Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál
Mánudagur, 4. ágúst 2008
Á maður bara að skila hestunum - eða bæta við folöldum líka?
Hér er frétt Stöðvar 2 þar sem Guðmundur Ólafsson lektor svarar verðtryggingarefasemdum mínum þannig að þegar maður fái lánaða eða leigða 10 hesta þá vilji maður fá leiguna og 10 hesta til baka en ekki bara 7 hesta. Í gær boðaði ég svar við þessari dæmisögu - sem hljómar skynsamlega í fyrstu.
Málið er að lántakandi tekur einmitt 10 hesta (krónur) að láni og vill vita hvað hann á að greiða til baka í leigu (vexti) auk höfuðstólsins (hestanna 10, auðvitað). Hér á landi bætist hins vegar við óviss fjöldi folalda (verðbóta) sem er mældur eftir á - miðað við það sem nágrannabóndinn hefur náð í ávöxtun með því að hafa sínar hryssur heima með með fola. Væri ekki eðlilegra að lánveitandinn semdi um vexti með hliðsjón af þeim fórnarkostnaði - eina tegund vaxta en ekki tvær?
Meint rýrnun lánsins (verðbólga) er mæld sem það sem lánveitandinn er talinn hafa farið á mis við með því að verðbólga var ekki bara hærri en búist var við heldur bara einhver. Ég gæti ímyndað mér að réttlátara þætti ef áhættu af umframverðbólgu yfir einhverri tilgreindri spá (t.d. 2,5% eins og verðbólgumarkmið Seðlabankans) væri skipt á milli lánveitanda og lántakanda.
Sunnudagur, 3. ágúst 2008
Vax(t)andi umræða
Í gúrkunni og hitanum undanfarna viku hafa margir fjölmiðlar haft samband við mig og spurt um svonefnda verðtryggingu - sem lengi hefur legið fyrir að ég vildi skoða gagnrýnum augum í embættisnafni þó að ég hafi ekki fundið nægilega skilvirkan farveg til þess enn. Því fagna ég þeirri umræðu, sem færst hefur í aukana í kjölfarið. Ég set hér inn nokkra tengla á umræður og yfirleitt málefnalegar rökræður um þetta brýna álitamál. Kannski er það illfært en æskilegt er a.m.k. að halda utan um rökræður um gildandi fyrirkomulag á sjálfkrafa tengingu neytendalána við vísitölu neysluverðs - eins og ég kalla verðtrygginguna.
Hér skrifar framkvæmdarstjóri þingflokks Sjálfstæðismanna, Árni Helgason, með verðtryggingu enda sé hún samningsatriði og vísar hann einnig á greinaskrif á Deiglunni. Þrátt fyrir formlegt eða fræðilegt samningsfrelsi hef ég hins vegar efasemdir um hversu mikið frelsi neytendur hafa í raun til þess að velja annað en verðtryggð krónulán - þ.e. annað hvort enn hærri vexti eða erlend lán með mikilli gengisáhættu (sem hefur sýnt sig undanfarna mánuði).
Hér skrifar Hrannar Baldursson vel rökstudda grein með sams konar efasemdum og ég hef haft um svonefnda verðtryggingu og styður hann þær tölulegum rökum og vísar á meiri tengda umfjöllun.
Hér er færsla frá mér um þann kjarna sem ég tel felast í sjálfvirkni verðtryggingar sem sé því ekki aðeins afleiðing verðbólgu heldur líklega einnig orsök hennar.
Hér er færsla frá mér með eftirlýstum umræðum í athugasemdum í kjölfar stuttrar sjónvarpsfréttar RÚV um afstöðu mína; lítil rök voru birt í fréttinni önnur en þau að verðtrygging kunni að orsaka verðbólgu. Ástæðan er að lánveitendur séu þá öruggir um að fá fyrirhafnarlaust verðbætur ofan á vexti en neytendur beri alla áhættuna af verðbólguóvissu - sem að vísu er frekar verðbólguvissa við þessar aðstæður.
Hér er minnst á málið í viðtali í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni.
Loks er hér frétt Stöðvar 2 þar sem Guðmundur Ólafsson lektor svarar því til að þegar maður fái lánaða eða leigða 10 hesta þá vilji maður fá leiguna og 10 hesta til baka en ekki bara 7 hesta. Hvernig svarar maður svona dæmisögu - sem hljómar rétt við fyrstu heyrn?
Svarið kemur á morgun.
Þriðjudagur, 29. júlí 2008
Verðbólguvæntingar eða verðbólgutrygging
Víða um heim er seðlabönkum gert að berjast við svonefndar verðbólguvæntingar með háum vöxtum. Hér á landi er vanmælt að tala um verðbólgu"væntingar" því væntingar gefa til kynna að eitthvað sé óvíst, hugsanlegt.
Ef verð hækkar á banönum, bensíni eða brauði er hugsanlegt að lánveitandi, leigusali eða launþegi erlendis fari fram á hærra endurgjald í langtímasamningum fyrir sitt framlag - einhvern tímann. Þó að viðsemjandi hans geti vissulega oft sagt að þessi verðhækkun sé ekki honum að kenna er ekki útilokað að hann fallist á hækkun endurgjalds að meira eða minna leyti - einhvern tímann.
Þetta er kallað verðbólguvæntingar. (Svipað gerist hérlendis í samningum sem ekki eru langtímasamningar.)
Hér á landi er hins vegar innbyggð sjálfkrafa víxlverkun í marga langtímasamninga - svo sem um húsnæðislán, leigu, þjónustu eða verk - þannig að verðhækkun (eins og ríkið tekur að sér að mæla hana í ýmsum vísitölum) fer sjálfkrafa inn í endurgjaldið, án þess að semja þurfi um það. Sú hækkun verður yfirleitt strax í næsta mánuði enda eru vísitölur reiknaðar mánaðarlega.
Þetta má kalla verð(bólgu)tryggingu.
Laugardagur, 26. júlí 2008
Hvað finnst þér um verðtryggingu?
Þarna var ekki rými fyrir rök með eða á móti svonefndri verðtryggingu - en hvað finnst þér um sjálfkrafa tengingu neytendalána við vísitölu neysluverðs? Gefið "komment."
Viðskipti og fjármál | Breytt 29.7.2008 kl. 10:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Miðvikudagur, 26. mars 2008
Neyttu réttar þíns!
Þarftu að leita réttar þíns sem neytandi? Farðu þá á www.neytandi.is og leitaðu - með aðstoð Leiðakerfis neytenda á vegum talsmanns neytenda - upplýsinga um rétt þinn. Þar geturðu leitað réttar þíns - annað hvort hjá seljanda vöru eða þjónustu eða, ef hann bregst ekki (rétt) við, hjá viðeigandi úrskurðaraðila.