Gísli Tryggvason
Höfundur er talsmaður neytenda sem er sjálfstætt embætti sem viðskiptaráðherra skipar í.
Talsmanni neytenda ber lagaskylda til þess að stuðla að aukinni neytendavernd með starfsemi sinni, hafa áhrif til úrbóta fyrir neytendur, standa vörð um hagsmuni og réttindi neytenda, kynna réttarreglur um neytendamál og leiðbeina neytendum um færar leiðir til þess að ná rétti sínum; það gerir talsmaður neytenda ekki síst með því að halda uppi Leiðakerfi neytenda, gagnvirkri neytendagátt til þess að leita réttar síns sem neytandi, óháð stað og stund. Þetta gerir talsmaður neytenda m.a. með því að nýta sér bloggið til óformlegra áhrifa, sbr. 2. mgr. 73. gr. stjskr.: "Hver maður á rétt á að láta í ljós hugsanir sínar, en ábyrgjast verður hann þær fyrir dómi. Ritskoðun og aðrar sambærilegar tálmanir á tjáningarfrelsi má aldrei í lög leiða." Sjá nánar http://www.althingi.is/lagas/nuna/1944033.html og dóma í samræmi við stjórnarskrána.
Þá ber talsmanni neytenda lögum samkvæmt að bregðast við ef brotið er gegn hagsmunum og réttindum neytenda - einkum þegar neytendur eiga þess ekki kost sjálfir að verja sig eða sækja rétt sinn.
Höfundur - sem hefur m.a. sinnt (fjöl)miðlum - leitast við að nota bloggið sem virkari miðil en vefsíðu embættis talsmanns neytenda í því skyni að standa undir nafni sem tals-madur neytenda, óháð áhuga fjölmiðla á formlegri starfsemi talsmanns neytenda - en notar þennan miðil vitaskuld ekki formlega til þess, nema aðrir (fjöl)miðlar bregðist. Höfundur mun vitaskuld virða mörk laga um embættismenn og annarra laga, svo sem laga sem gilda um meiðyrði.
Höfundur væntir þess að þeir sem gera athugasemdir geri slíkt hið sama en að fenginni reynslu eru athugasemdir háðar samþykki höfundar og geta þar aðeins skráðir notendur tjáð sig - og ekki í skjóli dulnefna.