... lög um fjármál stjórnmálaflokka eru væntanlega óbein réttarbót fyrir neytendur

Eins og ég boðaði í gær vil ég velta því upp hvaða afleiðingar það kann að hafa haft fyrir neytendur að fram til 2007 giltu hér engin almenn  lög um fjármál stjórnmálaflokka o.fl. Langa reynslu af framkvæmd laganna skortir enn og þau eru raunar aðeins nýlega komin til framkvæmda með nýlegri birtingu Ríkisendurskoðunar á nöfnum lögaðila sem styrkja flokka (og síðar væntanlega frambjóðendur); því verður þetta fyrst og fremst ályktun.

 

Ég vil rifja upp nýlega frétt um eigið mat Viðskiptaráðs árið 2006 á áhrifum þess á lagasetningu - hvorki meira né minna en 90% - en ég man vel hvað mér fannst þetta merkileg mæling og í raun öfundsverð fyrir þann sem stundum gætir andstæðra hagsmuna. Ég verð að segja að því miður hafa þeir, sem gæta eiga hagsmuna neytenda, hingað til ekki haft nándar nærri eins mikil áhrif á stjórnvöld - en ég hef yfir 10 ára reynslu af hagsmunagæslu fyrir launafólk og neytendur. Þó að ég hafi enn ekki lagt í sambærilega mælingu á þeim áhrifum - eða því áhrifaleysi - hvað varðar umsagnir talsmanns neytenda til nefndasviðs Alþingis - eða gagnvart undirbúningsstarfi löggjafar innan Stjórnarráðsins - þá kemur slíkt vel til greina. Í þessu áhrifaleysi launafólks, almannahagsmuna og neytenda eða áhrifamisvægi gagnvart löggjafanum og ekki síður stjórnvöldum kann aðalskaðinn að hafa falist í því að lög skorti um fjármál stjórnmálaflokka.

 

Um þetta sagði ég í fyrsta neytendapistli mínum um nefnda löggjöf:

 

Almannasamtök

Sama má væntanlega segja um samtök neytenda eða önnur almannasamtök sem vinna að framgangi hagsmuna neytenda enda verða þau undir sömu takmörkunum og aðrir lögaðilar og einstaklingar varðandi hámark 300 þús. kr. á ári. Geng ég út frá því að slík samtök hafi ekki styrkt stjórnmálaflokka eða frambjóðendur í neinum mæli síðustu áratugina. Byggi ég það bæði á beinni reynslu minni og óbeinni þekkingu af starfi og rekstri hagsmunasamtaka á borð við samtök launafólks um árabil. Má því væntanlega slá því föstu að staða almannasamtaka sé einnig óbreytt gagnvart lögunum. Möguleikar hagsmunasamtaka til þess að hafa áhrif á stjórnmálastarfsemi felast væntanlega eftir sem áður einkum í því að hafa áhrif á opinbera umræðu um hagsmunamál félagsmanna sinna.

 

Að gefnu tilefni er rétt að taka fram að löggjafinn ákvað því miður að prófkjörsákvæði laganna  skyldi ekki taka gildi fyrr en tæpu hálfu ári seinna en lögin að öðru leyti - þ.e. eftir prófkjör og alþingiskosningar vorið 2007:

 

Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2007. Ákvæði laganna um prófkjör taka þó ekki gildi fyrr en 1. júní 2007.

 

Minnt skal á að löggjafinn er sá sami og stjórnarskrárgjafinn nema hvað stjórnarskrárbreytingar þarf að samþykkja tvívegis með alþingiskosningum á milli; hér er því enn ein birtingarmynd þess að meðan ekki er sett á sérstakt stjórnlagaþing hefur Alþingi sjálfdæmi um eigin starfsumhverfi. 

 

Þar sem fjölmiðlar virðast nú sjá - og flokkar sjá eftir - að lögin voru annmörkum háð og komu full seint til er rétt að minna á eftirfarandi ákvæði í lögunum:

 

Forsætisráðherra skal eigi síðar en 30. júní 2010 skipa nefnd fulltrúa allra stjórnmálaflokka á Alþingi til að endurskoða lög þessi og framkvæmd þeirra.

 

Kannski rétti tíminn sé núna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband