Prófessorarnir telja almenna skuldauppgjöf skilvirkasta

Í umtalaðri skýrslu Jóns Daníelssonar, prófessors við London School of Economics, og Gylfa Zoega, prófessors við Háskóla Íslands, er vikið að stuðningi fyrir heimili og fyrirtæki. Þar segir m.a. að verulegur fjöldi heimila og fyrirtækja eigi við alvarlega erfiðleika að stríða og að við mörgum blasi gjaldþrot. Þá er fullyrt að til þess að mæta þessum vanda hafi ferli gjaldþrotaskipta að miklu leyti verið fryst. Þetta held ég reyndar að sé ofmælt því að ný ríkisstjórn hefur vissulega kynnt áform um frestun fullnustugerða auk þess sem sú fyrri sendi frá sér ýmis tilmæli um að sýna sveigjanleika - en lög hafa enn ekki verið samþykkt í þessu efni. Þá segir í ritgerð prófessoranna:

 

Einnig hefur verið gripið til aðgerða til þess að létta greiðslubyrði lána einstaklinga.

 

Það eru orð að sönnu en prófessorarnir gefa í skyn að varanlegri lausn þurfi að koma til - og má skilja þá þannig að þar eigi neytendur einnig að njóta sanngirni í kjölfar gengis- og kerfishruns:

 

Skuldaniðurfellingar í einhverju formi eiga sér nú þegar stað. Sú staðreynd að bankarnir eru í höndum ríkisins, þ.e. flestar skuldir einkaaðila eru gagnvart hinu opinbera, auðveldar skipulagningu slíkrar skuldaniðurfellingar. [prentvilla leiðrétt]

 

Þetta er skiljanleg afstaða og raunsæ en hún er þó vonandi ekki rót þeirrar nálgunar sem lesa má úr stjórnarfrumvarpi um greiðsluaðlögun sem forseti ASÍ, Gylfi Arnbjörnsson, gagnrýndi - að mínu mati með réttu - í hádegisfréttum hljóðvarps í gær með vísan til þess að ójafnræði fælist í því að niðurfelling skulda með greiðsluaðlögun yrði takmörkuð við skuldir hjá lánastofnunum í ríkiseigu. Prófessorarnir Gylfi og Jón virðast þó aðhyllast almennari leið til niðurfærslu höfuðstóla lána - neytenda og annarra sem ekki eru taldir "ábyrgir fyrir hruninu" - því þeir segja að skilvirkasta leiðin til skuldaniðurfellingar væri

 

að koma á einföldu kerfi þar sem það sama myndi yfir alla ganga. Þetta er þó útilokað pólitískt séð þar sem það myndi fela í sér almenna skuldauppgjöf fyrir þá sem taldir eru ábyrgir fyrir hruninu. Einnig er ekki skynsamlegt að fella niður skuldir eignarhaldsfélaga og fyrirtækja sem ekki eiga framtíð vegna breyttra aðstæðna í hagkerfinu.

 

Af þessu má ráða að prófessorarnir telji ekkert því til fyrirstöðu að neytendur og aðrir sem ekki bera ábyrgð á hruninu fái almenna skuldauppgjöf.


mbl.is Vítahringur í peningamálum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Mig langar að benda á þá staðreynd að Nýja Kaupþing gerir ráð fyrir að 67,7% af lánum til innlendra viðskiptamanna (loans to customers) verði færð á afskriftarreikning (impairments on loans to customers) samkvæmt skýrslu Ólafs Garðarssona hæstaréttarlögmanns og skiptastjóra gamla Kaupþings. Ef hér er ekki borð fyrir báru til að gera nákvæmlega það sem Jón og Gylfi leggja til, þá veit ég ekki hvenær slíkt tækifæri gefst.

Marinó G. Njálsson, 10.2.2009 kl. 22:28

2 Smámynd: TARA

Langar til að byrja á því að hrósa þér fyrir góðar greinar og vel skrifaðar.

Þetta styð ég af heilum hug....það blasir gjaldþrot við svo mörgum að það er skelfilegt.  Fólk er að sligast undan þessu.

TARA, 10.2.2009 kl. 22:55

3 Smámynd: Kristján Sigurður Kristjánsson

Það er ekki svo að sagan hafi byrjað árið 1990. Hvað var gert í Evrópu eftir stríðið? Eða hvað er verið að gera eftir stríðið á Balkanskaga?

Kristján Sigurður Kristjánsson, 10.2.2009 kl. 23:53

4 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Þakkir fyrir góðan pistil Gísli og ykkur hinum fyrir málefnalegar og fróðlegar viðbætur.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 11.2.2009 kl. 00:46

5 Smámynd: Jóhannes Snævar Haraldsson

Ég hef verið að benda á þetta líka.

Í mínum huga má skipta efnahagskerfinu upp í þrennt. Neitandi - framleiðandi og svo peningar/fjármagn.

Í mínum huga er neitandinn langmikilvægastur. Grundvöllur þess að hagkerfið snúist er að neitandinn fari aftur að kaupa vöru/þjónustu.

Þess vegna vil ég létta sem mestu af sem flestum. Annars gerum við fjölda fólks/heimila að þrælum skuldanna og tökum þá úr sambandi sem neitendur í langan tíma, og hagkerfið fer mun seinna að snúast en ella.

Frjálshyggjan sér þetta að sjálfsögðu ekki, hún lítur á fjármagnið sem heilagt.

Jóhannes Snævar Haraldsson, 11.2.2009 kl. 13:01

6 Smámynd: Ingvar Arnarson

Þetta er með því heimskara sem ég veit. Á engin að taka ábyrgð á gjörðum sínum?? Hverjir eiga að borga þessar skuldir? Hvar enda þær??

Ingvar Arnarson, 11.2.2009 kl. 16:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband