Mánudagur, 2. júní 2008
Stuðningskveðjur til Suðurlands og hrós til allra
Mig langar að senda íbúum og frístundahúsaeigendum á Suðurlandi stuðningskveðjur. Athyglisvert er að þessi skjálfti er einmitt rúmum fjórum sólarhringum á eftir hinum stærri síðdegis á fimmtudag - rétt eins og rúmir fjórir sólarhringar liðu, að mig minnir, frá stóra skjálftanum á brúkaupsdaginn minn, 17. júní 2000, en þá var ég í höfuðborginni í gömlum skrjóð sem ég hélt að væri að gefa sig; í hinum seinni var ég svo í brúðkaupsferð í Biskupstungum og fann þann skjálfta betur.
Eftir nokkurra daga óskipulagt blogg-hlé (þar sem ég gleymdi mér í góða veðrinu og öðrum hugðarefnum og heimsótti einmitt Suðurland til að gróðursetja og huga að vegsummerkjum) vildi ég nú bara nefna að af fyrstu fréttum af fimmtudagsskjálftanum að dæma virðast innviðir landsins hafa staðist þetta mjög vel: Forsetinn fljótlega kominn austur, forsætisráðherra með yfirlýsingu um stuðning, dómsmálaráðherra á vaktinni, sýslumaður og vegamálastjóri með upplýsingar, lögregla og hjálparlið út um allt að huga að fólki, fréttamenn strax komnir með fréttir og fulltrúa austur, viðlagatrygging og tryggingafélög fljótlega með ágætar upplýsingar, rafmagn og önnur orka í góðu lagi og vegakerfið nokkuð ósnortið; þetta sýnir bæði styrkleika og mikilvægi fyrirtækja á borð við Landsvirkjun og Vegagerðina - nóg er rætt um veikleikana, t.d. í sambandi við áætlanagerð við ferjusmíði, sem aðrir eru kannski betri í en slík stofnun. Í stjórnunarfræðum er einmitt fjallað um svonefnda lykilhæfni en stofnanir, fyrirtæki og jafnvel ríki ættu að nýta hana og styrkja. Kannski erum við bara nokkuð góð í því sem við eigum að vera góð í, svo sem að standast óvæntar náttúruhamfarir og standa saman.
Stærsta hrósið fær nú samt RÚV fyrir að vera komið með fréttir á pólsku og litháísku (ef ég man rétt því ekki skil ég hana) nokkrum klukkustundum eftir stóra skjálftann.
Ég skil nú betur en árið 2000 hvernig svona skjálfti getur haft sálræn áhrif - líka á innfædda Íslendinga - þó að alvarlegt líkamstjón hafi sem betur fer ekki orðið; það er væntanlega vegna aukins þroska og fleiri barna en fyrsta hugsun mín var einmitt að hringja í þau þó að við séum á höfuðborgarsvæðinu - en þau gátu hafa orðið hrædd.
Snarpur kippur á Hellisheiði | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Hélt snöggvast að mér hefði orðið á málvilla - sem er verri en prentvilla, jafnvel hjá gömlum ritstjóra. Ég skrifaði "vegsummerki" og hélt kannski að það hefði verið vegna sálrænna áhrifa þess að flest "verksummerkin", sem ég sá, voru á vegum. Gáði svo í orðabók - og fann bæði orðin, sömu merkingar.
Gísli Tryggvason, 2.6.2008 kl. 23:03
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.