Meiri hluti neytenda er konur - hví skyldu þær ekki vera í stjórnum?

Í framhaldi af færslu um væntingar bloggbyrjanda um hlutfall kvenna í hópi bloggvina fyrir viku vil ég birta ábendingu um almenna réttlætingu slíkra kvenna"kvóta" (og annarra ríkisafskipta) frá mínum "femíniska" og neytendamiðaða sjónarhóli. Milton Friedman taldi að vísu að stjórnendur fyrirtækja bæru ekki ábyrgð gagnvart öðrum en hluthöfum.

 

Margir lögfræðingar og frjálshyggjumenn telja sömuleiðis að það skjóti skökku við að gera kröfur um það - hvað þá með lögum - að í stjórnum fyrirtækja séu konur upp að einhverju marki. Ef um er að ræða einkafyrirtæki manns (svonefnt einkafirma) eða fjölskyldu, t.a.m., get ég fallist á að slík afskipti af hálfu ríkisins eigi tæpast rétt á sér. Margar undanþágur eru enda í íslenskum lögum og víðar frá sambærilegum ríkisafskiptum gagnvart minni fyrirtækjum - eins og ég get nefnt mörg dæmi um.

 

Ef á hinn bóginn er um að ræða hlutafélag eða einkahlutafélag má ekki gleyma því að kjarni laga um (einka)hlutafélög er takmörkuð ábyrgð eigenda gagnvart kröfuhöfum - þ.m.t. neytendum og launafólki - og þar með samfélaginu, eða eins og enskt heiti þeirra vísar til: Limited (liability), skammstafað "Ltd." Sjá hér færslu um "Unlimited." Venjulegir kröfuhafar - fyrirtæki og neytendur - missa þannig kröfu sína ef fyrirtækið reynist ekki eiga fyrir skuldbindingum. Með lögum um Ábyrgðarsjóð launa tekur samfélagið hins vegar að sér að greiða rétthærri kröfur, þ.e. vangreidd laun (en sjóðurinn er vissulega fjármagnaður með hlutfalli af tilteknum launaskatti, tryggingargjaldi; það breytir því ekki að allir greiða en aðeins sumir "njóta").

 

Eins og breska tímaritið Economist hefur bent á felur takmörkuð ábyrgð í sér að eigendurnir - sem hafa vissulega tekið áhættu - bera þó takmarkaða áhættu, bundna við hlutina; hlutaféð. Hluthafarnir bera aðeins takmarkaða ábyrgð - gagnvart neytendum og öðrum hluthöfum. Þetta er samfélagsleg gjöf til hlutafélaga - og þar með til hluthafa - og þess vegna má samfélagið gera kröfur á móti, með lögum. Síðast á laugardaginn var fjallaði Economist í leiðara með gagnrýnum hætti um afleiðingar hins frjálsa markaðar þannig að hluthafar græði þegar vel gengur en ríkið beri hluta af byrðinni:

 

...when the other investment bankers and their shareholders take on that extra bit of risk, knowing that they keep all the gains, but that the state will shoulder some of the losses?

 

Vissulega er takmörkuð ábyrgð talin hafa skilað samfélaginu miklum hagsauka. Sú tilhögun að einhver beri ekki - eða aðeins takmarkaða - ábyrgð er hins vegar í fyrsta lagi á skjön við lífsskoðun sem fyrirtækjastjórnendur og margir, sem hallast til hægri, þreytast seint á að endurtaka: að skjólstæðingar mínir undanfarin 10 ár - launafólk og neytendur - beri líka ábyrgð eða eigi fyrst og fremst að bera ábyrgð á gerðum sínum. Í öðru lagi er takmörkuð ábyrgð aðeins nokkurra árhundruða (og á Íslandi í raun aðeins áratuga) gömul undantekning frá þeirri meginreglu rómversks og germansks réttar, ef ég man réttarsöguna mína rétt, að allir beri ábyrgð á gerðum sínum. Kirkjan - stærsti fyrirtækjarekandi Íslands um aldir - bar væntanlega ábyrgð á löggerningum sínum með öllu sínu fé; Sigurður Líndal leiðréttir mig ef rangt er. Frá þeirri meginreglu er líka komin sú almenna regla - sem ekki var sett í lög af Alþingi - að maður beri skaðabótaábyrgð á þeim gerðum sínum, sem hann ber sök á (svonefnd sakarregla). Meira að segja vitskertur - eða "óðr" - maður ber slíka ábyrgð eins og Jónsbók frá 1281 kveður á um (já, skoðið hér - enn í gildi) og Hæstiréttur byggði á 1972, ber ábyrgð á athæfi sínu sem veldur öðrum tjóni.

 

Mér finnst þetta skýrt. Gjaldið, sem samfélagið á að mínu mati - og samkvæmt leiðarahöfundi Economist - að krefjast af eigendum (hluthöfum) fyrirtækja fyrir hagræðið, sem felst í takmarkaðri ábyrgð, er að mega skipta sér af stjórnun þeirra og rekstri - í hófi og í samræmi við samfélagslega stefnumörkun - svo sem jafnrétti kynjanna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Oddgeir Einarsson

Ég veit ekki alveg hvort ég er hér að ræða við Talsmann neytenda eða bara manninn sem gegnir því embætti, en mér er svosem nokk sama.

Hlutafélög bera fulla ábyrgð en geta verið gjaldþrota eins einstaklingar.

Viðsemjendur hlutafélaga geta krafist ábyrgða (t.d. sjálfskuldarábyrgðar eða veðréttar) til að takmarka áhættuna af ógjaldfærni hlutafélagsins rétt eins og þegar þeir semja við einstaklinga.

Lög sem ábyrgjast kröfur sem viðsemjendur hlutafélaga kunna að eiga (t.d. ábyrgðarsjóður launa) er þá "gjöf" til viðsemjenda sem ekki þurfa þá að afla sér tryggingar fyrir greiðslum ef þeir semja við illa stæðan lögaðila.

Ég get því ekki fallist á röksemdirnar í færslunni fyrir því að lögbinda hlutfall kvenna í stjórnum hlutafélaga. Viðsemjendur geta hinsvegar ákveðið að semja ekki við lögaðila sem er eingöngu stjórnað af hinu óæðra kyni.

Oddgeir Einarsson, 4.4.2008 kl. 10:31

2 identicon

Það er bundið í lög í Noregi 40% reglan.

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 4.4.2008 kl. 11:32

3 Smámynd: Ómar Ingi

Á fundi með hundi ?

Ómar Ingi, 4.4.2008 kl. 16:43

4 Smámynd: Bumba

Sæll Gísli og velkominn í bloggvinahópinn. Gladdist yfir því í dag.

Þetta með konurnar, ég hef verið á vinnumarkaði hátt í fjörutíu ár. Meira en 90 % yfirmanna minna hafa verið konur og eru enn. Þannig að ég gef nú ekki alltaf grænt ljós með það að þær eru í  of fáum yfirmannastöðum. Hitt er annað mál að þær langar oft í stöður sem þær hafa lítið sem ekkert vit á og er þetta orðið mikið vandamál í Noregi. Hef sambönd þangað, bjó þar í 4 ár. En þetta er ekki svo einfalt, margar konur langar hreinlega ekkert í þessar yfirmnnastöður, þær sem vilja þær, fá þær. Þar er mín reynsla. Með beztu kveðju.

Bumba, 4.4.2008 kl. 19:27

5 Smámynd: Bjarni Harðarson

algerlega sammála þér í þessu eins og svo mörgu. kær kv. -b.

Bjarni Harðarson, 5.4.2008 kl. 12:56

6 Smámynd: Gísli Tryggvason

Fyrirgefið síðbúin svör. Sennilega er það rétt hjá Oddgeiri að sama sé hvort við tölum saman sem talsmaður neytenda og lögmaður eða maður við mann - nema ef vera skyldi skv. 23. gr. skaðabótalaga sem ég forðast þó að á reyni, sem og II kafla stjórnsýslulaga - rétt eins og ég reyni að virða 14. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og 2. málslið 2. mgr. 5. gr. laga um embættið. Annars náum við víst ekki nær sammæli í þessari umræðu.

Gísli Tryggvason, 8.4.2008 kl. 12:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband