegar ég féllst á að mæta þar samdægurs og gagnrýndi mismunun almennra neytenda og farþega á viðskiptafarrými við vopnaleit; það bar árangur enda var þeirri mismunun hætt en þess má geta að æðsti yfirmaður málsins, dómsmálaráðherra, hafði þá einnig fundið að þeirri mismunun á bloggsíðu sinni.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.