Föstudagur, 9. janúar 2009
Viðbrögð við misbeitingu gagnvart framleiðanda - og þar með hagsmunum neytenda!
Í gærmorgun hringdi í mig ónefndur íslenskur framleiðandi og sagði farir sínar ekki sléttar. Stundum eru orð til alls fyrst. Í þessu tilviki kann að vera réttlætanlegt að fjalla hér um ábendinguna enda getur hún varla leitt til formlegrar athugunar af hálfu talsmanns neytenda auk þess sem mér varð fátt um svör hvað gera ætti í málinu - þ.e. hvað hann ætti að gera enda tek ég fyrst og fremst við erindum frá neytendum en vísa atvinnurekendum yfirleitt annað ef þeir hafa samband.
Þetta tilvik er af öllum sólarmerkjum að dæma auk þess langt frá því að vera einsdæmi.
Stór - kannski markaðsráðandi - smásöluaðili, sem framleiðandinn skiptir við, beitir hann (og þar með óbeint neytendur) óréttlæti sem minnir á það sem frést hefur af á öðrum mörkuðum og mun hafa verið til athugunar hjá Samkeppniseftirlitinu. Óréttlætið felst í því að það sem hann selur smásöluaðilanum hefur verið lækkað í heildsöluverði vegna þrýstings af hálfu smásöluaðilans. Smásöluaðilinn hefur hins vegar ekki lækkað smásöluverðið - gagnvart neytendum - heldur beinlínis hækkað það.
Enn fremur hefur erlend samkeppnisvara - sem sannarlega hefur hækkað í heildsöluverði vegna gengishruns - verið lækkuð tímabundið hjá sama aðila.
Hvaða úrræði eru tiltæk? Ég er talsmaður neytenda en ekki ráðgjafi atvinnurekenda; eina beina úrræðið sem ég gat vísað honum á er að
Eru önnur úrræði ekki tæk? Annað, sem ég nefndi ekki, er að klaga í fjölmiðla eða ræða við smásöluaðilann um úrbætur - en hvorugt er raunhæft í mörgum tilvikum þar sem framleiðandanum kann að hefnast fyrir.
Ef ekki er um markaðsráðandi aðila að ræða má segja að framleiðandinn þurfi síður á vernd samkeppnislaga og Samkeppniseftirlitsins að halda; þá getur hann frekar beitt markaðsvaldi sínu, greitt atkvæði með fótunum og skipt um smásala - án þess að hagsmunir hans af sem mestri og bestri sölu skerðist. Slíkt er því miður fátítt á Íslandi. Því hafa ýmsir efast um að sömu lögmál eigi við um samkeppni hér og í stærri ríkjum og mörkuðum. Gagnvart markaðsráðandi aðilum er ljóst að hætta getur verið í huga framleiðanda að nýta þetta úrræði og erfitt er að leita annarra úrræða því aðrir kostir í smásölu eru jú takmarkaðir ef þessi smásali er markaðsráðandi. Þess vegna eru frekari hömlur jú lagðar á markaðsráðandi aðila í samkeppnislögum.
Ef neytandi á í hlut leiðbeini ég um færar leiðir og til þess að gæta skilvirkni vísa ég gjarnan á gagnvirka leiðbeiningarvefgátt sem talsmaður neytenda kom á fót í fyrra og nefnd er Leiðakerfi neytenda.
Sú vernd sem framleiðandinn kann að finna í samkeppnislögum er ekki bara veitt hans vegna - heldur líka vegna hagsmuna og réttinda neytenda. Neytendur geta því líka kvartað sjálfir hafi þeir vitneskju eða grun um brot gegn þeim lögum.
Í kvötrunargátt Samkeppniseftirlitsins segir:
Ef þú veist eða hefur grun um að verið sé að brjóta samkeppnislög geturðu nýtt þér eyðublaðið hér að neðan til að senda inn ábendingu til Samkeppniseftirlitsins, nafnlaust eða undir nafni. Við förum yfir allar ábendingar og könnum hvort ástæða sé til afskipta að hálfu Samkeppniseftirlitsins vegna meints brots.
Þá kemur einn reitur fyrir kvörtunina og svo tveir valfrjálsir reitir fyrir nafn og netfang en þar sem unnt er að kvarta nafnlaust segir þar:
Þarf ekki að fylla út
Loks er nánari lýsing, svohljóðandi:
Samkeppnislög banna hvers konar samkeppnishamlandi samráð og misnotkun á markaðsráðandi stöðu. Brot á samkeppnislögum geta verið framin í leynd og valdið almenningi og atvinnulífinu miklu tjóni. Það er því mjög brýnt fyrir Samkeppniseftirlitið að fá upplýsingar um það þegar fyrirtæki hafa með sér ólögmætt samráð um t.d. verð eða skipta með sér mörkuðum. Einnig er mikilvægt að upplýsa Samkeppniseftirlitið þegar markaðsráðandi fyrirtæki misnota stöðu sína.
Hér geturðu komið upplýsingum á framfæri við Samkeppniseftirlitið þegar þú telur þig vita eða þig grunar að beitt sé ólögmætum aðgerðum í samkeppni fyrirtækja.
Settu þig í samband við Samkeppniseftirlitið vitir þú eða ef þig grunar að keppinautar eða önnur fyrirtæki hafi haft samráð eða á einhvern hátt haft samvinnu t.d.
- um verð eða verðlag, álagningu, afslætti eða önnur viðskiptakjör
- um takmörkun á framleiðslu
- við tilboðsgerð þegar verkefni, vörukaup eða framboð á þjónustu hefur verið boðið út
- um að skipta með sér mörkuðum, eftir t.d. viðskiptavinum eða landsvæðum.
- um bindandi endursöluverð á vöru eða þjónustu.
Settu þig í samband við Samkeppniseftirlitið teljir þú þig vita eða gruni þig að markaðsráðandi fyrirtæki hafi gert samning eða samninga við önnur fyrirtæki um einkasölu eða einkakaup á vöru eða þjónustu, bjóði tryggðarafslætti, selji vöru á óeðlilega lágu verði, hafi neitað að selja vöru eða þjónustu eða á annan hátt reynt að viðhalda eða efla markaðsstöðu sína með óeðlilegum hætti og torvelda samkeppni keppinauta sinna.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Frábært hjá þér að koma fram með þetta dæmi, þekki mörg sambærileg. Spurning hvort Mbl. ætti ekki að vera með sérstakan neytendaþátt, þar sem hægt væri að senda inn fyrirspurnir og ábendingar. Talsmaður neytenda er einn af þessum opinberu starfsmönnum sem er að standa sig í hlutverki sínu.
Sigurður Þorsteinsson, 9.1.2009 kl. 23:46
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.