"Samband sjálfstæðra Evrópuríkja"

Síðdegis naut ég þess í skammdegiskreppunni að samfagna með gömlum félögum úr Bandalagi háskólamanna þegar haldið var upp á 50 ára afmæli samtakanna sem ég var framkvæmdarstjóri og lögmaður fyrir í tæp 7 ár. Þar voru fluttar fjölmargar einstakar og óvenjulega hrífandi og hvetjandi ræður, sem ég hefði viljað að væru teknar upp - til að hlusta á aftur og fyrir alla þá sem misstu af þeirri miklu "inspiration." Þarna var háskólafólk allt frá 89 ára gömlum frumkvöðlinum Ármanni Snævarr og dóttur hans, Sigríði, sem stýrði málþinginu af hugljúfri og vel undirbúinni snilld og yfir í yngra forystufólk.

 

Ekki skal ég freista þess að endursegja þau ótalmörgu gullkorn sem féllu eða miðla hughrifunum af fundinum en eitt stikkorð fannst mér snjallt - og eiga erindi til neytenda - hjá síðasta fyrirlesaranum, Guðmundi Steingrímssyni varaþingmanni sem hvatti Íslendinga til að ganga til liðs við "Samband sjálfstæðra Evrópuríkja." Það fundust mér orð að sönnu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hjörtur J. Guðmundsson

Samband sjálfstæðra Evrópuríkja? Er það Evrópusambandið? Ef aðildarríki Evrópusambandsins eru í raun sjálfstæð, hvaðan koma þá hið gríðarlegu og sívaxandi völd hinna ýmsu stofnana sambandsins (sem eru flestar meira eða minna sjálfstæðar gagnvart aðildarríkjunum) yfir nánast öllum sviðum aðildarríkjanna? Það er deginum ljósara að ef aðildarríki Evrópusambandsins væru í reynd sjálfstæð væru þessarar stofnanir sambandsins svo gott sem valdalausar. Þessi gríðarlegu völd urðu ekki til úr engu. Þau voru áður hluti af fullveldi aðildarríkjanna en eru það ekki lengur.

Hjörtur J. Guðmundsson, 24.10.2008 kl. 13:54

2 Smámynd: Gísli Ingvarsson

Ég verð að afsaka mig að ég er áhugamaður um að íslenska þjóðin skoði aðild að ESB. Það er samt frekar nýtt að mér finnist við eiga erindi þangað. Íslensk stjórnvöld hafa hinsvegar sannfært mig að þjóðin þarf aðra leiðsögn en stjórnmálamenn lýðveldisins hafa veitt henni.

Þeir sem andæfa því mest telja 1) fullveldinu afsalað og líkja því við að "gangast á hönd noregskonunga" og 2) að smáríki hafi ekkert atkvæðavægi í slíkri risa-samsteypu og 3) að ESB stefni í að verða Bandaríki Evrópu (USE) sem mun annað hvort hljóta örlög Sovét eða USA amk verða óskapnaður og afneita  sögulegri ímynd álfunnar sem fjölþjóðlegri og sundurleitri en þar í felist styrkur hennar og sköpunarkraftur og síðan 4) íslenskar náttúruauðlindir, kvótakerfi og fiskveiðistjórnun.

Ég ætla ekki að svara sjálfum mér hér að ofan en allt er þetta áhætta sem fylgir lífinu og verandi þátttakandi í stjórnmálum líðandi stundar og getur varla verið meira áhyggjuefni okkar en t.d. Spánverja.

Í stuttu máli er ég ekki hræddur um að fjölþjóðlegt samstarf innan ESB með reglum, höftum og skyldum muni í sjálfu sér knésetja íslendinga.

Mér stafar meiri ógn af íslendingnum í okkur í slíku samstarfi. 1) hégómagirndin sem fulltrúar okkar fá í slíkum vegsauka verður þeim sennilega ofviða. Þar kemur smáþjóðareinkenni okkar fram fyrst í 2) oflæti/sýndarmennska gagnvart jafningjum líka meðal annara þjóða og með því 3) fálætið gagnvart þörfum og kjörum þjóðarinnar sem þeir eru fulltrúar fyrir. Þetta þrennt og etv fleira hef ég að sönnu reynt hjá bankastjórum og útræsingum.

Vissulega geta íslendingar lært en það er ekki hægt að senda fólk á námskeið erlendis í lýðræði og siðmenningu sem kosta okkur frekari álitshnekki en orðið er. Ég er svona rosalega smáborgaralegur!

Mín niðurstaða er þessi: ESB stendur okkur opið. Við höfum ekki menntun (þá er ég ekki að vísa til enskukunnáttu og þess háttar) til að takast á við tækifærin sem þar bjóðast okkur.

Við munum því velja að standa fyrir utan og áfram lesa hneyksluð um það sem gerist útí hinum stóra heimi fullviss um að ágæti okkar felist í því að eiga þar engan hlut að máli.

Gísli Ingvarsson, 26.10.2008 kl. 18:08

3 Smámynd: Jón Aðalsteinn Jónsson

 Nú erum við ósammála kæri bloggvinur  en það er réttur okkar í frjálsu sjálfstæðu lýðræðisríki.

Jón Aðalsteinn Jónsson, 26.10.2008 kl. 22:20

4 Smámynd: Gísli Tryggvason

Sælll frjálshyggjumaður, frændi og félagi.

Jú rétt til getið "Samband sjálfstæðra Evrópuríkja - allt frá Frakklandi til Búlgaríu og Finnlandi til Möltu - er réttnefni að mínu nafni yfir Evrópusambandið - ekki evrópska sambandsríkið; með aðeins meira framsali lögfræðilegs fullveldisréttar frá Íslandi en það, sem tók gildi með aukaaðild Íslands að ESB 1. janúar 1994 (án áhrifa), myndi Ísland öðlast fulla aðild - og þar með meira pólitískt sjálfstæði en nú er. Þar verða áhrif okkar í samræmi við þarfir og getu landsins.

Ég deili sumum áhyggjum nafna míns og frænda og flestum væntingum hér að ofan en tel reyndar að æskileg aukaáhrif ESB-aðildar væri aukin lýðræðis- og réttarríksvæðing þessa unga bændasamfélags okkar sem býr ekki að sömu borgaralegu grunngildum og rótgrónari menningarþjóðir austan hafs og vestan eins og ég get rökstutt með dæmum ef einhver lesandi telur þörf á.

Eitt af því er það sem félagi minn hér að ofan bendir á að við njótum báðir.

Gísli Tryggvason, 27.10.2008 kl. 21:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband