Færsluflokkur: Spaugilegt

Ekki óbeinar auglýsingar hjá mér

Ég hef lengi - jafnvel áður en ég var skipaður talsmaður neytenda - verið viðkvæmur fyrir því að vera (jafnvel fyrir mistök) talinn auglýsa - óbeint - tiltekin fyrirtæki; kannski er þessi viðkvæmni mín "ættuð" frá því að ágætur iðnaðarmaður, sem ég vann með á unglingsárum, gerði grín að mér fyrir að eyða meira en dagskaupi í ómerkilegan bol - sem auk þess bar áletrun sem var ekkert annað en auglýsing fyrir eitthvert tískumerki. 

 

Þessi viðkvæmni mín fékk spauglegar afleiðingar í fyrra - í báðum tilvikum í ágúst.

 

Í öðru tilvikinu - sem ég á meðfylgjandi mynd við - var ég á leið á Austurvöll eftir hátíðarhöld samkynhneigðra enda gott veður og ég barnlaus þá helgi og hafði ekkert betra að gera en að njóta lífsins í góðviðrinu þann dag - en missti reyndar af göngunni sjálfri enda var ég óvenju seinn og bíllaus og vildi koma við í sundi. Ég átti, að því er virðist, aðeins einn hreinan bol og hann var merktur fjármálafyrirtæki sem ég var í viðskiptum við á háskólaárunum. Ég taldi mig ekki geta verið þekktur fyrir það, sem talsmaður neytenda, að mæta í bol merktum fyrirtækinu eftir sundið. Því var mitt fyrsta verk í miðborginni þennan sólríka dag að fara í verslun og kaupa næsta tiltækan bol þar - rúnum skrýddan eins og sést kannski á myndinni undir gay-hálsbandinu sem vinkona mín hengdi á mig.

 

Hitt atvikið get ég kannski upplýst um síðar ef finn myndefni við það.DSC05171


Hallelúja - því ég ruglaðist á Guðshúsum

Ekki svo að skilja að ég  hafi sótt mosku eða synagógu í morgunsárið enda veit ég reyndar ekki hvort - eða hvar - slík tilbeiðsluhús er að finna á Íslandi ennþá (og hefði ég þá væntanlega ritað lokaorðið í fyrirsögn þessarar færslu með litlum staf). Nei, ég hugðist í anda athugasemda við þessa færslu og í tilefni 25 ára fermingarafmælis míns nú í mars prófa það í fyrsta skipti á ævinni að fara í messu kl. 8 á páskadagsmorgun í minningu kvennqanna sem vitjuðu tómrar grafar Jesú á páskadag. Alveg síðan ég bað móður mína að fara með mig í kirkju í kringum 6 ára aldurinn til þess að syngja sálma hefur mér þótt gaman að syngja, bæði sálma og annað; kannski ætti ég loks að láta verða af því að ganga í kirkjukór - en hvaða kirkjukór?

 

Þá hafði ég góða reynslu af því að hafa fyrsta sinni reynt aftanmessu á aðfangadag í fyrra og hafði nú aftur mælt mér mót við foreldra mína í messu - í fermingarkirkju móður minnar, Laugarneskirkju. Ég vaknaði því óvenju snemma og borðaði síðan létt í ljósi þess að boðið væri upp á árbít eftir messu. Ég fann kirkjuna furðu fljótt miðað við að hún er í eina hverfinu í Reykjavík þar sem ég missi alltaf áttir - sennilega vegna þess að ekki sést til fjalla sem ég get miðað við eins og ég er vanur norðan úr Eyjafirði.

 

Ég taldi mig nokkuð góðan að mæta innan við fimm mínútum of seint eftir greiðan akstur í morgunsárið en sá ekki foreldra mína og settist því til að byrja með framarlega í kirkjuna; skömmu síðar rann upp fyrir mér ljós. Ég hafði - svefndrukkinn en sennilega ekki vegna óstundvísi eða óratvísi - ruglast á kirkjum með sama upphafsstaf. Ég var mættur í fermingarkirkju fyrrverandi konu minnar, Langholtskirkju.

 

Ekki var ég svikinn og auðvitað fannst mér ég ekki á röngum stað enda messaði séra Jón Helgi Þórarinsson vel og Kór Langholtskirkju er jú einn sá fremsti undir stjórn Jóns Stefánssonar og með fallegum einsöng Ólafar Kolbrúnar Harðardóttur. Í lokin - eftir altarisgöngu - nutum við svo afar fallegs kórsöngs: Hallelújakórinn úr Messías eftir Händel (eða Handel eins og stendur í úthendinu).

 

Svo var mjög gott súkkulaði og fínt meðlæti á eftir; í kjölfarið mætti ég í fyrsta skipti fyrstur í sund.

 

 Gleðilega páska.

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband