Þriðjudagur, 20. maí 2008
Rasismi og ritskoðun eða ritstjórn og ruglingur
Miðað við viðbrögð hér á moggablogginu, sem ég sá seint (eins og myndina sjálfa), verð ég að taka þá áhættu að gerast - eða koma út úr skápnum sem - pólitískur rétthugsari; ég segi bara: Nú verðum við Norðmenn að passa okkur. Við Norðmenn þurfum ekki sérstaka mannréttindavernd eins og sumt fólk hefur þurft - sem er með tiltekinn litarhátt, hefur ákveðna trú, er af vissum uppruna eða hefur aðra kynhneigð en meirihlutinn. Haldið þið að það sé tilviljun að rauðhærðir njóta ekki sérstakrar lagaverndar en börn, fatlaðir og ýmsir svokallaðir minnihlutahópar gera það?
Stóra Sigmunds-málið snýst auðvitað ekki um ritskoðun - nema kannski eðlilega sjálfsritskoðun.
Eins og ég sagði fráfarandi ritstjóra Morgunblaðsins fyrir nærri 10 árum í áheyrnarviðtali okkar forsvarsfólks hagsmunasamtaka, sem ég vann þá fyrir og vildu njóta sannmælis, hef ég lengi talið að ritstjóri eigi að vera einmitt það: rit-stjóri - ekki krani eins og Jónas Kristjánsson hefur réttilega og lengi gagnrýnt okkur íslenska blaðamenn fyrir að hafa verið. Þetta fannst ritstjóranum ólýðræðisleg afstaða en hún markaðist m.a. af reynslu minni af alvöru dönskum dagblöðum á unglingsárum, síminnkandi tíma og sífellt vaxandi upplýsingaflóði. Ritstjóri á sem sagt að stýra upplýsingaflóðinu að mínu mati en ég hefði haldið að flestir gætu verið sammála um að hann á líka að stjórna því hvað birtist á prenti - texti, myndir o.s.frv. - og hvað ekki.
Ritskoðun er fyrirfram athugun (af hálfu fulltrúa ríkisins með valdboði) hvort eitthvað megi birta eða því dreifa. Frá ritskoðun höfum við á Vesturlöndum, sem betur fer, notið almenns frelsis í yfir 200 ár. Hæstiréttur Íslands gerðist t.d. svo merkur og frægur fyrir 65 árum 1943 að stöðva handhafa löggjafarvalds (Alþingi) og framkvæmdarvalds (menntamálaráðherra) í slíku athæfi (en svonefndur Hrafnkötludómur hefur því miður ekki fengið nægilega kynningu í íslenskri samtímasögu). Þetta kallast í stjórnlagafræði formlegt tjáningarfrelsi. Það höfum við (a.m.k. nánast óskert).
Þýðir það að við megum segja - eða teikna - hvað sem er? Nei. Svarið við því álitamáli snýst um efnislegt tjáningarfrelsi. Það er takmarkað - bæði í mannréttindasáttmálum og stjórnarskrá - með lögum - t.d.
- með hegningarlögum sem vernda minnihlutahópa sem sögulega séð hafa ekki notið sannmælis, svo ekki sé meira sagt (sem á ekki við um Kópavogsbúa, lögfræðinga, blaðamenn eða landsbyggðarfólk - svo ég taki dæmi um fjóra hópa sem ég hef tilheyrt án þess að hafa orðið fyrir mannréttindamissi fyrir þær sakir);
- með neytendalöggjöf sem verndar neytendur fyrir því að markaðssetning geti takmarkalaust sett fram gylliboð eða jafnvel villandi auglýsingar eða tilboð; og
- með jafnréttislöggjöf sem á m.a. að stuðla að því að staðalmynd konunnar í eldhúsinu og á öðrum vel völdum stöðum festist ekki í sessi þannig að dætur okkar - og synir - sjái að fortíðin er ekki lögmál (að öllu leyti).
Tjáið ykkur endilega.
Myndasaga Sigmunds gagnrýnd | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Hefur minnihlutahópurinn hjólreiðamenn notið sannmælis ? Margt bendir til að svo hafi ekki verið undanfarin 40 ár eða svo. Mér finnst þetta í alvöru áhugaverð spurning, og svarið er ekki augljóst.
Morten Lange, 27.5.2008 kl. 00:35
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.