Föstudagur, 9. maí 2008
"Get ég fengið vinnu?"
Fyrir rúmum tveimur áratugum réðst ég til vinnu í sundlaug þar sem ég bjó í nokkur ár og gekk í menntaskóla og síðar háskóla á Norður-Sjálandi. Gegndi ég þá virðulegasta starfsheiti sem ég hef nokkurn tíma haft - fyrr og síðar - "livredder" (lífbjörgunarmaður) þó að starfið hafi ekki aðeins falist í að sitja á háum stalli og vaka yfir lauginni svo enginn drukknaði (hérna er starfsheitið ekki eins "sexy" - sundlaugarvörður; tókum við regluleg námskeið í björgun og skyndihjálp í því skyni. Til þess að halda okkur vakandi voru önnur verkefni, svo sem að taka á móti fötum og afhenda, þrífa o.fl.
Ein af leiðinlegri starfsskyldunum var að banna sundlaugargestum ýmislegt - svo sem að hlaupa og ganga á röngum stöðum en sundlaugarstjórinn hafði þá stefnu að sundlaugin skyldi ekki verða "skiltaskógur" heldur ættum við frekar að tilkynna sundlaugargestum (eftirá) það sem væri bannað. Eitt af því, sem sundlaugargestir máttu ekki, var að stytta sér leið yfir laugina með því að ganga á skilrúmunum breiðu sem skiptu 50 metra keppnislauginni upp í þrjár - fyrirtaks dýfingarlaug, barnalaug og 25 metra sund-laug.
Einu sinni sem oftar þurfti ég að tilkynna sundlaugargesti - neytanda - að hann mætti ekki ganga á skilrúmunum; til þess notaði ég, nýbúinn, frasa sem ég hafði komið mér upp eftir að hafa fengið þessa góðu og vellaunuðu vinnu eftir aðeins um ár í Danaveldi:
"Det er kun for ansatte,"
þ.e.
"þetta (skilrúmið) er aðeins fyrir starfsmenn."
Ekki stóð á skemmtilegu svari frá Dananum:
"Kan jeg blive ansat?"
***
Segðu skoðun þína á fjölpósti í fyrstu óformlegu skoðanakönnuninni hér til vinstri.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.