90%, 80% og 70% með vali neytenda gagnvart fjölpósti og fríblöðum

Kæru neytendur. Eftirfarandi eru niðurstöður úr þremur óformlegum skoðanakönnunum hér á neytendablogginu:

  1. Rétt rúm 90% svarenda vildu með almennum reglum takmarka dreifingu óumbeðins fjölpósts til neytenda.
  2. Rúm 80% svarenda vilja geta valið milli fjölpósts og fríblaða og afþakkað fríblöð sjálfstætt, þ.e. að "nei takk" (eða "já takk") gilti ekki um allt eða ekkert.
  3. Um 70% vilja geta afþakkað fjölpóst (auglýsingabæklinga) innan í fríblöðum.

 

Athyglisvert er að aðeins 1 af þeim  nærri 300 sem hafa svarað í þessum þremur óformlegu könnunum var hlutlaus. Kannski verður næsta skref að gera víðtæka og aðferðarfræðilega tæka skoðanakönnun ef einhver efast um vilja neytenda - sem ber að virða.

 

Ef ekki kemur í ljós að þessar niðurstöður - sem eru í samræmi við tilfinningu mína - séu í ósamræmi við almenna afstöðu neytenda mun ég byggja á þeim í samstarfi við stjórnvöld og á grundvelli samráðs við hagsmunaaðila í frekari vinnu á næstunni við að tryggja valfrelsi neytenda og rétt þeirra til þess að afþakka a.m.k. fjölpóst eða fríblöð sem þeir vilja ekki þiggja.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gísli Hjálmar

Tek heilshugar undir þau sjónarmið sem komu fram í skoðanakönnunni.

Gísli Hjálmar , 18.5.2008 kl. 11:20

2 Smámynd: Kristbjörg Þórisdóttir

Sæll Gísli,

er þetta ekki þannig í dag heima að maður geti límt miða á póstkassann og sagt nei takk við ruslpósti? Hér í Danmörku getur maður límt einn miða til að afþakka auglýsingabæklinga og annan til að afþakka dagblöð sem dreift er frítt. Ákaflega þægilegt og sparar umhverfinu án efa mikinn pappír sem færi beint í endurvinnslu tunnuna eins og staðan var hjá mér...

Bestu kveðjur.

Kristbjörg Þórisdóttir, 18.5.2008 kl. 11:39

3 Smámynd: Gísli Tryggvason

Spurning hvaðan þessir miðar koma, Kristbjörg, en hér vantar einn miðlægan miða fyrir hvort tveggja að mínu mati.

Gísli Tryggvason, 18.5.2008 kl. 17:00

4 Smámynd: Kristbjörg Þórisdóttir

Hæ, ég fékk svona bara á danska pósthúsinu og skrifaði undir blað hjá þeim í leiðinni að ég hafnaði svona pósti! Það er samt ágætt að hafa tvo því ég t.d. hef engan áhuga á auglýsingabæklingum og henti þeim alltaf strax en þigg dagblöðin. T.d. tel ég að margir myndu hafna auglýsingapósti en myndu þiggja Fréttablaðið sem dæmi.

Bestu kveðjur úr Danaveldi .

Kristbjörg Þórisdóttir, 18.5.2008 kl. 21:49

5 Smámynd: Kristbjörg Þórisdóttir

Eru það ekki svona miðar einhvern veginn sem margir nota í fjölbýlishúsum á Íslandi? En þá leggja þeir alltaf bunka í staðinn sem fýkur bara um allt og það er algjör óþarfi því fólk er búið að hafna ruslpóstinum og mun þá ekkert frekar taka hann úr bunka í stigaganginum. Spurning hvort íslenski pósturinn bjóði ekki upp á svona miða?

Kristbjörg Þórisdóttir, 18.5.2008 kl. 21:52

6 Smámynd: Hannes S Guðmundsson

sæll Gísli
mér finnst ótrúlegt að þú sem talsmaður neytanda skuli leggja svona mikla áherslu á að þetta fjölpóstsmál með þeim rökum að það sé verið að koma kostnaði yfir á neytendur vegna förgunar.

Fjölpóstur er miðill til að miðla auglýsingum og tilkynningum til neytenda. Þar fær maður sem neytandi miklar upplýsingar um vörur/verð og tilboð/lokanir og fl.  Hann er þvi mjög mikilvægur miðill.

Til þess að vera góður neytandi þá verður maður að fylgjast með og gera m.a. verðsamanburð og er því fjölpóstur ein einfaldasta og ódýrasta leiðin fyrir neytandann að leita upp slíkt. 

Þau rök að það sé beinn kostnaður fyrir neytanda að koma slíkum fjölpósti í lóg  léttvægur, svona svipað að kvarta undan því að það kosti pening (að keyra bíl) til að koma sér í næstu lágvöruverslun til að versla ódýrt.

Ég þekki nánast engann íslending sem á húsnæði sem á ekki jafnframt bíl (fyrir utan einn og einn námsmann) og ég held að flestir fari í búðir 2-3 x í viku og þar er mjög oft að finna grenndargáma til að koma þessu frá sér.  Fólk sem velur að nota grænu tunnuna er að velja sér þægindi af því að fara ekki með allan fjölpóst, fríblöð og umbúðir og er það einfaldlega val.

Íslandspóstur býður þeim sem vilja að fá ekki fjölpóst, það ætla fríblöðin ekki að gera og munu halda áfram að skjóta inn auglýsingum inn í blöðin. Íslandpóstur mun því afsala sér hluta af núverandi tekjum.  Þess má geta að Íslandspóstur dreifir eingöngu 12% af því magni sem kemur inn um lúguna.

Hannes S Guðmundsson, 18.5.2008 kl. 22:33

7 Smámynd: Gísli Tryggvason

Rétt, Hannes, og margir neytendur - sennilega meirihluti þeirra - munu áfram vilja þiggja þessar auglýsingar til að sjá framboð á vöru, verð og jafnvel gæði - og þær geta stuðlað að samkeppni. Ég hef ekki haldið því fram að fjölpóstur sé slæmur í sjálfu sér. Ég er aðeins að reyna að tryggja og virkja rétt hinna sem vilja - jafnvel bara stundum (t.d. í sumarfríi þar sem er hætta á innbrotum ef póstkassar fyllast) - afþakka þessi góðu boð. Kostnaðarrökin eru vissulega ein rökin en ekki einu rökin en það er ekki neytendavænt (eða umhverfisvænt) að leggja kostnað af fjölpósti sem aldrei er lesinn á neytandann sem vill afþakka hann, hvaðan sem hann kemur. Þá er ekki sanngjarnt að ætla öllum alla tíð að eiga bíl eða panta sér sérstaka pappírstunnu.

Gísli Tryggvason, 18.5.2008 kl. 23:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband