Samsæri Hæstaréttar - og fleiri?

Gæti Hæstiréttur bannað stærsta flokk landsins ef í stjórnarskránni stæði að landið væri lýðveldi sem aðhyllist félagshyggju - en umræddur flokkur væri fylgjandi meiri markaðsbúskap og ynni í ríkisstjórn að einkavæðingu í samræmi við þá stefnu. Mér fyndist það skrýtið - en það er svona álíka og það sem virðist samkvæmt erlendum fréttum stefna í hjá Tyrkjum.

 

Ég ætla ekki að fara mörgum orðum um slæður hér heldur velta fyrir mér hvort er eðlilegra að meirihluti lýðsins ráði í lýðveldinu Tyrklandi eða Hæstiréttur og herinn - sem hvorugur hefur lýðræðislegt umboð þó að báðir aðilar segist - með nokkrum rétti, reyndar - vera að standa vörð um veraldlegt stjórnarfar; vandinn er að vörnin er gegn (meintri) ógn frá sitjandi ríkisstjórn með lýðræðislegt umboð. Ég hef reyndar lengi efast um slæðubann Frakka og Tyrkja sem á að vernda veraldlegt stjórnarfar frá íhlutun trúarafla og er hrifnari af samþættingarleið Breta og einkum þó Bandaríkjamanna - sem hafa náð að gera flesta fljótt að bandarískum borgurum þó að þeir gleymi upprunanum sem betur fer seint; og fáir eru trúaðri en Bandaríkjamenn þó að í landi þeirra sé skýrlega kveðið á um aðskilnað ríkis og trúar í stjórnarskrá og því fylgt nokkuð vel eftir af dómstólum.

 

Ég hef lengi haft svolítinn áhuga á sögu Tyrklands og stjórnmálum og fylgdist ágætlega með þegar ég var þar í sólarlandaferð þegar stjórnarflokkurinn, AK, sem lýst er sem mildum islam-hneigðum flokki, vann öðru eða þriðja sinni stórsigur í þingkosningum í fyrra. Flokkurinn hefur enn hreinan meirihluta á þingi og gat valið forseta úr sínum röðum en hefur ekki nægilegan meirihluta til þess að breyta stjórnarskránni, ef ég man rétt. Herinn, sem oft hefur á undanförnum áratugum framið valdarán, reyndi að hafa áhrif í gagnstæða átt með því að gefa í skyn afskipti af forsetakjörinu í fyrra "til varnar stjórnarskránni" eða til þess að "verja veraldlegt stjórnarfar Tyrklands" en gugnaði að þessu sinni - sem betur fer.

 

Þó að Tyrkland virðist að mörgu leyti fyrirmynd annarra ríkja þar sem múhameðstrú er ríkjandi er þetta að sumu leyti sama vandamál og hefur verið uppi á teningnum víðar í múslimaheiminum þar sem vestræn ríki styðja fremur minnihluta- og jafnvel einræðisstjórnir fremur en að hleypa réttkjörnum (öfga)múslimum að; munurinn á þeim tilvikum og Tyrklandi er að vestræn ríki styðja stjórnarflokkinn (eins og um helmingur þjóðarinnar) og hann er auk þess ekki öfgaflokkur heldur talinn hófsamur.

 

Þetta minnir mig á þegar ég spurði eitt sinn í miðju laganámi ágætan læriföður minn í Háskóla Íslands eftir pallborðsumræður af tilefni, sem ég hef nú gleymt, eitthvað á þá leið hvort ekki gæti verið að (krafan um) lýðræði og (krafan um) réttarríki stönguðust í sumum tilvikum á; svarið var svolítið hrokafullt eins og stundum áður og lét ég mér það vel líka:

 

Nei, ég held að þú hafir misskilið eitthvað.

 

Ég er enn ekki viss um að svo hafi verið.


mbl.is Stjórnarflokkur í Tyrklandi gagnrýnir úrskurð dómstóls
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Baldur Fjölnisson

Ég ráðlegg þér að reyna að greiða úr vitleysishugmyndum ruglustrumpa í eigin flokki um ósýnilega galdrakalla í himninum (téðir rugludallar hafa komið þér á kostnað skattgreiðenda) áður en þú bullar um aðra menningarheima.

Baldur Fjölnisson, 9.6.2008 kl. 01:01

2 Smámynd: Aðalheiður Ámundadóttir

Skoðaðu bara Stjórnarskrá Þýskalands, til að fá svarið við spurningunni frá háskólaárunum. Fallegasta stjórnarskrá í heimi, en samt... frekar ólýðræðisleg. Sár sögunnar eru mjög sýnileg þar.

Aðalheiður Ámundadóttir, 9.6.2008 kl. 03:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband