Kostar ekkert?

Bylgjan hafði samband og ræddi við mig í Ísland í bítið í morgun um verðmerkingar. Ég áréttaði að lagaskylda til verðmerkinga væri skýr og fór yfir afleiðingar sem til álita kæmu ef henni væri ekki fylgt.

 

Í fyrsta lagi ætti Neytendastofa að hafa eftirlit með þessu og hefði nýverið hafið skipulagt eftirlit í samræmi við lög og uppfært reglur sem útfæra lögin. Brot gegn reglunum gætu fyrst og fremst varðað stjórnvaldssektum Neytendastofu en fésektum og jafnvel fangelsi ef sakir væru miklar. Þar sem fyrra úrræðið er ekki mjög virkt og hið síðara óraunhæft hef ég lagt til að Neytendastofa birti nöfn þeirra verslana sem vanrækja verðmerkingar. Ábendingar er hægt að senda stofnuninni á vef hennar og auk þess er sem endranær hægt að leita réttar síns með aðstoð Leiðakerfis neytenda á www.neytandi.is.

 

Hins vegar velti ég því upp hvaða afleiðingar það hefði fyrir samskipti einstakra neytenda og verslana ef verðmerking væri ekki fyrir hendi. Óumdeilt er að ef verðmerking í hillu er lægri en kassaverð þá gildir hilluverðið; en hvað ef ekkert hilluverð er eða önnur verðmerking - kostar varan þá ekkert eins og gagnrýnir neytendur gantast oft með? Nei - en á það hefur ekki reynt á Íslandi svo vitað sé hver réttarstaðan er; kannski er kominn tími til. Í gildi er gömul regla um að ef gerður er kaupsamningur um kaup á vöru eða þjónustu en ekki hefur verið samið um verðið þá skuli greiða sanngjarnt verð. Er þá reglu víða að finna í lögum. Á grundvelli hennar getur neytandi væntanlega haldið því fram að ef verðmerking hefur farist fyrir eigi að semja um sanngjarnt (gang)verð en ekki greiða uppsett verð eins og ætti við ef skyldu til verðmerkinga væri fylgt.

 

Útvarpskonan benti hins vegar réttilega á að virkasta úrræðið sem neytendur hefðu sjálfir væri að kaupa ekki vörur sem ekki væru verðmerktar eða versla jafnvel alls ekki við fyrirtæki sem ekki verðmerkja vörur og þjónustu sína eins og skylt er.

 

Svo ættu fjölmiðlar kannski að spyrja stjórnendur fyrirtækja hverju það sæti að verðmerkja ekki vörur og þjónustu!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband