Mánudagur, 30. mars 2009
"Ábyrgðaleysi"
Loks kom að því að því ábyrgðarleysi yrði útrýmt með lögum að einhver annar bæri ábyrgð á því langtímaviðskiptasambandi, sem felst í að lána fé til annars, en aðalsamningsaðilarnir tveir. Hverjir aðrir ættu að taka ábyrgð á viðskiptum sínum en annars vegar lánveitandinn - yfirleitt stór, sérfróður og fjársterkur aðili á borð við banka eða lífeyrissjóð - og hins vegar lántakandinn - oft lítill, ólögfróður og fjárvana einstaklingur - neytandi? Þetta er séríslenskur (ó)siður sem að lokum var afnuminn með víðtækum pólitískum stuðningi.
Lúðvík Bergvinsson, formaður þingflokks Samfylkingarinnar, á að mínu mati þakkir skildar fyrir að halda þessu máli til streitu - innan sem utan stjórnarmeirihluta - árum saman. Hafði ég nánast engar athugasemdir við þverpólitískt frumvarp, sem hann hafði forgöngu um, er ég veitti skriflega og munnlega umsögn um málið fyrr í mánuðinum.
Að vísu hafði töluverð réttarbót orðið frá 2001 þegar þáverandi viðskiptaráðherra, Valgerður Sverrisdóttir, kom á samkomulagi meðal hagsmunaðila sem takmarkaði (mis)notkun ábyrgða gagnvart neytendaskuldbindingum en þessi réttarbót gengur lengra og er óháð aðild að samtökum og samkomulagi þessu. Dómstólar höfðu byggt á því samkomulagi sem réttarheimild en engu að síður var hætta á óvissu um gildi þess - og einkum vandamál við að samkomulagið tók aðeins til þeirra sem vildu standa að því!
Í umsögn minni minntist ég t.a.m. ekki á 8. gr. frumvarpsins, sem reyndist umdeildust, enda taldi ég hana eðlilega og neita því ekki að ég hugsaði - áður en vísbendingar bárust um annað - að þetta væri enn eitt "þingmannafrumvarpið" sem í valdakreðsum njóta minni virðingar en svonefnd stjórnarfrumvörp; frumvarpið var næstum of gott til að vera satt eins og sagt er á enskri tungu. Aðspurður um 8. gr. eftir ábendingar frá hagsmunaaðilum hinum megin borðs um að ákvæðið myndi nánast útrýma ábyrgðum og leiða til þess að þeir, sem verið hefðu ábyrgðarmenn fyrir aðra (t.d. börn sín), yrðu framvegis aðalskuldarar, þ.e. lántakendur, í staðinn sagði ég að ef svo færi yrði svo að vera.
Grundvallaratriðið er að lántakendur sjálfir bera ábyrgð og lánveitendur líka, t.d. með raunhæfu mati á greiðslugetu lántakenda.
Annmarki á frumvarpinu er þó að það lagfærir ekki vöntun í annarri réttarbót sem var samþykkt í dag og ég get fjallað um síðar: greiðsluaðlögun. Í umsögn minni segir:
Um 9. gr. - Um greiðsluaðlögun
Tillaga
Lagt er til að á eftir orðinu eftirgjöf í 3. mgr. 9. gr. komi orðin , þ.m.t. í tengslum við greiðsluaðlögun,.
Rök
Lagt er til að bætt verði úr annmarka á þremur frumvörpum (275., 278. og 281. mál) sem eru til meðferðar á yfirstandandi þingi með því að kveða hér skýrt á um að greiðsluaðlögun skuldara fylgi sams konar aðlögun eða niðurfelling gagnvart ábyrgðarmanni í samræmi við tilgang þessa frv. og þeirra frumvarpa.
Ábyrgðarmennirnir burt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.