Neytendamál í stjórnarsáttmála

Ég held áfram að vekja athygli á neytendamálum í samstarfsyfirlýsingu nýrrar ríkisstjórnar en í gær var smá útúrdúr vegna frumkvæðis heilbrigðisráðherra til aukinnar neytendaverndar (barna) gagnvart sætum neysluvörum. Ítarlegasta umfjöllunin um neytendamál er eftirfarandi kafli er lýtur að umfangsmestu aðgerðunum í þágu neytenda sem fráfarandi minnihlutastjórn og ný meirihlutastjórn hafa þegar ákveðið og fengið samþykktar:

 

Greiðslu- og skuldavandi heimila

Djúp niðursveifla í kjölfar bankahrunsins hefur skapað misgengi á milli greiðslubyrði og greiðslugetu margra heimila í landinu. Þetta misgengi verður að leiðrétta með lækkun á greiðslubyrði þeirra sem verst standa þar til verðmætasköpun atvinnulífsins tekur aftur að aukast. Markmið ríkisstjórnarinnar er að koma í veg fyrir að tímabundinn greiðsluvandi leiði til vanskila og gjaldþrots, svo sem með hækkuðum og breyttum vaxtabótum og húsaleigubótum. Lykilatriði er að tryggja húsnæðisöryggi fjölskyldna og einstaklinga. Greiðslujöfnun sem nú nær bæði til verðtryggðra og gengistryggðra lána gerir kleift að laga greiðslubyrði að lækkandi tekjum. Þá gera ný lög um greiðsluaðlögun sem samþykkt voru á síðasta þingi það mögulegt að taka á vanda þar sem fyrirsjáanlegt er að greiðslu- og skuldabyrði verði skuldurum ofviða til lengri tíma litið. Loks gera frystingar greiðslna sem eru í boði hjá lánastofnunum heimilum kleift að bregðast við bráðavanda vegna skyndilegs tekjumissis. Ofangreindum úrræðum þarf að fylgja fast eftir.

 

  • Efnt verður til sérstaks kynningarátaks á þeim úrræðum sem heimilum í erfiðleikum standa þegar til boða.
  • Ráðgjafarstofa heimilanna verði efld enn frekar ef þörf krefur til að eyða biðlistum eftir viðtölum og aðstoð við endurskipulagningu á fjárhag heimila og fólks í vanda. Sérstaklega verði hugað að aðgengi íbúa á landsbyggðinni að þjónustu Ráðgjafarstöðvarinnar.
  • Skuldastaða heimila, greiðslu- og framfærslugeta verði til stöðugs endurmats sem og nauðsynlegar aðgerðir til að koma til móts við heimili í vanda.
  • Heildarmat á þörf fyrir frekari aðgerðir og tillögur í því efni verði unnar í kjölfar úttektar Seðlabanka Íslands á skuldum og tekjum heimila sem áætlað er að liggi fyrir í síðari hluta maímánaðar. Ákvarðanir um frekari aðgerðir og tillögur verði teknar í samráði við aðila vinnumarkaðarins.

 

Þarna er lýst frekari áformum um tilteknar aðgerðir og opnað fyrir endurmat á nauðsyn viðbótaraðgerða í þágu neytenda en meðal þeirra lausna sem lagðar hafa verið til er tillaga mín sem send var ríkisstjórninni fyrir tæpum þremur vikum og lesa má um nánar hér; í útdrætti fréttar um málið á vefsíðu talsmanns neytenda segir:

 

Talsmaður neytenda hefur sent forsætisráðherra tillögu með ítarlegum rökstuðningi fyrir því að taka beri öll neytendalán með veði í íbúðarhúsnæði eignarnámi og fela gerðardómi að leggja til niðurfærslu þeirra.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Tryggvi Helgason

Þarna í þessum fáu línum hér að ofan má finna mörg "gullkorn" í orðaglamri og merkingarleysi.

Svo sem; "djúp niðursveifla - skapað misgengi - lækkun á greiðslubyrði - sem verst standa - tímabundinn greiðsluvandi - vanskil - gjaldþrot - vaxtabætur - húsaleigubætur - lykilatriði að tryggja - greiðslujöfnun - greiðsluaðlögun - taka á vanda - skuldurum ofviða - frysta greiðslur - bregðast við bráðavanda - úrræðum þarf að fylgja fast eftir," - og svo framvegis !

Þarna eru bara valið helstu gullkornin, en gallinn er bara sá, að þetta er allt saman merkingarlaust bull og blaður, - fagurgali sem leysir engin vandamál.

"Greiðslu- og skuldavandi heimila" eins og sá vandi blasar við í dag, verður ekki leystur nema með því að afnema að fullu og öllu vísitölutryggingar og bindingar.

Þetta er það eina sem vit er í að gera, og í raun og veru það "eina" sem þarf að gera, - að mínu mati - til þess að koma efnahagsmálum Íslendinga á réttan kjöl, enn á ný. Og hversvegna er þetta þá ekki gert ? Hvað er í veginum, ég bara spyr ?

Staðreyndin er sú að þetta má gera á stuttum tíma. Alþingi gæti samþykkt nauðsynleg lög um þetta efni, jafnvel á einum eða tveimur dögum, - ef viljinn væri fyrir hendi, - en það virðist skorta viljann, eða, geta þingmenn ekki tekið sjálfstæðar ákvarðanir ?

Hvernig væri nú að þingmenn í stjórnarandstöðu tækju á sig rögg og flyttu frumvarp um þetta efni. Varla þurfa þeir sem eru í stjórnarandstöðu að sitja úti í horni og gera ekki neitt, - það er varla einkaréttur stjórnarliða að bera upp frumvörp.

Og með því að bera fram slíkt frumvarp til þess að kollvarpa vísitölutryggingunni, þá reynir á þingmenn stjórnarinnar og þá mun öll þjóðin sjá hverjir af þingmönnum vilji í raun taka á vandamálum heimilanna, svo og hverjir séu falskir.

Ég hefi margsinnis bent á þá leið að afnema vísitölutryggingarnar, - árum saman "tuggið" á þessu sama, - en enginn hefur hlustað.

En kannske sannast enn hið fornkveðna, " að sjaldan er góð ´tugga´of oft ´tuggin´.

Tryggvi Helgason, 17.5.2009 kl. 18:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband