Ekki aprílgabb?

Í gær var ég á málefnalegum og fróðlegum rökræðufundi í Háskólanum í Reykjavík þar sem eina ágreiningsefnið var hvernig, hve hratt og eftir hvaða leið - en ekki hvort - Ísland ætti að taka upp alvörugjaldmiðil í stað krónu; annar frummælandinn, Ágúst Valfells, spurði í upphafi hvaða leið væri út úr Limbólandi og benti á - grínlaust - að fleiri notuðu Mikka-Mús-seðla í Disneylandi í Flórída en íslensku krónuna. Þessi samlíking og samanburður minnti mig á færslu mína fyrir réttu ári um tilfinningu mína sem neytanda að vera leiksoppur í Matadorspili. Vonir mínar þá um aðgerðir brustu því miður en ég áréttaði færsluna skömmu síðar og svo aftur í frægri færslu - daginn fyrir upphaf bankahrunsins þar sem ég bað forsætisráðherra að koma ekki heim frá Bandaríkjunum fyrr en hann hefði lausn í farteskinu; fyrirsögnin var:

 

Ekki koma heim Geir...

 

Hinn fyrirlesarinn í gær, dr. Jón Þór Sturluson, viðurkenndi að eftir hrunið kynni krónan að hafa nokkra kosti til aðlögunar en evran hefði að líkindum fyrirbyggt hrunið - og myndi framvegis gera slíkar kreppur ólíklegri.

 

Allt þetta nefni ég á þessum 1. apríl því það hljómar næstum eins og gabb þegar loksins virðist að skapast nokkur þverpólitískur skilningur á því að verðtrygging eigi ekki fullan rétt á sér þó að aldrei sé alveg rétti tíminn til að afnema hana eða takmarka; í frétt RÚV sagði:

 

Þingmenn ræddu utandagskrár á Alþingi í dag um verðbætur á lán. Fulltrúar allra flokka á þingi vilja ýmist draga verulega úr verðtryggingum lána eða afnema þær að fullu. Flestir töldu að bíða ætti uns dregur úr verðbólgunni þar til hægt er að breyta notkun verðtryggingar. 
 

 

Þó er aðeins rúmt hálft ár - nokkru fyrir hrunið - að sjálfur ráðherra neytendamála, Björgvin G. Sigurðsson, tók undir með þeim hagfræðingum, stærðfræðingum og bankamönnum sem töldu efasemdarmenn á borð við mig ekki skilja fyrirbærið - og sakaði þá, sem efuðust um réttmæti verðtryggingar, um

 

lítt rökstutt lýðskrum!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Já það var þá (álit Björgvins G) en hver var niðurstaða ykkar Jóns Þórs Sturlusonar. Þið hafið báðir vilja skipta um gjaldmiðil (eins og allt hugsandi fólk) og þá með hvaða hætti. Það eru bara sértrúarsöfnuðir, blindaðir þjóðernissinnar og fortíðarhyggjufólk sem heldur að ekki verði skipt um gjaldmiðil, að ég tali nú ekki um að ganga í ESB.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 2.4.2009 kl. 01:31

2 identicon

Það er náttúrulega kolrangt að bíða meða að afnema verðtrygginguna þangað til dregur úr verðbólgu, því þá er tjónið orðið.  Ég held að þingmenn hafi engann áhuga á að létta undir með skuldsettum heimilum því að það er svo auðvelt fyrir þá að stjórna þegar mistökum þeirra er jafn óðum velt á bakið á skuldurunum, en þeir, fjármagnseigendur og að aðrir hátekjumenn lifa í vellystingum praktuglega áfram eins og ekkert hafi í skorist. 

Gísli Gunnlaugsson (IP-tala skráð) 2.4.2009 kl. 09:29

3 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Þú segir:  "Hinn fyrirlesarinn í gær, dr. Jón Þór Sturluson, viðurkenndi að eftir hrunið kynni krónan að hafa nokkra kosti til aðlögunar en evran hefði að líkindum fyrirbyggt hrunið - og myndi framvegis gera slíkar kreppur ólíklegri."

Útskýrði hann nokkuð hvers vegna evran er ekki að bjarga Evruþjóðunum frá kreppunni.  Ekki dugir að segja að þar hafi bankarnir ekki fallið, allir sem einn, því margir bankar í Evrópu hafa farið á hliðina, að ekki sé talað um alla hina, sem fjármunum hefur verið dælt í svo nemur trilljörðum.  Hefði íslenski ríkissjóðurinn dælt hlutfallslega jafn miklu fé í íslensku bankana, væru þeir ennþá starfandi, en við værum í sömu kreppu og aðrir eftir sem áður.

Axel Jóhann Axelsson, 2.4.2009 kl. 17:22

4 Smámynd: Halldór Björgvin Jóhannsson

Hinn fyrirlesarinn í gær, dr. Jón Þór Sturluson, viðurkenndi að eftir hrunið kynni krónan að hafa nokkra kosti til aðlögunar en evran hefði að líkindum fyrirbyggt hrunið - og myndi framvegis gera slíkar kreppur ólíklegri.

Ég leyfi mér að efast um að evran hefði fyrirbyggt hrunið en hún hefði svo sannarlega gert það vægara en að mínu mati hægt á uppbyggingunni eftir á, en það eru margir sem halda því fram að halda í krónuna akkúrat núna komi til með að flýta fyrir uppbyggingunni eftir hrunið er ekki líka vert að taka þeirra rök gild líka.

Þið hafið báðir vilja skipta um gjaldmiðil (eins og allt hugsandi fólk) og þá með hvaða hætti.

Er semsagt fólk sem ekki er þér sammála ófært um að hugsa? ef mér skjátlast ekki þá ertu að gefa í skyn að þeir sem eru á móti upptöku nýrrar myntar kunni ekki að hugsa, er þá ekki líka hægt að gefa í skyn að þeir sem eru hinu megin við borðið og vilja eindregið taka upp nýja mynt sama hvað að þeir kunni sér ekki í hugsun heldur?

sem heldur að ekki verði skipt um gjaldmiðil

Það verður eflaust einhvertíman gert, en að fara í að skipta út gjaldmiðli núna á meðan krónan er svona veik er ekki góður kostur því eins og staðan er núna þá væri mjög dýrt fyrir ríkið að kaupa nýja mynt á núverandi gengi og tala nú ekki um það að ef ætti að reyna að ná í evruna, þá kemur það til með að taka mörg ár þar sem gengið á krónunni þarf að vera í jafnvægi í nokkur ár  (var annað hvort 2 eða 5 ár ef ég man rétt) samkvæmt ESB reglum um upptöku evrunnar.

Það er náttúrulega kolrangt að bíða meða að afnema verðtrygginguna þangað til dregur úr verðbólgu, því þá er tjónið orðið.

Það er hægt að rökræða þessa fullyrðingu, hversu mikil bót það yrði á heildina litið(gott fyrir skuldara, slæmt fyrir þjóðina) að afnema verðtryggingu núna en eitt er víst hún hefði átt að vera löngu farin fyrir hrun.

því þá er tjónið orðið.

Verðtrygging er nátturulega algert böl fyrir skuldara og er ég þér hjartanlega sammála.

Halldór Björgvin Jóhannsson, 2.4.2009 kl. 18:17

5 Smámynd: Gísli Tryggvason

Takk fyrir umræðurnar. Við beinni spurningu Axels Jóhanns þori ég nú ekki að vitna mikið frekar í dr. Jón Þór eftir minni en hagfræðingar nefna oft að við bankakreppu hér (algera) eins og (takmarkaða) bankakreppu annars staðar bætist gjaldmiðilskreppa - sem ekki er annars staðar.

Gísli Tryggvason, 3.4.2009 kl. 00:16

6 Smámynd: Birna Jensdóttir

Hvað með Equvador kann ekki að skrifa það rétt,en þeir tóku upp mynt einhliða (dollar)og sitja núna í skít upp fyrir bæði eyru.

Birna Jensdóttir, 3.4.2009 kl. 10:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.