Ekki koma heim, Geir...

Fyrir réttu hálfu ári skrifaði ég um þá tilfinningu neytenda og launþega að vera í Matadorspili - ekki sem leikmenn, heldur sem leiksoppar; sú tilfinning hefur ekki breyst - heldur styrkst. Ekki bara af því tilfinningin virtist rétt 10 dögum síðar heldur vegna þess að á þeim 6 mánuðum sem síðan hafa liðið hefur ástandið hríðversnað; lungann úr september hafa íslensku Matadorpeningarnir náð nýju lágmarki annan hvern dag. Þá hafði krónan á 3ur mánuðum "aðeins" fallið um u.þ.b. 30% gagnvart helstu gjaldmiðlum frá áramótum en nú hefur hún á 9 mánuðum ársins fallið yfir 50%!

 

Þá taldi ég teikn á lofti um aðgerðir af hálfu stjórnvalda; þær voru seinar að sýna sig og þó að ýmsir væru sakaðir um bráðlæti sýndu flestir biðlund. Nú er liðið hálft ár frá upphaflega gengishruninu um páskana og í dag kom enn og aftur betur í ljós að tilraunir stjórnvalda eru ekki að bera árangur.

 

Á meðan blæðir fólki og fyrirtækjum (út). Sem talsmaður neytenda hef ég almennt talið það utan minnar lögsögu að tjá mig um efnahags- og gengismál - hvað þá að skipta mér af þeim; það er verkefni sem stjórnmálamenn eiga að sjá um.

 

Talsmanni neytenda er ekki falið að leggja til úrbætur á öðru en reglum

 

er varða neytendur sérstaklega,

 

en á hinn bóginn er talsmanni neytenda einnig falið af sjálfum löggjafanum að

 

standa vörð um hagsmuni og réttindi neytenda

 

og

 

bregðast við þegar hann telur brotið gegn réttindum og hagsmunum neytenda [.]

 

Þar sem flestir neytendur landsins

 

  • gjalda fyrir þetta fordæmalausa gengisfall daglega í verslun undanfarna mánuði,
  • finna það mánaðarlega í afborgunum  og daglega á höfuðstól lána í erlendri mynt eða
  • sjá það reglulega á höfuðstól og mánaðarlega á afborgunum verðtryggðra lána í íslenskum krónum þrátt fyrir afborganir

 

var mér nóg boðið síðdegis í gær - eftir 2ja sólarhringa bið eftir skýringu frá stjórnvöldum eða Seðlabanka Íslands. Þá hafði engin skýring borist - þrátt fyrir gríðarlegan þrýsting fjölmiðla, greiningardeilda banka o.fl. - á því að minnsta ríki heimsins með sjálfstæða sérstaka mynt var ekki talið þurfa að vera með þegar systurríki gerðu fyrr í vikunni samninga um gjaldmiðlaskipti sem hagfræðingar fræðasamfélagsins og greiningardeilda bankanna virtust sammála um að Ísland hefði þurft að eiga sambærilega aðild að - sem eins konar tryggingu gegn enn verra ástandi (en þar - hvað þá hér - ríkir).

 

Svörin sem ég fékk frá New York frá efnahagsráðgjafa forsætisráðherra voru í stuttu máli að hann vissi lítið meira en ég (um skýringu þessa); ég er ekki sérfræðingur í efnahagsmálum - eins og margir málsmetandi hagfræðingar landsins eru duglegir að benda á eða gefa í skyn þegar ég efast um réttmæti gildandi fyrirkomulags á tengingu neytendalána við vísitölu neysluverðs (svonefndrar verðtryggingar).

 

Svörin frá Seðlabanka Íslands voru síður efnisleg - heldur þau að ekki væri unnt að ná í bankastjórnina en frétt yrði birt á vef bankans um eða eftir kl. 16:00, þ.e. við lokun markaða - sem var ágætt því inntak yfirlýsingarinnar var rýrt (hér er fréttatilkynningin í heild):

 

Eins og komið hefur fram í fréttum hefur Seðlabanki Bandaríkjanna gert tvíhliða gjaldmiðlaskiptasamninga við fjóra seðlabanka til þess að leysa úr bráðaþörf fyrir Bandaríkjadali sem upp kom í viðkomandi löndum. Samningar þessir eru annars eðlis en þeir sem Seðlabanki Íslands gerði við þrjá norræna seðlabanka í maí sl.

 

Seðlabanki Íslands hefur átt viðræður við Seðlabanka Bandaríkjanna á undanförnum vikum. Ekki voru taldar ástæður eða efni til þess að gera á þessu stigi saming við Seðlabanka Íslands. Alls ekki væri þó útilokað að slíkur samningur yrði gerður síðar ef aðstæður gefa tilefni til.

 

Ég las ekki út úr þessu svarið sem RÚV birti í gærkvöldi, þ.e. hvort um væri að ræða

  • viljaleysi (sem ég vildi ekki trúa) eða
  • upplýsingaleysi, þ.e. að Íslendingum hefði ekki verið kunnugt um fyrirhugaða samninga (sem hefði mátt bæta úr í kjölfarið).

 

 Samkvæmt RÚV er svarið hvorugt - heldur getuleysi:

 

Vildu ekki semja við Seðlabankann 

Seðlabanki Íslands ræddi við Seðlabanka Bandaríkjanna um gjaldeyrisskiptasamninga. Bandaríski seðlabankinn sá hins vegar ekki tilefni til að gera samning við Seðlabanka Íslands á þessu stigi. Ingimundur Friðriksson seðlabankastjóri segir að Seðlabanki Bandaríkjanna hafi séð sjálfum sér hag í því að gera samninga við ákveðna banka. Samningar bandaríska Seðlabankans hafi verið gerðir gagngert til að bregðast við bráðaþörf á þessum tilteknu mörkuðum.

 

Mér brá í brún; hvernig munu markaðir (með krónu, skuldatryggingarálag, hlutabréf o.fl.) bregðast við þessu á mánudagsmorgun? Fyrir rúmum 4rum árum sagði á forsíðu íslensks dagblaðs eitthvað á þessa leið:

 

Komdu heim, Ólafur Ragnar.

 

Þá var ég í útlöndum og vonaði í stíl við fyrirsögnina; forsetinn brást mér ekki heldur dreif sig heim langan og erfiðan veg og beitti því synjunarvaldi sem ég kaus hann til. Nú er forsætisráðherra í útlöndum en ég sit heima; því segi ég (þó að ég viti að stjórnvöld í Bandaríkjunum hafi um annað að hugsa þessa dagana þessar klukkustundirnar):

 

Ekki koma heim, Geir - fyrr en þú hefur samið við vini okkar í Bandaríkjunum (við erum með varnarsamning við þá), helst fyrir opnun markaða á mánudagsmorgun.


mbl.is Ekki þótti ástæða til að gera gjaldmiðlaskiptasamning
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Gísli.

Frábær upphafssetning hjá þér. En fer hann eftir því,það er spurning.

þetta er mjög vel útfærð grein hjá þér en því miður lítið nýtt.

þetta er allt að gerast fyrir eyrum okkar og augum.

En það versta er að megnið af ósómanum gerist í baktjaldamakki stjórnarflokkanna.

Þar gerast hlutirnir,  LYGIN svífur yfir, Feluleikurinn er vinsælasti leikurinn í þeim hópi.Og þar.................já,nefndu það!

Það er ótrúlegt hvað þessum stjórnarherrum líðst........................hvað hefði gerst ítd. Bretlandi.

Þar hafa þó menn rænu á að segja af sér en hér.

Skömm og aftur skömm yfir skefjalausu drambi þessa fólks.

Jæja,ég þakka góða grein hjá þér.

Þórarinn Þ Gíslason (IP-tala skráð) 27.9.2008 kl. 04:54

2 Smámynd: Jón Valur Jensson

Erum við "með varnarsamning við þá [Bandaríkjamenn]," og hvað kemur það þessu máli við, Gísli Tryggvason? Ertu að gera því skóna, að við eigum að nota varnarsamninginn sem skiptimynt, þ.e.a.s. uppsögn hans sem hótun í hendi til að þrýsta á um, að Bandaríkjamenn láti seðlabanka sinn veita okkur úrlausn? Það gæti nú tekizt jafn óhönduglega til og þegar síðasta ríkisstjórn fór að viðra hótanir við Bandaríkjamenn um uppsögn varnarsamningsins frá 1951, og sitjum við nú varnarliðslaus eftir!

Svo má líka vera, að merking þín sé sú, að við eigum að minna Bandaríkjamenn á það, hve mikil vinaþjóð þeirra við séum, eins og varnarsamningurinn sé dæmi um og 60 ára varnarsamstarf okkar, og það er svo sem gott og gilt (og þó hálf-holur hljómur í því um leið vegna Bandaríkjahaturs allmargra). En þurfa þeir nokkuð á því að halda að vera minntir á þetta, og kemur það málum seðlabanka þeirra við? Varla af því að Bandaríkin skuldi okkur eitthvað í peningamálum, því að við græddum á þeim ótæpilega, en þeir báru nánast allan kostnaðinn. Má jafnvel minna málsvara neytenda á, að varnarstöðin átti um visst árabil á 6. og 7. áratugnum (eins og dr. Valur Ingimundarson hefur rakið) umtalsverðan þátt í hagvexti hér á landi og þar með í bættum kjörum almennings.

Með góðri neytandakveðju,

Jón Valur Jensson, 27.9.2008 kl. 15:02

3 identicon

Voru þeir ekki með varnir í sína þágu, á okkar landi.

Okkar land er dýrmætt, að minnsta kosti í öðru hverju orði. Og Miðnesheiðin Hvalfjörðurinn og hinir og þessir staðir útum allt land, sem þeir lögðu undir sig og skildu svo eftir með hættulegum spilliefnum í jörðu. sprengjum um allt á Reykjanesinu. Þetta var allt okkar framlag. Þó þeir hafi gefið okkur einhverja atvinnumöguleika í staðinn, þá var orðspor okkar í útlöndum það að við værum hersetin þjóð.

Ekki sjálfstæð þjóð í verki, fyrr en þeir fóru. Þeir þoldu okkur ekki neina gagnrýni á meðan veru þeirra stóð.

Sigrún Jóna (IP-tala skráð) 27.9.2008 kl. 15:51

4 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Góð færsla, Tryggvi.  Ríkisstjórnin og Seðlabankinn þurfa að annað hvort að sanna að þessir aðilar séu starfi sínu vaxnir eða að segja af sér og hleypa öðrum að sem treysta sér til að taka á vandanum.

Marinó G. Njálsson, 27.9.2008 kl. 19:24

5 Smámynd: Hvíti Riddarinn

thetta er nu ekki fallega skrifad eg er bara i frii med fjolskyldunni og ad sjaflfsogdu langar mig heim aftur.

Kv.Geiri

Hvíti Riddarinn, 27.9.2008 kl. 22:28

6 Smámynd: Hvíti Riddarinn

hvernig er thetta ma madur ekki skreppa i solina med fjolskylduna an thess ad thu thurfir ad ibba kjaft?

Kv.Geiri

Hvíti Riddarinn, 27.9.2008 kl. 23:33

7 Smámynd: Jón Valur Jensson

Hvenær ertu fædd, fr. Sigrún Jóna? Ekki virðistu muna langt, svo mikið er víst, því að hér hefur verið málfrelsi til að tala illa um Bandaríkjamenn og Varnarliðið allt frá upphafi – eins og sumir halda áfram eftir á. Þar að auki er það í lagasafninu, að við berum líka ábyrgð á frágangi herstöðva, verði þær yfirgefnar. Og á Miðnesheiði kom í ljós, að mengunin var mun minni en menn höfðu sumir óttazt. Reyndu ekki að búa til nýjar goðsagnir fyrir varnarleysissinna til að nærast á, það er aumt og ekki valkostur hnarreistra manna. Þar að auki mættirðu þakka Bandaríkjamönnum vörn þessa lands (og björgun á 4. hundrað manns úr lífsháska) meðan alræðisríkið í austri var þess albúið að stækka veldi sitt, koma upp nýjum árásarflaugum nær Bandaríkjunum (eins og það gerði á Kúbu) og hefja nýtt 'landnám' með því að valta yfir aðrar þjóðir (eins og það gerði í stríðslok í Evrópu og 1979–89 í Afganistan) ásamt útþenslustefnu víðar (eins og í Eþíópíu). En blindni sumra á staðreyndir er þeim of samgróin til að geta séð þetta í réttu ljósi, og því er það lengsta, sem þeir ganga í átt til réttsýni, að jafna Sovétríkjunum við Bandaríkin, þótt reyndar sé alls ólíku saman að jafna.

Jón Valur Jensson, 27.9.2008 kl. 23:42

8 Smámynd: Calvín

Hafðu þökk fyrir þennan kjarnyrta pistill sem segir það sem segja þarf Gísli. Vonandi hlusta þeir sem þurfa að hlusta og taka til hendinni.

Calvín, 28.9.2008 kl. 00:05

9 Smámynd: Anna

Það var nú hvíslað að mer í Bandaríkjunum fyrir stuttu að þeir eru nú kannski að leggja aftur jörð undir fót. Því menn í Sovétríkjunum hafa eitthvað verið að ibba sig við þá....................það væri þó aldrei?

Anna , 28.9.2008 kl. 17:08

10 Smámynd: Gísli Tryggvason

Takk fyrir undirtektirnar og ábendingarnar; varnarsamningurinn er auðvitað ekki (bein)tengdur þessu máli en síðari tilgáta Jóns Vals var nær meiningu minni.

Gísli Tryggvason, 28.9.2008 kl. 17:45

11 Smámynd: Anna

Nei það er satt. En við fórum nú ekki að flytjast úr moldarkofanum fyrr en Bandaríkjamenn stigu her á land og greiddu ríkinu óhemju peningar fyrir að fá að vera her. Þá fór Reykjavik fyrst að byggjast upp í borg og nóg vinna. Þeir fóru að mer skils vegna þess þeir eru að skera niður og hafa lokað margar NATO herstöðvar um heiminn og lika það var engin þörf á okkur lengur. En segðu mer annað hefur þú heyrt að þeir voru að fljúga með vopn ígegnum landhelgi Íslands 1974. Og íslenska ríkið fékk óhemju fé fyrir.

Anna , 28.9.2008 kl. 18:14

12 Smámynd: Sveinn Tryggvason

Sæll bróðir. Fínn pistill sem hlýtur verðskuldaða athygli þótt ekki sé ég sammála þér um allt frekar en fyrri daginn :) Við getum ekki kvartað yfir því að Geir hafi setið aðgerðarlaus síðan hann kom heim.   Þvílíkur dagur!

Sveinn Tryggvason, 29.9.2008 kl. 21:25

13 Smámynd: Gísli Tryggvason

Takk. Já þetta er búinn að vera viðburðaríkur sólarhringur. Forsætisráðherra hefur sennilega verið á leið heim á föstudagskvöld eða laugardagsnótt þegar ég skrifaði og birti pistilinn eftir dræm svör sem ég vísaði til en síðan hefur helgin heldur betur verið viðburðarík - hver sem átti frumkvæðið, heiðurinn og sökina og fleira sem deilt verður um í framhaldinu. Ætla að reyna að tjá mig eitthvað um það út frá hagsmunum og réttindum neytenda í kjölfarið.

Gísli Tryggvason, 29.9.2008 kl. 23:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband