Gengið: IKEA og neytendur - brostnar forsendur eða lokun! Hvað með íbúðarlánin?

Verðið í vörulistanum gildir til 15. ágúst 2009,

segir á forsíðu IKEA-bæklingsins frá í haust - rétt eins og í fyrra sagði: á sama stað

Verðið í vörulistanum gildir til 15. ágúst 2008.

 

Fyrirvari um gengisbreytingar eða aðrar forsendubreytingar er ekki auðfundinn í bæklingnum - en forsendur geta breyst í litlu hagkerfi eins og við Íslendingar þekktum á árum áður og nú af sárri reynslu; því er eðlilegt að neytendur spyrji sig hvort um sé að ræða eðlilega viðskiptahætti eða óheimilt rof á ofangreindri yfirlýsingu þessa alþjóðafyrirtækis.

 

Almennt verða fyrirtæki á borð við banka, tryggingarfélög, tímaritaútgefendur og orkufyrirtæki að teljast bundin af samningum (og samningsígildum á borð við opinberar yfirlýsingar um viðskiptakjör) til langs tíma - sem lögfræðingar nefna viðvarandi samninga (þ.e. annað hvort ótímabundnum samningum þar til þeim er sagt upp eða tímabundnum samningum til tiltekins tíma, t.d. til 31. desember 2008 eða til 3ja mánaða frá upphafsdegi). Slíkum samningum verður ekki breytt nema í samræmi við skilmála og almennar reglur neytendamarkaðsréttar - og þá með formlegri tilkynningu til hvers og eins neytanda og með hæfilegum fyrirvara eins og ég hef í embættisnafni gætt, formlega og óformlega.

 

Í venjulegum vestrænum ríkjum mætti telja rétt að leggja formlegt mat á hvort slík yfirlýsing um afturköllun verðstefnu af hálfu fyrirtækis á borð við IKEA stæðist almennar reglur neytendamarkaðsréttar.

 

Hvað gerir talsmaður neytenda þá?

 

kunna einhverjir að spyrja sig.

 

Ég tek fram að yfirleitt leitast ég við að nefna ekki tiltekin fyrirtæki - hvorki hér á neytendablogginu né á vefsíðu talsmanns neytenda nema að undangengnum samskiptum við þau og eftir málalyktir enda eðlilegt að þau njóti eins konar andmælaréttar áður en fjallað er um þau í embættisnafni. Hér virðist mér hins vegar í fljótu bragði ekki auðvelt að efast um lögmæti - og jafnvel réttmæti - þeirrar einhliða (en að vísu fyrirvaralausu) ákvörðunar IKEA að víkja frá áralangri yfirlýstri stefnu um bindandi verð heilt ár fram í tímann. Fyrirvarann - 1 dag - má reyndar efast um.

 

Á hinn bóginn má hugsanlega réttlæta þessa óvenjulegu yfirlýsingu með því að hér er vikið frá

  • óhefðbundnum og neytendavænum viðskiptaháttum miðað við íslenskar aðstæður - þar sem flest allt hefur annars vegar áratugum saman verið verðtryggt, vísitöluháð og breytingum undirorpið,
  • í einstökum viðskiptum hverju sinni en ekki viðvarandi samningum samkvæmt framangreindu og
  • vegna sérstakra aðstæðna á gengismarkaði á sama tíma og réttnefnd neyðarlög hafa verið sett vegna hamfara á fjármálamarkaði.

 

Það, sem IKEA kann m.ö.o. að geta borið fyrir sig ef einhver neytandi vill byggja á bindandi gildi yfirlýsingarinnar hér í upphafi um bindandi verð rúmlegan meðgöngutíma fram í tímann, heitir á lagamáli "force majeure." Undir það falla að jafnaði utanaðkomandi atburðir sem samningsaðilar (t.d. fyrirtæki og neytandi) hafa ekki áhrif, hvað þá stjórn á, svo sem verkföll, borgarastyrjaldir, stríð og annað (svo sem e.t.v. beiting hryðjuverkalöggjafar gagnvart íslensku fyrirtæki og jafnvel heilu samfélagi óbeint).

 

Ég er, sem sagt, því miður ekki frá því að algert og fremur óvænt gengishrun undanfarið ár geti fallið undir "force majeure;" þess vegna er málstaður IKEA ekki erfiður að verja og réttur neytenda gagnvart fyrirtækinu ekki augljós í kjölfar þesarar skyndilegu breytingar þó að ég hefði, sem sagt, að vanda talið lengri fyrirvara eðlilegan.

 

Kjarni málsins - og hið alvarlega álitamál fyrir neytendur, kröfuhafa og efnahagskerfi landsins - er að mínu mati að neytendur geta hugsanlega borið fyrir sig sömu röksemd - og það með meiri rétti þar sem um er að ræða viðvarandi samninga: Þeir neytendur sem skulda "verðtryggðar" krónur eða eru ábyrgir fyrir íbúðar- og bílalánum í erlendri mynt geta þá ekki síður borið fyrir sig sömu röksemdir:

 

Brostnar forsendur og force majeure.

 

Á því byggi ég sem talsmaður neytenda væntanlegar tillögur til stjórnvalda um neyðarlög í þágu neytenda vegna íbúðarlána á næstunni - eins og ég rakti fyrir viðskiptanefnd Alþingis á fundi sl. mánudag.

 

Á mannamáli getur maður sagt eins og IKEA: annað hvort er verðinu breytt eða við (heimilin) lokum.


mbl.is Verðhækkanir í IKEA
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Haraldur Bjarnason

Hvað gera svona orð. Við búum líka við það að bankarnir okkar gera greiðsluáætlun um hver áramót og miðað við hana er tekið út af reikningum. Nú er allt í einu komin 16% verðbólga en í byrjun árs var miðað við 5% verðbólgu. Þá hækkar bankinn greiðslujöfnuina sem því nemur en launin hækka ekki. Þegar svo kemur í ljós að mínus er í mánuði núna af því að bílalán hækkaði um 100% og íbúðalán um 20% þá leggur bankinn á 26% vexti af mismuninum. Stýrivexstir eru háir en þó 18%. Er þetta rán? Ég man eftir að menn voru dæmdir fyrir okur á sjöunda áratugnum. Það voru 10% vextir. Þetta er það sama.

Haraldur Bjarnason, 6.11.2008 kl. 22:01

2 Smámynd: Gísli Tryggvason

Góður punktur, Haraldur. Okrið var þó tilteknir vextir en í dag er gengishrunið og verðtryggingin alveg án takmarkana - nema forsendubrestur eigi við eins og ég bendi á.

Gísli Tryggvason, 6.11.2008 kl. 23:41

3 Smámynd: Þorsteinn Ásgeirsson (Icerock)

Sauðsvartur almúginn hefur nú þurft að þola fjöldauppsagnir í atvinnulífinu sem eru rétt að byrja, launaskerðingu, styttingu vinnutíma, óðaverðbólgu gengisfellingu, gjaldeyris skömmtun og ýmislegt fleira sem skerðir lífsgæði okkar verulega.

Forsætisráðherrann hefur ávarpað þjóðina og hvatt hana til dáð til að taka á þessum hörmungum sameiginlega, nú allt gott og blessað með það.

Stór hluti af þessu fólki skuldar og skuldar og hefur spurt: en hvað með verðtryggðu skuldirnar, ! á að koma til móts við okkur.

Forsetisráðherra svaraði: nei það er ekki hægt því þá tapa lífeyrissjóðirnir peningum þið verðið bara að taka á honum stóar ykkar og borga. !

Ég spyr af hverju geta lífeyrissjóðirnir ekki tekið á sig áföll eins og allir sem búa á þessu skeri.

Þorsteinn Ásgeirsson (Icerock), 6.11.2008 kl. 23:57

4 Smámynd: Gylfi Björgvinsson

Góður pistill hjá þér Gísli.

Ég hef verið að velta upp hvort ekki sé hægt að breytra vísitölu húsnæðislána þannig að hún verði  bundin markaðnum  það er viðfangsefninu þannig mundi eignaprósentan haldast þó sveiflur verði. Eins er ofur eðlilegt að lán sem lánuð eru til ákveðina hluta í þessu tilfelli til íbúðakaupa  sveiflist með markaðverði  íbúða.

Gylfi Björgvinsson, 7.11.2008 kl. 10:52

5 Smámynd: Gylfi Björgvinsson

Góður pistill hjá þér Gísli...... Ég  hef verið að velta því upp  hvort ekki sé hægt að tengja vísitölu húsnæðislána markaðnum, þannig mundi lánin  og verðmæti eigna sveiflast saman og eignahlutur íbúðaeiganda haldast.   Eins og þetta er núna  stefnir þetta í hreina eignaupptöku og þrot þúsunda heimila í landinu það verður eitthvað að gera í þessu máli.

Gylfi Björgvinsson, 7.11.2008 kl. 14:42

6 Smámynd: Gísli Ingvarsson

Það var einhver í sjónvarpinu í gær, kona, en svona tek ég illa eftir að ég man ekki hvað hún heitir, sagði mjög skilmerkilega frá því að ef 7 - 12% skuldunauta bankanna gætu ekki gert upp mánaðargreiðsur sínar myndi eiginfé bankanna þverra mjög hratt og þeir enda í greiðsustöðvun sjálfir. Þetta á við þá banka sem nú heita Nýi eitthvað. Það er því greinilega mjög brýnt að skuldunautar bankanna lendi ekki í greiðsuvandræðum á næstunni sem nemur eiginfé bankanna.

Þá þarf að stofna Nýja Nýja banka.

Gísli Ingvarsson, 7.11.2008 kl. 14:47

7 Smámynd: Gísli Tryggvason

Takk fyrir ábendingarnar og fyrirgefiði síðbúið svar (sem orsakast af því að ég lengi ekki getað bloggað úr skrifstofutölvunni). Ég hef hliðsjón af þessu þegar ég reyni að finna efasemdum mínum um réttmæti og jafnvel lögmæti verðtryggingar farveg. Nú þegar ég hef talað um þær efasemdir annað slagið í um 3 ár eru loks málsmetandi hagfræðingar farnir að tala í sömu átt - en án hagfræðilegra röksemda er erfitt að finna lausn á málinu. Sömuleiðis finn ég fyrir vaxandi andróðri þeirra sem vilja tryggja óbreytt ástand hvað svonenfda verðtryggingu varðar.

Gísli Tryggvason, 7.11.2008 kl. 21:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband