Fimmtudagur, 16. apríl 2009
Sjö hestar andskotans
Alveg fram undir kreppu máttu þeir sem efuðust um réttmæti verðtryggingar sæta ámæli stjórnmálaafla og hagfræðinga - en nú efast fleiri. Gunnar Tómasson hagfræðingur, sem mun hafa verið meðal þeirra sem fyrst og lengst efuðust um réttmæti verðtryggingar, skrifar gagnorða og góða grein í Fréttablaðið í gær um Hagfræði andskotans. Þar svarar hann Guðmundi Ólafssyni lektor mjög vel villandi dæmi um hestana sjö - eins og ég leitaðist við síðsumars með þessum hætti:
Málið er að lántakandi tekur einmitt 10 hesta (krónur) að láni og vill vita hvað hann á að greiða til baka í leigu (vexti) auk höfuðstólsins (hestanna 10, auðvitað). Hér á landi bætist hins vegar við óviss fjöldi folalda (verðbóta) sem er mældur eftir á - miðað við það sem nágrannabóndinn hefur náð í ávöxtun með því að hafa sínar hryssur heima með með fola. Væri ekki eðlilegra að lánveitandinn semdi um vexti með hliðsjón af þeim fórnarkostnaði - eina tegund vaxta en ekki tvær?
Meint rýrnun lánsins (verðbólga) er mæld sem það sem lánveitandinn er talinn hafa farið á mis við með því að verðbólga var ekki bara hærri en búist var við heldur bara einhver. Ég gæti ímyndað mér að réttlátara þætti ef áhættu af umframverðbólgu yfir einhverri tilgreindri spá (t.d. 2,5% eins og verðbólgumarkmið Seðlabankans) væri skipt á milli lánveitanda og lántakanda.
Gunnar svarar Guðmundi m.a. með þessum orðum:
Þetta er rugl - einum hesti verður ekki umbreytt í stóð né kaffipakka í skipsfarm af kaffi með einfaldri tölvufærslu líkt og dugar til að margfalda nafnvirði peninga í hagkerfinu. Skipsfarmur af framleiðsluvörum getur týnst í hafi en pappírsauður getur horfið eins og dögg fyrir sólu sbr. hlutafé í íslenzku bönkunum í byrjun október 2008. Vitræn umræða um verðtryggingu krefst þess að raunverðmætum sé ekki jafnað til ávísana á verðmæti - að hestum og kaffi sé ekki jafnað til peninga/ávísana á hesta og kaffi.
Flokkur: Viðskipti og fjármál | Facebook
Athugasemdir
Vertryggingin er því líkur óskapnaður og setur frjármál fólks og fyrirtækja í svo mikið uppnám að slíkt er með ólíkindum.
Hólmfríður Bjarnadóttir, 16.4.2009 kl. 15:20
Guðmundur Ólafsson og Sigurður G. Tómasson á útvarpi Sögu eru miklir talsmenn verðtryggingar. Það er ákaflega dapurt að þeir skuli ekki svara síma í þeim þáttum sem Guðmundur er gestur í hjá Sigurði.
Í einum af þessum þáttum þeirra fyrir nokkrum árum sagðist Guðmundur hafa tekið að láni nokkrar milljónir vegna viðhalds á húsnæði og hagfræðingurinn sjálfur sem lofar verðtryggingu tók gengistryggt lán. Auðvitað hefur hann valið besta kostinn á þeim tíma enda sáu þeir félagar þróun mála hér á landi fyrir langt á undan flestum öðrum, að sögn þeirra sjálfra.
Sú hugmynd hefur skotist uppí koll mér hvort geti verið að Guðmundur sé hugmyndasmiður eða einn af hugmyndasmiðum verðtryggingar ?
Hesturinn hans Guðmundur sem breyttist í "stóð" eru helstu rök sem hans fyrir verðtryggingu. Hann er sennilega með "Hagfræðimenntun frá Hólum"
Páll A. Þorgeirsson, 16.4.2009 kl. 17:18
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.