Föstudagur, 17. apríl 2009
"Almennt verð"
Í gærkvöldi keypti ég veitingar á stað sem ég sæki óreglulega og fannst eins og verðið hefði lækkað um 100 kr. frá því síðast - og spurði hverju sætti. Svar starfsmannsins var eitthvað á þesa leið:
Það voru svo margir með afslátt að við lækkuðum bara almenna verðið niður í afsláttarverð.
Það tók því sem sagt ekki að hafa "almennt verð" fyrir alla (fæsta reyndar) nema þá (flesta) sem njóta annars og lægra verðs. Með þessu þótti mér hafa sannast réttmæti þeirra afstöðu sem ég hafði nefnt á útvarpi Sögu nokkrum klukkustundum fyrr. Í síðdegisútvarpinu milli 4 og 5 var ég í löngum viðtalsþætti um ýmis neytendamál spurður hvort neytendur ættu ekki að vera duglegri að prútta eins og menningarskylda er í sumum fjarlægum löndum. Ég lagði að vísu mikla áherslu á neytendavitund sem flestra - um réttindi sem verð. Á hinn bóginn sagðist ég frekar aðhyllast jafnræði í verðlagningu fyrir alla (burtséð frá magnafslætti og slíku) frekar en að eitt "almennt" verð væri fyrir suma (oft flesta) og annað og lægra "tilboðs-", "vildarvina-" eða "afsláttarverð" fyrir hina (gjarnan færri) sem tilheyra einhverjum hópi eða leggja sig fram um að prútta.
Þó að þessi afstaða eigi e.t.v. ekki við í öllum tilvikum má nefna að tilgangur verðskrár og verðmerkinga á vöru og þjónustu er einmitt að neytendur geti fyrirfram og án samningaviðræðna við fulltrúa söluaðila gert sér grein fyrir - almennu og raunverulegu - verði og farið annað eða beðið eða sleppt kaupum ef verðið hugnaðst þeim ekki.
Við þetta bætist að dæmi eru um að neytendur séu blekktir með því að halda að afsláttur sem þeim sé lofað sé meiri en ella; það sem máli skiptir er jú verðið en ekki afslátturinn. Ég hef hugleitt hvort þetta kalli á tillögu um löggjöf um málið en ekki látið verða af því enn.
Heimur batnandi fer.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Gott að heyra svona fréttir
Hólmfríður Bjarnadóttir, 17.4.2009 kl. 17:04
Góður pistill. Það er gott að heyra af seljendum sem hafna afsláttarpólitíkinni enda réttar og óheftar upplýsingar grunnforsenda þess að markaðurinn starfi rétt þannig að neytendur velji þá sem raunverulega bjóða þeim bestu kjörin. Með aðgengi að raunverulegum upplýsingum um verð byggja neytendur enda ákvarðanir sínar á staðreyndum fremur en tengslum og tilfinningum.
Valan, 17.4.2009 kl. 18:16
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.