Þriðjudagur, 19. maí 2009
Dregið verður úr vægi verðtryggingar
Í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, sem ég hef fjallað um undanfarna 10 daga m.t.t. neytendamála er þessa setningu að finna:
Dregið verði úr vægi verðtryggingar í lánaviðskiptum samhliða auknu framboði óverðtryggðra íbúðalána.
Þetta er að mínu mati elsta, stærsta og ótvíræðasta hagsmunamál neytenda á Íslandi - en tengist að mati margra sérfræðinga í hagfræði og stjórnvísindum aðild að ESB.
Sumir hafa sagt ómögulegt að afnema eða takmarka verðtryggingu nema með upptöku evru - og þá væntanlega í gegnum aðild að ESB og hafa hafnað efasemdum - mínum sem annarra - um réttmæti verðtryggingar með þeim rökum.
Aðrir hafa haldið því fram að verðtrygging verði endanlega - og sjálfkrafa - úr sögunni með ESB- og evruaðild.
Hvað sem þeim röksemdum eða spádómum líður hefur þetta lengi verið eitt helsta áhyggjuefni mitt fyrir hönd neytenda en ennþá hef ég ekki fundið lausnarmiðaða leið til þess að takast á við vandann með þeim takmörkuðu úrræðum og valdheimildum sem talsmaður neytenda býr yfir. Ein ástæðan er trú hagfræðinga og annarra sérfræðinga almennt - a.m.k. fram að bankahruni - á réttmæti verðtryggingar!
Ein hugmyndin, sem ég hef kannað lauslega með sérfræðingum og reifað óformlega (m.a. á fundi hjá Hagsmunasamtökum heimilanna nú í kvöld), er að leita úrlausnar hjá eftirlitsaðilum EES - svo sem Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) um réttmæti og lögmæti þess að flest neytendalán á Íslandi - þ.m.t. íbúðarveðlán - séu samkvæmt stöðluðum samningum tengd lögvarinni vísitölu neysluverðs sem ríkisstofnun reiknar út frá verðbreytingum - auk hárra vaxta. Með því er öll áhættan (ekki aðeins hluti hennar) af óvissum atburði - verðþróun utan áhrifamáttar einstakra neytenda - sett á veikari aðilann í samningssambandinu, þ.e. neytandann.
Í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir einnig um málsmeðferð - og takið eftir að þar segir (eins og felst í upphafstilvitnuninni að framan) "hvernig" - ekki hvort):
Jafnframt verður óskað eftir mati Seðlabankans á því hvernig best verði dregið úr vægi verðtryggingar í íslensku efnahagslífi.
Flokkur: Viðskipti og fjármál | Breytt 20.5.2009 kl. 00:13 | Facebook
Athugasemdir
Þau eru nú ekki opnari fyrir breutingum á verðtryggingunn en svo að Ögmundur Jónasson er til í að hækka greiðslubyrði mína á íbúðaláninu með því að búa til sykurskatt. Bara burtu með verðtrygginguna Jón Frímann hún gerir ekkert annað en að verja peninga og eignamenn og vaxtastefnan er manngerð, þaðá bara að festa gengið og vextina, það þarf enginn að græða meira en honum dugar.
Högni Jóhann Sigurjónsson, 20.5.2009 kl. 11:36
Merkilegur andskoti hvað talsmaður neytenda missir gersamlega heilbrigða skynsemi - já, næstum ráð og rænu - þegar hann fjallar um verðtryggingu.
Merkilegur andskoti hvar annars greindur talsmaður neytenda getur missti sig í rökleysunni þegar verðtrygging er annars vegar.
Merkilegur andskoti að Talsmaður neytenda vill skerða samningsfrelsi í lánamálum með þráhyggju sinni gagnvart eðlilegri verðtryggingu íslensku krónunnar sem er forsenda fyrir tilvist krónunnar - sem reyndar er ónýt.
Merkilegur andskoti hvað Talsmaður neytenda berst fyrir hærra raunvaxtastigi með því að vilja afnema samningsfrelsi verðtryggingu lána.
Merkilegur andskoti að Talsmanni neytenda skuli hafa dottið í hug að gera sjálfan sig að fífli með því að ætla að leita til ESA vegna verðtryggingar - mál sem fyrirfram er 99.9% örugglega tapað.
Vandamálið er nefnilega ekki verðtrygging krónunnar - heldur verðbólgan - og ónýt króna.
Hallur Magnússon, 20.5.2009 kl. 18:18
Merkilegur andskoti Hallur hvað lánin mín hafa hækkað út af verðtryggingunni.
Merkilegur andskoti hvað ég þarf að greiða mikið fyrir þessa tryggingu.
Steinarr Kr. , 20.5.2009 kl. 20:24
Gísli, þú vinnur greinilega fyrir laununum þínum svo ég tali nú ekki um góðar greinar hjá þér.
Vandamálið er nefnilega ekki verðtrygging krónunnar - heldur verðbólgan - og ónýt króna, segir hann Hallur Magnússon.
Ég man árið og árin eftir upphaf verðtryggðu krónunnar. Verðtryggingin átti að leysa flest vandamál "krónunnar", auka sparnað og stuðla að minni verðbólgu. Ekkert af því hefur gengið eftir. Reyndar töluðu margir ráðamenn um að "verðtryggingin" væri tímabundin lausn á meðan verið væri að "ná tökum" á verðbólgunni. Ég man árin um og eftir 1980 þegar "verðbólgan" fór yfir 120 %
Þá voru margir þegar farnir að efast um "verðtryggingarlausnina", enda bættust fleiri vandamál við en að þeim fækkaði. "Snjallir menn tengdu öll þessi "ósköp" við launavísitöluna og töldu fáránlegt að laun hækkuðu á Íslandi í takt við "innfluttar vörur". Auðvitað var vísatala launa afnumin, það var gert með einu pennastriki. Ástandið varð skuggalegt hjá mörgum fjölskyldum á þessum árum og ég hugsa, á þessari stundu, til fólks sem flutti á þessum árum til Noregs og fleiri landi og veit að þær fjölskyldur koma ekki aftur til Íslands. Flestar fjölskyldurnar eru löngu búnar að koma yfir sig húsnæði í þeim löndum og fengu þar "eðlilega lánafyrirgreiðslu," eitthvað sem við þekkjum varla á Íslandi 
Verðtryggingin er "skrímsli í íslensku hagkerfi" og því bráðnauðsynlegt að afnema hana strax.
Páll A. Þorgeirsson, 20.5.2009 kl. 22:22
Það má með einhverjum rökum halda því fram að báðir hafi nokkuð til síns máls.
Ég er sammála því að fella verðtryggingu lána út en á allt öðrum forsendum en Hallur talar um.
Ef engin verðtrygging væri, þá bitu háir og hækkandi vextir strax og vandamálin kæmu upp strax. Verðtrygging lána er deyfilyf sem dregur sjúklinginn að lokum til dauða, vissulega á lengri tíma en háir óverðtryggðir vextir en sami dauðinn.
Þar sem laun eru ekki verðtryggð þá liggur þar einn þátturinn sem þér yfirsést Hallur; í fordæmingunni að mínu litla viti. Verðtryggið allt og allir fara á hausinn með pomp og prakt í víxlhækkunum en ekki bara skuldarar.
Það er meðal annars núverandi fyrirkomulag og umfang verðtryggingar sem veldur usla.
Fyrir ekki löngu fóru þeir sem ekki greiddu skuldir sínar í skuldafangelsi. Í dag eru frakkar að fara þá leið að skuldari getur lögsótt lánadrottinn fyrir að lána of mikið miðað við greiðslugetu. Varla verður nokkur maður að fífli sé horft til Frakklands í þessu efni nema það sé hlegið að þeim líka.
Eitt stórt atriði í þessu, í USA (og ugglaust fleiri ríkjum) getur kröfuhafi aðeins krafist veðsins, hvort sem það er bifreið eða fasteign. Þar liggur rót ein vandans hér meðal annars að tryggingar kröfuhafa ná langt út fyrir þessi mörk. Þar verður verðtryggingu ekki kennt um. Einhver kröfuhafi kynni að feta slóðina með meiri varúð í slíkum kringumstæðum. Er þá ekki eitthvað rangt í grunninn hérlendis, eitthvað sem verðtryggingu verður ekki kennt um?
Sem sagt það er hugsanlega ekki vertryggingin sem er vandmálið, það er ójafnvægi í verðtryggingu milli aðila sem hún veldur meðal annars, eitt verðtryggt annað ekki. Er vertrygging hvati lánastofnana til að draga úr þenslu? Varla. Spurningarnar eru fleiri.
En ég er sammála Tryggva um afnám verðtryggingar og get verið sammála Halli um að það sé rangt gefið.
En andskotinn er að vísu merkilegur en varla til að ákalla og þessi merkilegi andskoti getur gert mönnum upp skoðanir og skotið sjálfan sig í fótinn í leiðinni.
En fyrir alla muni, ekki ræða málið af viti frekar en ég
Annars er allt komið út fyrir skynsemismörk og þau módel sem við hagfræði eru kennd.
Jón Þorbjörn Hilmarsson, 20.5.2009 kl. 23:00
,,Efnahagsleg rök og sanngirni mæla með því að verðtrygging á lánum til heimilanna verði alfarið bönnuð."
- Jóhanna Sigurðardóttir 1996
http://www.althingi.is/johanna/greinar/safn/000017.shtml
Þórður Björn Sigurðsson, 21.5.2009 kl. 00:27
Heill og sæll Gísli
Afnám verðtryggingar eru nú ekki forgagnsverkefni nú. Þróun neysluvísitölunnar nú er að allt bendir til þess að höfuðstóll lána muni lækka á næstu mánuðum. Það er engin undirliggjandi verðbólga, heldur verðhjöðnun. Aðeins veiking krónunnar stuðlar nú að því að neysluvísitalan hækkaði örlítið milli mánaða. Spái lækkun í næsta mánuði og ef nú yrði gegnið í afnám verðtryggingar myndu vextir hækka, neytendum í óhag.
Það er alveg rétt að það var full ástæða að skoða afnám verðtryggingar á lán, en skellurinn er kominn og því bitnaði hann einungis á lántakendum, en ekki eins og í öðrum löndum bæði lántakendum og lánveitendum.
Baráttan nú ætti fyrst og fremst að vera að lækka stýrivexti umtalsvert.
Sigurður Þorsteinsson, 21.5.2009 kl. 08:08
Sæll aftur Gísli
Rakst á innlegg frá fá Halli Magnússyni, þar sem hann ákallar andskotann í sífellu. Þó að þetta sé sannarlega ekki rétti tíminn til þess að afnema vertryggingu, þá höfum við í Halli aðila sem virðist setja verðtrygginguna á stall. Svo klykkir Hallur út með að vandamálið sé verðbólgan, sem nú engin er. Hallur studdi hins vegar af alefli hækkun lána frá Íbúðalánasjóði á sínum tíma upp í 90% sem eit af alvarlgri mistökum í hagstjórn liðinna ára.
Sigurður Þorsteinsson, 21.5.2009 kl. 08:21
Einsog Hallur segir þá er vandamálið verðbólga.
Verðtrygging var talin leið á sínum tíma til að hamla við verðbólguþróun með óbeinum hætti um leið og hún átti að bæta þeim sem lánuðu rýrnun höfuðstóls. Málið var hinsvegar að hvorugt gerðist.
Verðtryggingarákvæði verkuðu frekar hvetjandi á verðbólgu og hátt vaxtastig var falið með langtíma samningum. Höfuðstóllinn var síðan hækkaður meira með þessum aðferðum en sanngjarnt var.
Hvernig? Jú 1. lagi Höfuðstóllinn A var verðbættur með þeim hætti að verðbæturnar B á hann urðu verðbættar líka. Það er A varð A+B og við þetta AB bættust svo verðbætur C sem gerði summuna ABC sem áfram verðbættist með bótunum D og svo framvegis. Þetta er í raun ekki það sem maður kallar verðbætur á höfuðstól heldur viðbætur á höfuðstól. Vextir eru "hóflegir " en alltaf reiknaðir af þesum viðbætta höfuðstól.
Framkvæmd og skilningur á hvað væri verið að verðbæta var sennilega óljóst oirðaður í lögum í upphafi og því auðvelt að nýta sér þennan misskilning á öllu saman til að græða sem mest.
Neytendur áttu hér aldrei neinn málsvara fyrr en Gísli Tryggvason kjarkmikill og góður drengur tekur málið á dagskrá. Í hildarleik skuldsetningabrjálæðisins er verðtryggingin bara eitt af stóru málunum en til framtíðar á hún engan rétt á sér enda tel ég að "góðir" menn í fjármálaheiminum skilji ekki þessa frábæru útlistun mína á í hverju "svindlið" felst enda langt síðan ég lærði algebru. En með góðum vilja til rökhugsunar geta menn áttað sig á meginatriðunum: Viðbætur á höfuðstól voru og eru ranglega "verðbættar"! Ef menn ná þessu ekki þá get ég ekki orðað þetta skírar og legg hér með árar í bát.
Svo hver er nú merkilegur andskoti Hallur minn?
Gísli Ingvarsson, 21.5.2009 kl. 09:31
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.